25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

70. mál, Háskóli Íslands

Garðar Þorsteinsson:

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, er hann gaf. Mér var að vísu alltaf ljóst, að svar hans mundi verða það, að ungir menn, sem ekki hafa stúdentspróf, fengju ekki inngöngu í viðskiptadeild Háskóla Íslands. — Í 2. gr. frv. stendur, að hver sá, kona eða karl, sem lokið hefur stúdentsprófi við hinn almenna menntaskóla í Reykjavík, menntaskólann á Akureyri eða annan innlendan skóla jafngildan þeim, eigi rétt á að verða skrásettur háskólaborgari.

Mér er ekki ljóst þetta, sem stendur í 2. gr. eins og það er orðað, „eða annan innlendan skóla jafngildan þeim“ (þ. e. menntaskólum). — Mér virðist, að skólar, sem jafngilda menntaskólum, séu ekki nema menntaskólar, og ég veit ekki til, að hér á landi séu nema tveir menntaskólar. Þess vegna kemur mér þetta atriði greinarinnar einkennilega fyrir sjónir. Það má ef til vill segja, að verzlunarskólinn eða aðrir skólar honum líkir, sem hafa fjögurra ára nám, jafngildi menntaskólunum í vissum greinum. En mér finnst það liggja í augum uppi, að skólar með 6 ára nám hljóti að vera taldir æðri skólar.

Hæstv. ráðh. sagði, að eigi fengju aðrir en stúdentar aðgang í viðskiptaháskólann, ef hann yrði sameinaður, en það mætti gefa út nýja reglugerð. — Mér er ekki ljóst, hvernig ætti að koma þessu við.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur tíma til að hlusta á mig. (Forsrh.: Ég heyri.) Ég vildi gjarnan fá skýringu á, hvernig hann ætlar að fara að gefa út reglugerð, sem heimilar mönnum aðgang að háskólanum án þess að hafa stúdentspróf. — Þegar betur er að gætt, getur ráðaneytið ekki gefið út slíka reglugerð umsvifalaust. Allir vita, hversu erfitt er að öðlast rétt til inngöngu í menntaskólann hér, því að aðeins 26 af 300 sem oft taka próf, fá inngöngu. Samtímis mundu um 275 komast í verzlunarskólann. Ég hygg, að hæstv. ráðh. sé mér sammála um, að erfitt sé að heimila unglingum inngöngu í háskólann, nema þeir séu búnir að ganga í gegnum menntaskóla. En ef hægt væri að láta unglinga fá inngöngu í háskóla án þess að þeir hafi 6 ára nám við menntaskóla, þá skil ég ekki, hvers vegna ætti að þröngva 6 ára námi upp á unglinga, ef þeir geta náð sömu réttindum með 4 ára námi. Ég veit, að hæstv. ráðh., sem gekk í gegnum skólann með mér, þekkir, að ýmislegt er þar kennt, sem í rauninni hefur enga „praktiska“ þýðingu. — Þess vegna finnst mér, að það ætti að útiloka vissar greinar í skólunum og nota þann tíma, sem í þær fer, til að þroska þá menn, sem vilja ganga í viðskiptaháskólann, í þeim greinum, er þar eru kenndar. Því fjölbreyttari, sem sá undirbúningur er, því betra. — En nú er sá galli á þessu, að ungir menn draga það oft fram á síðustu stundu að ákveða sig um, hvað þeir ætli að leggja fyrir sig, en samt eru margir til, sem stefna að ákveðnu marki þegar í byrjun náms síns, og því þá ekki að gefa slíkum mönnum tækifæri til að þroskast á því sviði? Ef hæstv. ráðh. vildi beita sér fyrir því, að 2. gr. frv. yrði breytt samkv. því, sem hann sagði, þá mundi ekki standa á mér að greiða þessu frv. atkvæði mitt. —

Ég hef alltaf álitið, að sameina bæri viðskiptaháskólann háskólanum. Skólastjóri verzlunarskólans, Vilhjálmur Þ. Gíslason; hefur gert till. til ráðuneytisins þess efnis, að nemendur frá hans skóla öðlist rétt til að ganga í háskólann eftir að hafa tekið þungt próf, sem mundi nokkurn veginn samsvara stúdentsprófi. — Ég veit fyrir víst, að hann hefur komið með þessa till. Enginn vænir þennan mann um, að hann vilji með þessu fá óverðskuldaðan rétt fyrir nemendur sína, — heldur hefur hann fengið þá reynslu með starfi sínu sem skólastjóri, að hans skóli geti, að viðbættu þyngra prófi, gefið nemendum sínum þá menntun, sem ekki standi stúdentsmenntun að baki.

Það vita allir, að til eru lögfræðingar, sem ekki hafa fengið l. einkunn við lögfræðipróf, en hafa reynzt ágætir málafl.menn, og hafa þó ekki fengið að vera hæstaréttarmálaflutningsmenn.

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanna, hvort þeir þekki ekki marga menn, sem hafa reynzt hinir nýtustu í starfi sínu, enda þótt þeir hafi ekki tekið há próf. — Ég þarf ekki að nefna nein nöfn. Menn þurfa ekki annað en líta á ýmsar stofnanir hér á landi, sem er stjórnað prýðisvel af mönnum, sem enga stúdentsmenntun hafa.

Það eru engin skilyrði að hafa tekið góð próf til að geta orðið nýtir þegnar í þjóðfélaginu.

Hvers vegna ekki að hafa fleiri greinar í menntaskólunum?

Ég vil leggja áherzlu á það, að það er ekki pappírsmenntunin, heldur hin raunverulega menntun, hinn raunverulegi undirbúningur, sem dugir. Ég vildi svo spyrja hæstv. ráðh., hvort hann vilji beita sér fyrir því, að 2. gr. frv. verði breytt þannig, að unglingar frá verzlunarskóla fái sömu réttindi til inngöngu í viðskiptaháskólann og stúdentar, ef þeir ljúka tilsettu prófi.