07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

70. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Þó að ég sé andvígur þessu frv. í verulegum atriðum, taldi ég þó ástæðulaust að beita mér á móti því, að málið kæmi fram í þessari hv. d. frá menntmn. Hæstv. kennslumrh. hafði lagt svo fyrir, að málið skyldi sent menntmn. Nd. Alþ., án þess þó að í því lægi bein ósk frá honum um að n. flytti málið.

Höfuðbreyt. á háskólalögunum, sem stefnt er að með þessu frv., er sú, sem um getur í 1. gr., en hún er sú, að lagadeild heiti framvegis laga- og hagfræðideild. Alexander Jóhannesson rektor segir í bréfi til kennslumrh., sem prentað er sem fylgiskjal með málinu, að þessi breyt. sé gerð til þess, að hægt sé að taka upp kennslu í hagfræði til embættisprófs og sameina viðskiptaháskólann lagadeildinni án þess að breyta háskólalögunum. Um fyrra atriðið ætla ég ekki að ræða. Um síðara atriðið vil ég segja nokkur orð, en það atriði snertir viðskiptaháskólann.

Mér er kunnugt um, að háskólinn hefur sett sér þá reglu eða „prinsip“ eins og rektorinn orðaði það á fundi menntmn., þegar hann lýsti sinni skoðun, að aðrir en stúdentar ættu ekki aðgang að deildum þessarar stofnunar. Ég vil ekki segja neitt um þetta „prinsip“, láta háskólamennina um það og aðra þá, sem telja sig hafa reynslu í því, hvernig móta skuli háskólann, en að krefjast þess, að hver sá maður, sem hyggst að skapa sér ævistarf innan viðskiptalífsins, hvort heldur væri sem fulltrúi þjóðarinnar erlendis eða við alhliða athafnalíf hér heima, með því m. a. að stunda nám í viðskiptaháskólanum, skuli hafa lokið stúdentsprófi, það get ég ekki fallizt á og fylgi því ekki, allra sízt eins og nú er, að börnin eru sigtuð innan við fermingu og þar með að verulegu leyti ákveðið, hverjir skuli verða stúdentar og þá um leið háskólaborgarar. Væri rúmur inngangur í menntaskólann og nemendur felldir smátt og smátt, væri betur tryggt, að efnilegustu menn næðu stúdentsprófi. Margir ungir menn leita fremur til annarra skóla en þeirra, sem útskrifa stúdenta, sýna þar mikinn dugnað í hvívetna, meira að segja koma til greina námsgarpar sjálfmenntaðir. Hvaða vit er í að leggja stein í götu slíkra manna fyrir þær sakir einar, að þeir hafa ekki stúdentspróf? Menn spyrja að vísu á þá leið, hví slíkir menn geti ekki skroppið í það að taka stúdentspróf. Því er að svara, að við stúdentspróf munu vera heimtaðar ýmsar námsgreinar, sem er ekki lögð áherzla á í viðskiptaháskólanum. Hins vegar er eðlilegt að heimta þær almennu námsgreinar af þeim, sem ætla að verða embættismenn ríkisins.

Um 2. og 3. og nokkurn hluta 4. gr. frv. ræði ég ekki, — ég býst við, að þær breyt., sem þar um ræðir, eigi nokkurn rétt á sér. En það atriði 4. gr., sem ég vil styrkja aðstöðu háskólans til að koma á, eru íþróttirnar. Það atriði eitt olli því, að ég vildi láta málið koma fram. Fimleikakennari háskólans telur starf sitt núna lítils virði. Ástæðuna telur hann að vísu fyrst og fremst áhugaleysi stúdentanna, en líklegt er, að slíkt mundi breytast, ef þeir ættu ekki eins auðvelt með að koma sér undan íþróttatímunum eins og raun ber vitni um. Efri bekkjum menntaskólanna og háskólanum ber skylda til að hafa forustu í öllu íþróttalífi landsmanna. Síðan eiga embættismennirnir að halda slíkri forustu áfram, hvar sem þess er þörf um sveitir landsins, þ. e. a. s. þeir, sem þangað fara, en sem allra flestir að vera virkir áhrifamenn í þessu efni sem öðrum, ýmist sem beinir þátttakendur eða ráða- og hvatamenn íþróttamálanna. Ég mun því beita mér fyrir brtt. við frv., og ég hygg, að við verðum fleiri um þær.

Ég vil svo að lokum benda hæstv. forseta á það, að menntmn. skrifaði utanrmn, um þetta frv. og mæltist til umsagnar hennar snertandi þetta frv. Menntmn. taldi þessi vinnubrögð eðlileg, þar sem utanrmn. hafði forustu á því að koma viðskiptaháskólanum á. Bréf okkar var sent fyrri hl. s. 1. mán. Enn hefur ekkert svar borizt n. Vil ég því vænta þess, að hæstv. forseti taki málið ekki aftur á dagskrá, fyrr en n. gerir honum aðvart, og vil ég óska þess, að málið verði ekki tekið til frekari umr. hér, fyrr en utanrmn. hefur svarað bréfi menntmn., þó að ég hins vegar vilji ekki vera valdur að því, að málið kæmi ekki aftur fram. En drátturinn á svari utanrmn. mun stafa af því, að hv. form. n. hefur nú verið veikur um nokkurt skeið. Hins vegar ber að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessarf umr. lokinni.