29.04.1941
Efri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

44. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Magnús Jónsson:

Mér þykir mjög vænt um, að hæstv. forsrh. tekur svo skýra afstöðu til frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum og fullyrðir, að það nái fram að ganga. En ég kvaddi mér hljóðs áður en hann sagði sín síðustu orð hér. Og eins og ég gat um, þá er mér ekki nóg að vita aðeins, að frv. gangi fram, heldur hvernig það gengur fram. Ég álít, að þegar löggjöf er sett um þessa skóla, þá eigi hún að vera í samræmi gagnvart húsmæðraskólunum í sveitum annars vegar og sömu skólum í kaupstöðum hins vegar. Þess vegna hef ég óskað þess, að hv. menntmn. þessarar d. hefði fengið að láta í ljós sitt álit og gera sínar brtt., ef einhverjar yrðu, við frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, sem nú er í hv. Nd., áður en þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður sent burt úr þessari hv. d. Skal ég svo láta mér lynda, eftir að n. hefur tekið afstöðu til þess frv., þó að það verði svo látið bíða hér eitthvað. Því að ef breyt. verða á því gerðar, þá er það ekki alveg búið, því að þá þarf það að fara héðan aftur. Þessi frv. ættu að hafa samflot um að verða afgr. jafnt frá hæstv. Alþ., og ekki aðeins í þeim skilningi, að þau væru bæði afgr. frá þinginu sem 1., heldur einnig um það, hvernig þau eru afgr. Það er langt frá því, að í þessu liggi tilraun til þess að láta frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum sigla hraðbyri og verða að l., en tefja þetta frv., sem hér liggur fyrir. En þessi frv. eiga að afgreiðast bæði í einu. (BSt: Það geta þau ekki). En eftir því, sem hæstv. forsrh. sagði síðast, skildist mér, að frv. um húsmæðraskóla í kaupstöðunum náði fram að ganga, og meira að segja, að fullt samræmi yrði haft um fjárframlög til þeirra skóla, miðað við framlög til slíkra skóla í sveitum. En það var sérstaklega stofnkostnaðurinn, sem ég hreyfði umr. um í minni fyrri ræðu.

En út frá því, sem hv. 1 þm. Eyf. sagði, þá er mikill munur á þessum frv., þar sem húsmæðraskólar í sveitum eru til og hafa sína löggjöf, en frv. það, sem hér liggur fyrir, er um að breyta einu atriði þeirrar löggjafar, um stofnkostnaðinn, en hitt frv. er um að stofna skólana. Og það er ekki undarlegt, þó að við, sem berum hið síðarnefnda frv. fyrir brjósti, séum dálítið smeykir, þó að hæstv. forsrh. hafi nú létt af okkur óttanum. En ég vil samt vita, hvað hv. menntmn. gerir við frv. um húsmæðrafræðsluna í kaupstöðum, vegna þess sérstaklega, að hv. form. menntmn. er hér ekki við til þess að segja álit sitt og frá sjónarmiði n. um málið.

Þetta eru aðeins tilmæli um það, að hinu málinu, sem er í hv. Nd., verði hraðað eins og mögulegt er.