21.05.1941
Efri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Mér þykir hlýða að svara hv. frsm. minni hl. að nokkru hans löngu og ýtarlegu ræðu. Ég mun stikla á stærstu steinunum og ekki fara eins nákvæmlega út í alla þá hluti, sem hann greindi, enda brestur mig þekkingu á við hann við að rifja upp ýmislegt úr fyrri skólasögu.

Hann dró í vafa og vildi mótmæla því, sem ég sagði áður, að þetta frv. væri vel undirbúið. Hann sagði, að það væri ekki stjórnarfrv. og ekki samið af menntmn. Þetta er hvort tveggja rétt. Enda sagði ég ekki, að menntmn. hefði samið frv. Ég sagði, að hún hefði gert ýmsar breyt. á því og lagfært það á þann veg, að hún teldi sér sæma að flytja það og fylgja því fram. Annars er frv. samið af landskunnum manni í skólamálum, það þarf því enginn að ætla sér, að það sé gert af neinum viðvaningi. (JJ: Því ekki að nefna nafn?) Hv. þm. veit, hver þessi maður er. (JJ: Nei. Maðurinn hefur ekki notað gáfurnar.) Og þar hafa fleiri komið að verki, Þetta er undirbúningur málsins. Eins og hv. þdm. er kunnugt, stóð hv. menntmn. Nd. svo fast saman um þetta frv., að allar þær breyt., sem voru henni ekki að skapi, voru felldar.

Um það atriði, að hér sé um svo mikinn ríkisrekstur að ræða, er því til að svara, að allir okkar skólar eru að meira eða minna leyti ríkisrekstur. Við skulum taka til dæmis æðri skóla. Ég veit ekki betur en það sé ríkið, sem rekur þá. Ég sé ekkert hættulegt við það, þó að hér sé bætt við skóla, sem ríkið ætti bróðurpartinn í, til þess að ala upp þann hluta þjóðarinnar, sem við vitum, að hefur mikla þjóðhagslega þýðingu, að sé sem bezt undir lífið búinn sem völ er á. Ég get tekið undir það, sem hann að öðru leyti sagði um ríkisrekstur, því ég vil fylgja ríkisrekstri þar, sem ég tel, að hann eigi við.

Þá fór hann út í að tala um, að enginn áhugi lægi á bak við þetta mál. Það kann að vera, að svo hafi verið á undanförnum tímum, en það getur enginn verið í vafa um, að áhugi sé fyrir málinu nú.

Síðan fór hann að tala um, að reynslan talaði sínu máli um það, að jafnvel þó búið væri að setja lög um skóla, þá sé dregið svo mikið að byggja þá. Hann vitnaði þar í ýmsa staði á landinu, og ég efast ekki um, að það sé rétt. Þetta sannar ekkert annað en það, að úr því að við höfum sett þessi lög og skólarnir hafa ekki veriðbyggðir, þá er hér ekkert nýtt á ferðinni. En ég efast ekki um það, að í mörgum tilfellum hafa fjárhagsörðugleikar valdið því, að ekki hafa verið byggðir fleiri skólar í kaupstöðum landsins en gert hefur verið. Hann vitnaði hér sérstaklega í Reykjavík, sem hefði borið skylda til að leggja fé til byggingar gagnfræðaskóla. Þetta er rétt. En hv. þm., sem einnig er fulltrúi í bæjarstjórn Reykjavíkur, veit, hvernig fjárhag bæjarins hefur verið háttað undanfarin ár og hvort hann hefur haft getu til þess að leggja fram mikla upphæð til byggingar slíks skóla. Hins vegar geng ég þess ekki dulinn, að meiri hl. bæjarstjórnar hafi ráðið nokkru um, að ekki hefur verið ýtt undir að hefjast handa um byggingu skólans. Hitt blandast mér ekki hugur um, að sú fjárhagskreppa, sem bærinn hefur verið í, hafi þar átt sinn hlut að máli.

Nákvæmlega það sama, sem hv. þm. benti á, hefur gerzt á Akureyri. Gagnfræðaskólinn þar er í leiguhúsnæði. Ég býst við, að það sé af sömu ástæðu, að þar hefur ekki verið byggður skóli.

Þetta var nú þungamiðjan í hans inngangi, áður en hann fór að ræða þær brtt., sem hann gerði við frv.

