03.05.1941
Efri deild: 51. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

103. mál, stríðsgróðaskattur

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Það er nú víst ekki hægt að taka mál rækilegar út af dagskrá en gera það að lögum. Ég gleymdi að vekja athygli hv. þdm. á því smáatriði við 102. mál, sem var á dagskrá hér á undan (frv. um tekjuskatt og eignarskatt), að í niðurlagi 2. gr., liðunum a-c, er ekki átt við þær upphæðir, sem íslenzk útgerðarfélög áttu í varasjóði í árslok 1939. Vona ég, að þessi gleymska mín hafi ekki komið að sök.

Frv., sem hér 1iggur fyrir, hefur tekið tveim breyt. í hv. Nd. Fyrri breyt. er sú, að sá hluti stríðsgróðaskatts, sem renna skal til einstakra bæjarfélaga eða sveitar, má nú nema 40% af niðurjöfnuðum útsvörum á staðnum, en var áður 25%. Það kom nú að vísu fram hér, að þm. voru ekki fúsir að breyta þessu lagaákvæði. Brtt. var borin fram um að hækka þetta upp í 33%, en náði ekki samþykki. En n. getur fallizt á þetta og gerir ekki ágreining um það.

Þá er bætt inn í frv. nýrri 3. gr., þess efnis, að ríkissjóður greiði 6% af stríðsgróðaskatti, sem innheimtur er eftir lögum þessum, til sýslufélaga og þeirra bæjarfélaga, er engan skatt fá samkv. 2. gr. Fé þessu skal skipt í hlutfalli við þann tekjuskatt, sem til fellur í viðkomandi sýslu- og bæjarfélögum. Nefndin ræddi þetta ekkert sérstaklega, en áleit ekki rétt að te ja málið með neinum brtt. um þessi efni og leggur til að samþ. frv. óbreytt.