29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

40. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta frv. fjallar um breyt. á 1. nr. 21 14. júní 1929, um hafnargerð á Skagaströnd. Sjútvn. hefur haft þetta mál til meðferðar og er ásátt um að mæla með, að frv. verði samþ. óbreytt. Efni frv. er það, að framlagsheimild ríkissjóðs er hækkuð úr 285 þús. upp á 300 þús. kr. og ábyrgðarheimild ríkissjóðs úr 320 þús. upp í 600 þús. kr. Það mun vera svo á Skagaströnd, að búið er að vinna að þessum mannvirkjum, aðallega hafnargerð, fyrir sem svarar 400 þús. kr., en það er talið, að til þess að höfnin komi að þeim notum, sem að mun hafa verið stefnt, þá þurfi til hennar talsvert meira fé. Mun liggja fyrir bráðabirgðaáætlun um þetta, þar sem um er að ræða lengingu á hafnargarðinum, sömuleiðis uppmokstur og, að ég hygg, einhverja uppfyllingu. N. þykir rétt að veita þessa heimild, en síðan verður það vitanlega komið undir fjárveitingum Alþ. frá ári til árs, hvað þessu verki miðar áfram. Það er talið, að á Skagaströnd sé bezta aðstaðan til hafnargerðar, a. m. k. við austanverðan Húnaflóa, og því er það, að nokkur áherzla hefur verið lögð á, að þar, væri byggð höfn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.