21.04.1941
Neðri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

108. mál, bæjarstjórn á Akranesi

Flm. (Pétur Ottesen) :

Í grg. þessa frv. er rakinn aðdragandi þess, að það er fram borið. Það er flutt að ósk hreppsn. í Ytri-Akraneshreppi. það er ekki ástæða til að fara nánar inn á þau atriði, sem rakin eru allgreinilega í grg. Þar er m. a. á það bent, að fólki hafi fjölgað allört á Akranesi á undanförnum árum. Íbúatalan er nú orðin það há, að eðlilegt er, að farið sé fram á, að Akranes verði tekið í tölu kaupstaða. Það er vitað um a. m. k. einn kaupstað nú, sem ekki hefur helming íbúa á við Akranes.

Það er enn fremur bent á það í grg., að á sýslufundi, sem haldinn var í Borgarfjarðarsýslu um þetta mál, hafi orðið fullt samkomulag milli sýslun. og fulltrúa frá hreppsn. Ytri-Akraneshrepps um aðalatriðin í væntanlegum fjárskiptum Ytri-Akraneshrepps og sýslunnar. Að þessu leyti hefur þetta mál verið vel undirbúið í þessu efni, sbr. hliðstæð mál.

Ég get getið þess, að árið 1929 voru íbúar á Akranesi 1200, og eins og þá var komið, voru störf oddvita og hreppstjóra svo umfangsmikil, að eigi þótti, að við svo búið mætti sitja. Fékk ég því framgengt að ósk kaupstaðarbúa, að samþ. voru lög um lögreglustjóra þar á staðnum, en hann hefur með höndum lögreglumálin og ennfremur innheimtu á tekjum fyrir ríkissjóð. Á þeim 12 árum, sem liðin eru síðan, hefur íbúunum fjölgað svo, að þeir eru nú orðnir um 2000.

Auk þess dvelur þar margt aðkomumanna á vertíðinni frá desember til maí, og vinna þessir menn að ýmsum störfum í sambandi við útgerðina.

Ég vænti þess, að hv. Alþingi taki vel í þetta mál og afgreiði það, enda þótt nokkuð sé liðið á þingtímann.

Ég hef fengið útdrátt úr fundargerð sýslun. um fjárskiptin og afhent hana formanni þeirrar n., er ég legg til, að málinu verði vísað til. Ég mun svo ekki ræða um þetta frekar, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.