21.05.1941
Efri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Þetta mál hefur fengið afgr. Nd. og verið til meðferðar í menntmn. þessarar d.

Eins og sjá má, er n. ekki sammála um þetta mál. Mér skilst þó, að n. sem heild vilji framgang málsins. Minni hl., hv. þm. S.-Þ., vill gera ýmsar breyt. á frv. Hins vegar hefur meiri hl. tjáð sig fylgjandi málinu óbreyttu. Það kemur berlega fram í nál. okkar meiri hl., að við töldum mjög varhugavert að draga málið mjög úr því, sem komið er. Þó að ýmislegt í frv. mætti betur fara, þá teljum við, að undir engum kringumstæðum megi stofna málinu í þá hættu að gera breyt. á því hér. Þetta er í stuttu máli afstaða meiri hl. n.

Þetta mál er svo kunnugt hér í d., að það er óþarft að fara mörgum orðum um það. Það hefur oft áður verið hér til meðferðar, og nú er því komið svo langt, að fyrir liggur frv. að löggjöf, sem á að tryggja það, að starfræktir verði húsmæðraskólar í kaupstöðum landsins á svipaðan hátt og nú er búið að stofna húsmæðraskóla á nokkrum stöðum í sveitunum.

Um nauðsyn þessa máls býst ég við, að engum blandist hugur. Það má segja, að húsmæðrafræðslan í kaupstöðum landsins hafi verið af skornum skammti hingað til. Ég veit ekki til, að húsmæðraskóli sé á nema einum stað í kaupstað hér á landi, en það er á Ísafirði. Hér í Reykjavík var á tímabili haldið uppi námskeiðum fyrir ungar húsmæður af áhugasömum konum. Húsnæði þessarar starfsemi var lítið og ófullkomið, og lagðist þessi starfsemi ekki sízt niður af þeim sökum. Það hefur að vísu eftir það verið haldið uppi námskeiðum við kvennaskólann hér, sem má segja, að hafi verið bein húsmæðrafræðsla, en það má frekar líta á þá starfsemi sem námskeið en sem skóla. En af þessu má sjá, hve þörfin er brýn fyrir þessa starfsemi hér í Reykjavík og öðrum kaupstöðum landsins. Konur hér í Reykjavík hefur tekið það mjög sárt að hafa hér ekki betri húsmæðrafræðslu. Þær hafa hvað eftir annað leitað til Alþ. um stuðning við málið. En það má með sanni segja, að Alþ. hafi tregðazt við að verða við þeim óskum á undanförnum árum af þeim ástæðum, að það hefur ekki verið talið fært að styrkja svo víðtæka starfsemi vegna fjárhagsvandræða ríkissjóðs. Það er mikil ánægja að sjá, hver skriður er nú að komast á þetta mál og þann áhuga, sem ríkir fyrir því.

Ég er að sjálfsögðu ekki kunnugur því, hvað kenna ber við svona skóla, en sem heimilisfaðir um mörg ár, og eftir að hafa fylgzt nokkuð með lífinu eins og það gengur, þá þori ég að fullyrða, að þjóðhagslega séð er þetta mikilsvert mál. Því að vitanlega veltur mikið á því, hvernig hin unga stúlka, sem verður húsmóðir, kann að fara með lítil efni o. s. frv. Það liggur í hlutarins eðli, að slík fræðsla sem þessi er ein hin mesta þjóðhagslega nauðsyn. Þannig lít ég á þetta mál sem nokkuð reyndur húsbóndi, að þetta hafi þá þýðingu, sem ég hef nefnt. Það er vitanlegt, að það er ekki nema nokkur hluti af hinum eiginlegu heimilum, sem eiga þess kost að búa hinar ungu stúlkur eins og æskilegt vær í undir húsmóðurstarfið. Hinir breyttu tímar hafa gert það að verkum, að það er annað nú en áður var í þessum efnum.

Ég býst við því, að við séum allir sammála um meginatriðin í sambandi við afgr. þessa máls, en um hitt geta verið skiptar skoðanir, hvernig haga skuli fjárframlagi til slíkra skóla, hvernig þeim skuli fyrir komið, hvernig haga skuli kennslu o. s. frv. Ég sé, að minni hl. n. vill gera nokkra breyt. á því, hvað kennt skuli, og vill taka það skýrar fram heldur en í frv. er gert. Ég ætla að bíða með það að ræða frekar um það, þangað til minni hl. hefur gert frekari grein fyrir sínum till. Ég skal taka það fram, að meiri hl. lítur þannig á, að það eigi ekki að gera neinn greinarmun á þeim framlögum, sem ríkissjóður leggur til slíkra skóla, og þeim framlögum, sem hann leggur til hliðstæðra skóla í sveitum. Um þetta er sjálfsagt verulegur meiningamunur milli minni hl. og meiri hl. n., en það mun skýrast betur við frekari umr.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í einstakar greinar frv., — frv. er svo ljóst og auðskilið, að það væri aðeins endurtekning að fara að lesa upp greinar þess. Ég hirði því ekki að rekja þær sérstaklega, því að ég held, að það sé ekkert í þessum gr., sem geti orkað tvímælis um, hvernig skilja beri.

Að síðustu skal ég segja það, að málið var mjög ýtarlega rætt í Nd., og menntmn., sem flutti málið, hafði gengið mjög ýtarlega frá því, áður en það var lagt fram í þinginu, enda varð sú raunin á, að flestar, ef ekki allar, brtt., sem fram komu við frv. í d., náðu ekki samþ. Menntmn. d. stóð svo fast um frv. eins og hún hafði gengið frá því, að meiri hl. d. taldi ekki nauðsýn á breyt., að undanskilinni einni, sem var til þess að hækka framlag til skólans. Að öðru leyti voru mjög fáar till., sem nokkru máli skiptu, samþ. við frv. Þegar svo er í pottinn búið, þá teljum við meiri hl. n. ekki rétt að gera róttækar breyt. á þessu frv., því að líkur eru þá til, að málið mundi þá sofna í Nd. Við teljum, að það væru miklar líkur fyrir því, að frv. gengi ekki fram, ef farið yrði að gera á því stórvægilegar breyt.

Við erum þeirrar skoðunar, að það megi ekki draga lengur að koma þessu í framkvæmd, svo að hægt verði að byrja með fullum krafti þar, sem áhugi er fyrir því að koma slíkri fræðslu á stofn.