29.04.1941
Efri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

44. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Um það, að sagt er, að afstaða sé breytt hér á þingi gagnvart húsmæðrafræðslunni í kaupstöðum, vil ég segja það, að það sé ekki frá minni hendi. Því að það hafa farið fram samtöl um þetta mál milli ríkisstj. og þeirra kvenna, sem hafa beitt sér fyrir því, að húsmæðraskólar kæmust hér á fót. Og það hefur alltaf verið lögð áherzla á það í þeim samtölum, allan þann tíma, sem um þetta hefur verið talað, að þegar hér í bæ væri sýndur áhugi og félagssamtök kvenna, og sá áhugi kæmi fram í því, að lagt væri fram fé á líkan hátt til þess málefnis eins og lagt hefur verið fram fé til húsmæðraskólanna í sveitunum, þá mundi ekki standa á, að fé væri lagt fram af því opinbera fyrir þetta mál. Nú er meira um peninga heldur en venjulega, enda eru meiri samtök um þetta mál hér í bænum heldur en verið hefur nokkurn tíma áður. Þegar þessi félagssamtök töluðu við mig í vetur, var því lofað af mér og ríkisstj. allri, að þetta mál, frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, gengi fram. Ég hygg, að ég fullyrði ekki of mikið, þó að ég segi, að það sé vissa fyrir meirihl.-fylgi við þetta mál hér á Alþ. nú. Við, sem erum í ríkisstj., reynum alltaf að lofa með sem mestri gát, því sem lofað er, en svo víst hef ég talið, að þetta mál hefði mikils meiri hl. fylgi á Alþ., að þessar konur hafa nú þegar keypt hús hér í bænum og lagt út fyrir það fé í því trausti, að þetta frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum yrði samþ. á þinginu nú. Og ég get sagt hiklaust, að ég vildi ekki, að það kæmi fyrir, þar sem þetta er gert í samráði við mig og ríkisstj., að það frv. yrði ekki samþ. Ég álít því hv. d. hafa fulla tryggingu fyrir því, eftir þessar upplýsingar, að frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum verði að l. Þessar upplýsingar gef ég að gefnu tilefni, en álít hins vegar ekki sérstaklega sanngjarnt, að frv. verði afgr. saman, eins og um hefur verið talað hér.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefur verið hér um samræmingu styrkjanna til þessara skóla, tel ég auðvelt að finna leið til þess að breyta hinu frv. í Nd., til þess að þessi samræming fáist.

Það má geta þess, að það hefur komið fram nokkur ágreiningur um það, hvort styrkinn ætti að miða við nemendatölu. Á því ætti að gera hámark, því að skólar, sem hafa 12 til 20 eða jafnvel 30 nemendur, eru vitanlega tiltölulega dýrari í rekstri, miðað við nemendatölu, heldur en skólar með 100 nemendum. En ég býst við og hef talið sjálfsagt, að þessir skólar hefðu sömu kjör við að búa af hálfu þess opinbera á báðum stöðum, í sveitum og kaupstöðum.