17.04.1941
Efri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

103. mál, stríðsgróðaskattur

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Það er líkt ástatt. um þetta frv. og það, sem tekið var fyrir í gær um tekju- og eignarskatt. Fjhn. Ed. hefur borið það fram fyrir hönd þeirra samningsaðila flokkanna, sem fjölluðu um skattamálin. Það er flutt með sama fyrirvara um einstök atriði, og ég hef sem formaður n, tekizt á hendur að skýra frá frv.

Í raun og veru hefði efni þess getað átt heima með bráðabirgðaákvæðum í skattalögunum. Ég veit ekki með vissu, af hverju því var ekki steypt þar inn í, en ástæðan var ef til vill sú, að þetta frv. var ekki fullsamið, þegar hitt var sent í prentun. Svo er ákvæðið í 1. gr., að auk þess skattgjalds, sem heimilað er með tekju- og eignarskattsl., skuli leggja sér stakan stríðsgróðaskatt á sömu tekjur og þar er um að ræða. Í 1. gr. er svo ákveðið um skattstigann, að ef skattskyldar tekjur nema 50 þús. kr. á ári, greiðist 4% af því, sem umfram er 50 þús., upp í 75 þús. kr. Fer svo skatturinn stighækkandi, þar til skattskyldar tekjur eru orðnar 200 þús. kr., en þar eftir verður hann 35%. Ef frv. þetta nær samþykki, getur tekjuskattur og stríðsgróðaskattur komizt upp í 75% af því, sem fram yfir er 200 þús., auk 12 af hundraði, sem innheimt er handa bæjarsjóðum í öðrum tilgangi. Þetta ákvæði er hreint samkomulagsmál, eins og önnur ákvæði þessa frv. Flokkarnir munu hafa komið sér saman um, að ekki væri ósanngjarnt að innheimta stríðsgróðaskatt af tekjum fyrir 1940 eftir skattstiga þessa frv. Hefur komið fram óánægja frá sumum hv. þm., einkum sjálfstæðismönnum, vegna orðalags þessarar gr., þar sem ekkert er getið um að binda þennan skatt við stríðsgróða. En það er mjög erfitt að koma því fyrir og skilgreina, hvað er raunverulegur stríðsgróði, og mjög undir mati skattan., hvort eigi að telja háar tekjur stríðsgróða eða ekki. En þær tekjur, sem koma undir þennan stríðsgróðaskatt, eru svo háar, að sennilega er í flestum tilfellum um stríðsgróða að ræða. En þó að svo væri nú ekki, lentu skattgreiðendur aldrei nema í lægri flokknum. Að því leyti má segja, að sé nokkuð bætt úr, þó að þetta atriði sé ekki nánar skilgreint í 1. gr. frv.

Þá eru í 2. gr. ákvæði um, að stríðsgróðaskattinum skuli skipta milli ríkissjóðs og þess bæjarfélags, þar sem viðkomandi fyrirtæki er útsvarsskylt, þannig að ríkissjóður fái 60%, en bæjarfélagið 40%. Það er sýnilegt, að stríðsgróðaskatturinn verður greiddur á ýmsum stöðum, þar sem stórútgerð er, og nær engri átt, að hann renni óskiptur í bæjarsjóð, enda gæti hann numið meira en útsvarsþörfin er. Væri óþarfi að gera alla borgarana skattfrjálsa, og þess vegna eru hér sett ákvæði um, að í bæjarsjóð skuli ekki renna nema sem svarar ¼ af niðurjöfnun útsvara á þeim stað, en það, sem er fram yfir þessi 25%, skal renna í ríkissjóð.

Þá er eitt atriði í sambandi við þetta frv., sem ég vil gjarnan fá upplýsingar um hjá hv. fjmrh. Það er tekið fram í 10. gr. tekju- og eignarskattslaganna, að frádráttarhæfur sé sá tekju- og eignarskattur, sem greiddur er á árinu. Nú leit n. svo á, sem flutti frv., að þetta ákvæði skyldi tvímælalaust gilda einnig um stríðsgróðaskattinn, og er meiningin, að hann verði frádráttarhæfur eins og annar tekjuskattur. Nú vil ég gera þá fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort stríðsgróðaskatturinn mundi ekki vera talinn undir tekjuskattinn, að því er snertir ákvæði 10. gr. tekju- og eignarskattslaganna. Að öðrum kosti er nauðsynlegt að bera fram brtt. viðvíkjandi þessu, þar sem flestir munu sammála um, að stríðsgróðaskatturinn sé einnig frádráttarhæfur.

Ég hef svo ekki fleira að segja, og mun engin ástæða til að hafa umr. úr hófi langar að sinni.