Hv. þm. talaði um ólíka aðstöðu sveita- og bæjaskólanna. Ég skal fúslega viðurkenna það, að aðstaðan er nokkuð önnur að byggja skóla í dreifbýli heldur en þéttbýli. Það eru ekki líkur til, að skólarnir geti verið eins stórir í dreifbýlinu eins og í þéttbýlinu. En þetta hlýtur að leiða af sér það, að í þéttbýlinu þýðir það meira húsnæði og meiri kennslukraft. Þetta þýðir, að leggja verður meira til kaupstaðaskólanna en sveitaskólanna, þar sem aðsóknin er minni vegna lakari aðstöðu. Og hann sagði það rétt, að í sveitaskólunum er óumflýjanlegt að hafa heimavist. Ég er enginn skólamaður, en er þó sannfærður um það, að kostnaður sveitaskólanna við að hafa heimavist þarf ekki að vera svo mikill, ef stjórn þeirra er í góðu lagi. Þess betur er hægt að koma við uppeldislegum áhrifum kennara, ef þeir hafa nemendurna að staðaldri undir sinni stjórn og leiðsögn. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, að bezt sé að hafa heimavist í kaupstaðaskólunum að svo miklu leyti sem hægt er að koma því við, því það elst upp allt annar þroski hjá þeim nemendum, sem að staðaldri lúta sínum kennurum og góðri skólastjórn. Þetta er reynsla, sem mér fróðari menn hafa látið uppi í ræðu og riti um skólamál annarra þjóða. Nú er það svo hér í Reykjavík, að konur, sem staðið hafa að þessari hreyfingu í bænum, eru þeirrar skoðunar, að það sé tvímælalaust nauðsynlegt að hafa hér heimavistarskóla, vegna þess að ekki sé hægt að kenna stúlku út í yztu æsar allt það, sem hún nauðsynlega þarf að læra, nema hún starfi að einu og öllu í skólanum. Þess vegna þarf hún, með náminu, að vera nokkurs konar starfsstúlka í skólanum. Og þar hafa hugsað sér, að hafðar væru að staðaldri 20 til 25 stúlkur við skólann.

Minni hl. menntmn. segir t. d. í sínum till.: Það þarf að kenna stúlkunum þvott og ræstingu. — Hvar á að kenna þeim þvott og ræstingu, ef ekki í skólanum sjálfum? Svo ég sé ekki annað en minni hl. sé meiri hl. sammála um, að þessi kennsla þurfi að fara fram, og að hún fari bezt fram, ef hægt er að koma því við, að hún fari fram í skólunum sjálfum.

Ég er hv. þm. sammála um það, að í bæ eins og Reykjavík sé það nauðsynlegt fyrir framtíðina, að skólarnir verði hér margir. Nú er þegar fengin byrjun að einum skóla. Ég býst ekki við, að hægt sé að fá leiguhúsnæði, svo að það verður þá næsta stig að örla saman fé til þess að byggja skóla, og þá er spurningin, hvar á að byggja þann skóla. Getur hann ekki verið utan við bæinn, þar sem hægt er að njóta meira frjálsræðis? Ég álít það vel til fallið, ef hægt væri að rækta matjurtir og blóm kringum skólana, ef slíkir skólastaðir væru hér í nágrenni Reykjavíkur. Það er óráðið mál, hvar bæjarstjórnin hugsar sér skólastað, en mér gæti dottið í hug staður hér í nágrenni bæjarins.

Ég skal svo ekki fjölyrða um innganginn í hans ræðu. Ég ætla aðeins að víkja örfáum orðum að brtt. þeim, sem hann hefur borið hér fram.

Ég sé ekki, að í hans brtt. við frv. felist nokkuð, sem ekki má geyma. Í fyrstu brtt. við 5. gr. er t. d. bara dálítið meiri upptalning á, hvað kenna skuli, heldur en í frv., en það er meira til að sýnast, því í 5. gr. frv. stendur allgreinilega um það, að kenna skuli þær sömu námsgreinar, sem taldar eru upp í brtt. hans við 5. gr. Eitt af því, sem hann leggur ríka áherzlu á, er meðferð ungbarna, og það er í frv. Svo er einnig um handiðnir, sem hann vill telja upp. Þetta eru allt saman handiðnir, sem hreinn óþarfi er að telja upp. Ég sé ekki annað en þetta sé frekar gert til að gefa tilefni til breyt. heldur en þess sé þörf. Svo segir hann : „Heimilt er með reglugerð að ákveða fleiri námsgreinar.“ Það er nákvæmlega sama og í frv. Ég sé ekki annað en skólinn geti starfað með reglugerð, þótt þessi till, verði felld.

