08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

70. mál, Háskóli Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Þegar upphaflega var rætt um það á Alþ., að vísu þá á lokuðum fundi, að setja á stofn skóla fyrir starfsmenn íslenzka ríkisins erlendis, hélt ég því fram, að slíkur skóli ætti að vera í sambandi við háskólann. Ég taldi þar að auki, að það ætti ekki að ráða menn til utanríkisþjónustu á aldri stúdenta, heldur eins og gert er annars staðar á Norðurlöndum, þegar þeir eru orðnir kandídatar. Þá hafa menn þann þraska, að það er vel til fallið, að þeir fari í utanríkisþjónustuna og séu þar eins og nokkurs konar nemendur í 1–2 ár, en síðan taki þeir próf, sem skera úr um það, hvort þeir séu hæfir til þessara starfa. Auk þessa hélt ég því fram, að það væru ekki svo margir, sem færu í utanríkisþjónustuna, að ástæða væri til að stofna sérstakan skóla þeirra vegna. Þessar umr. báru þann árangur, að þessi skóli var kallaður viðskiptaháskóli og þannig með nafninu tengdur háskólanum. Ég er sömu skoðunar og ég var þá, að það sé langeðlilegast, að þessi kennsla fari fram í háskóla okkar. Og þó að menn segi, að hætt sé við, að það komi of akademiskur blær á þessa starfsemi, þá vil ég segja, að viðskiptaháskólinn ætti að geta hamlað á móti því, að háskólinn væri of akademiskur í þess orðs vondu merkingu.

Það hefur oft verið nefnt í sambandi við háskóla okkar, að Jón Sigurðsson hafi lagt til, að við eignuðumst þjóðskóla. Ég hygg, að við gerðum vel í því að taka okkur til fyrirmyndar háskóla Ameríku og látum háskóla okkar þróast eftir því, sem háskólafræðslan hefur þróazt þar. Nú erum við komin í nánara samband við Ameríku. Og við ættum að nota tækifærið til þess að senda háskólakennara okkar til Ameríku. Þar eru engin þau störf, sem ábyrgðarmikil eru talin eða vandasöm, að ekki sé veitt í þeim háskólafræðsla.

Þeir nemendur, sem viðskiptaháskólann sækju, geta farið í ákaflega margvísleg störf. Ýmislegt í námi þeirra er skylt tungumálanámi, líka skylt lögfræðinámi, svo að ég ekki tali um hagfræðinám, sem nú er verið að koma á fót við Háskóla Íslands, enda hefur hæstv. forsrh. veitt ungum og efnilegum hagfræðingi leyfisbréf fyrir háskólastöðu í þeim fræðum innan skamms tíma. Hér virðist, að hæstv. ríkisstj. hafi nú þegar stigið fyrsta sporið til þess að viðskiptaháskólinn verði sameinaður Háskóla Íslands. Sú sameining er allæskileg fyrir viðskiptafræðinga, enda óska stúdentar þeir, er stunda þar nám, allir sem einn maður eftir því, að viðskiptaháskólinn komist í nánara samband við Háskóla Íslands en nú er. Það ber vel í veiði, að slík sameining fari fram nú, þegar Háskóli Íslands hefur eignazt ný og rúmgóð húsakynni, og ég sé ekki, hvað er á móti því að láta slíka sameining fara fram sem fyrst, enda yrði á þann hátt unnt að spara starfskrafta, því að mest öll málakennsla við viðskiptaháskólann getur þá orðið sama sem ókeypis og kennsla í lögfræði einnig. Önnur kennsla mundi aftur á móti verða nokkru dýrari en nú er, því að við viðskiptaskóla fyrir fullorðna menn er ógerlegt að hafa stundakennara, sem borgað er kaup fyrir hverja klukkustund. En þetta mundi vega hvað upp á móti öðru, svo að kostnaðurinn mundi ekki aukast við það, að viðskiptaháskólinn sameinist Háskóla Íslands, nema síður sé. Ég vil aðeins segja það, að miðað við mína eldri afstöðu til þessara mála þarf engan að undra það, sem ég hef nú lagt til málanna. Við þá, sem hafa ótrú á Háskóla Íslands, vil ég segja það, að þeir ættu að hugleiða vandlega, hvort ekki væri réttara að gera eitthvað til þess að háskólanámið verði meira lifandi en nú er, því að þess er þörf, heldur en að ganga út frá því, að okkar góði gamaldags, „akademiski“ háskóli láti sig engu skipta um þarfir þjóðarinnar.