03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Ég var einn þeirra manna, sem fögnuðu þessu frv., og það er kappsmál allra á Akureyri, þar sem sá bær hefur enga húsmæðrafræðslu hjá sér, þó að þetta mál hafi verið þar baráttumál um 30 ára skeið.

Ég get í flestum atriðum fellt mig við frv. eins og það kom frá menntmn., en í sambandi við brtt. á þskj. 316 langar mig til að segja nokkur orð. — Það er þá sérstaklega brtt. við 10. gr. frv., um að fella niður fyrri málsliðinn, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Nú er húsmæðraskóli rekinn í leiguhúsnæði, og greiðir ríkissjóður þá árlega hálfa húsaleigu, enda samþykki fræðslumálastjórnin húsnæði og leigumála.“ — Með því að þetta yrði fellt niður, þá yrði útilokað, að kaupstaðir gætu komið á stofn húsmæðrafræðslu, fyrr en búið er að byggja. Nú get ég upplýst það, að á Akureyri hafa ýmsir áhugamenn, sem eru aðallega í bæjarstjórn, og svo kvenfélag þar í bæ, ákveðið að setja á stofn húsmæðraskóla þar á komandi hausti. Allt útlit er fyrir, að eigi sé hægt að byggja á þessum tímum, a. m. k. ekki fyrir haustið. Ef þessi brtt. ætti að ganga í gegn hér á Alþingi, þá er þar með sleginn botninn í allar ákvarðanir,. sem teknar hafa verið á Akureyri í þessu máli. Með þessu yrði meinað að setja á stofn húsmæðraskóla. Mér finnst það allhlálegt. Ég veit, að ýmsir áhugamenn eru nú í útvegun um húsnæði. Um hinar brtt. ætla ég ekki að segja neitt nema það, að mér finnst meiri rök fyrir, að þær verði felldar. Ég vil aðeins taka þetta fram um brtt. við l0. gr., því hún er þyrnir í mínum augum. Ég get upplýst hv. fyrri þm. Rang. um það, að þetta er ekkert flokksatriði á Akureyri, heldur stendur allur bærinn óskiptur á bak við.

Laugalandsskólinn, sem er næsti húsmæðraskóli, tekur aðeins 40 meyjar, svo eigi verður sagt, að vanþörf sé á líkum skóla á Akureyri.

Ég vona svo, að samkomulag náist um þetta öllum til góðs.