10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

140. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Ég stend eiginlega upp til að bera af mér sakir. Ég skil ekkert í, að hv. 1. þm. Eyf. skuli ekki skilja, að enginn vafi er á, hvor fyrri hefur farið út fyrir efnið í þessari umr. Ég flutti mína fyrri ræðu án þess svo mikið sem að minnast á nokkur önnur mál. En hann byrjaði ræðu sína á því að reyna að gera mína afstöðu í öðru máli hlægilega. — Rétt er það, sem hann segir, að af kaupþingi þurfi ekki að stafa fjárhagshætta fyrir ríkið. En ég býst við, að þm. séu mér sammála um, að stórfelld og fölsk „spekulation“ í því sambandi gæti orðið að gífurlegu tjóni fyrir landið.