Um stjórn þessara skóla erum við sammála um það, að skipuð skuli 5 manna n., sem hafi yfirstjórn skólanna, en hann vill ekki láta það gilda um aðra staði en Reykjavík. Ég hygg, að nú og framvegis, eins og verið hefur hingað til, þyki heppilegra, að skólanefndir gagnfræðaskólanna blandi sér ekki inn í þessa fræðslu, eins og lagt er til í hans brtt. Ég geri ráð fyrir, að það veljist aðrir menn í þetta, sem hafa sérstakan áhuga fyrir að koma þessari fræðslu af stað og vilja stuðla að því á einn eða annan hátt. Ég sé ekki, að það þurfi að verða til þess að torvelda þetta mál, þar eð sennilegt er, að nógir menn fáist til að starfa í slíkum n. sem þessum.

Þá kem ég að höfuðágreiningnum, brtt. við 8. gr. Ég gat um það í fyrri ræðu minni, að ég vildi ekki gera neinn verulegan greinarmun á, hvort skólarnir væru í sveit eða bæ. Það er m. a. af því, að í þessu efni eru svo mörg verkefni í bæjunum óleyst. Til þess að byggja þessa skóla þarf svo stórt átak, að ríkið verður að leggja fram bróðurpartinn til að koma þeim upp.

Hv. þm. talar um, að í frv. sé um ósamræmi að ræða, en hér held ég að fylgi lítil alvara.

Hann telur, að of miklu sé hlaðið á ríkissjóð og vill samræma ákvæðið í 10. gr. frv., sem er um það, að ríkissjóður greiði hálfa húsaleigu, sé húsmæðraskóli rekinn í leiguhúsnæði. Ég tel, að meðan skólarnir eru í leiguhúsnæði, þá sé sanngjarnt, að ríkið borgi hálfa húsaleigu, því að með því er ýtt undir þá að byggja, svo að þeir þurfi ekki að borga nema ¼ af stofnkostnaði.

Þá talar hv. þm. um bjartsýni. Það hefur nú verið minnzt á það fyrr. Það er ekki nema eðlilegt, að menn séu bjartsýnir í öllum fjárútlátum eins og stendur. Við vitum það, að okkur vantar margt annað frekar en peninga. Um hitt getur hann verið sannspár, hvernig verði um ófyrirsjáanlega framtíð. Annars vitum við báðir jafnlítið, hvernig styrjöldin endar og hvert hlutskipti okkar verður að henni lokinni. En það er viðbúið, ef við tökum dæmi af fyrri styrjöld, að við siglum í sama kjölfarið og okkar bíði þrengingar, en þá er mér ljóst, þegar skera þarf niður, að það verður að gera það á öllum sviðum, jafnt sveitaskólum og kaupstaðaskólum sem öðru.

Það getur vel verið, að með þessu máli sé verið að búa til fyrirhyggjuleysi, en ég get ekki séð það. Og við erum báðir nokkuð sammála um, að hér sé um menningarmál að ræða. Fyrirhyggjuleysið liggur þá í því, að ríkissjóður leggur fram þann hluta, sem er umfram það, sem hann leggur til í sínum till.

Að síðustu þetta : Ég hygg, að það sé með þessa löggjöf eins og margar aðrar, sem settar eru í fyrsta sinn, að menn geti ekki séð fyrir alla hluti. Það er náttúrlega lítil reynsla fengin fyrir húsmæðrafræðslu í kaupstöðum ennþá, en ég ætla, að ekkert sé hægara, að fenginni reynslu, en að breyta því, sem illa fer núna. Það er ekkert óvanalegt, að við breytum hér lögum ár eftir ár, og það meira að segja vel undirbúinni löggjöf, jafnvel löggjöf, sem hv. þm. S.-Þ. hefur verið með í að hrinda í framkvæmd.

Eðlileg reynsla talar sínu máli, og nákvæmlega sama skeður hér. Við skulum samþykkja frv. eins og það er nú og breyta því á næsta þingi, ef reynslan sýnir, að þess sé þörf.