27.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

70. mál, Háskóli Íslands

Bergur Jónsson:

Það ætti nú að vera ljóst eftir þessar deilur, sem staðið hafa yfir, hvernig menn ættu að ganga frá málum sínum. Með því að umr. hafa farið fram um efni málsins, vil ég aðallega láta í ljós undrun mína yfir því, hvernig þetta frv. kemur fram hér í þinginu, hvernig það ber að höndum. Það er fyrst og fremst flutt af menntmn., eins og í grg. frv. segir, og að tilhlutan hæstv. kennslumrh.

Mér skilst, eftir því sem komið hefur fram í umr. um málið, að aðalákvæðið, sem menn greinir á um, sé það, hvort 1. gr. eigi að standa eða ekki, sem þó er vitanlega hugsuð sem aðalbreyt. á háskólal., að ég hygg, eins og málið hefur komið fram. Ég ætla nú ekki að fara lengra út í það að sinni, en ég vildi gjarnan, að þessu máli yrði frestað og vísað aftur til hv. menntmn. til rækilegrar íhugunar áður en það yrði lagt fyrir hv. d., og að hún gerði nánari grein fyrir því, hvað hún hugsi sér með þessu frv., enda þótt fylgiskjöl séu með.

Það er í fyrsta lagi 1. gr., sem er breyt. frá núverandi háskólalögum, þ. e., að lagadeildin helti nú laga- og hagfræðideild. Mér skilst, að tilgangurinn með þessu sé sá að taka skóla, sem hefur verið rekinn í nokkur ár án þess að um hann séu nokkur lagaákvæði, leggja hann niður og setja hann inn í lagadeild.

Í 2. gr. frv. kemur nýmæli, sem ég hefði haldið, að flytjendur frv. hefðu gert nokkra grein fyrir, vegna þess að það er mikið nýmæli að heimila takmörkun á fjölda stúdenta í ákveðinni deild í háskólanum. Út af þessu vil ég benda á það, að þarna mun sérstaklega vera tilætlunin að takmarka aðgang að læknadeildinni, mér finnst, að menn verði að hafa það hugfast, að nú eru dálítið breyttir tímar, sem gera það að verkum, að það má búast við því, að sérstök þörf verði fljótlega og ef til vill í nokkuð langri framtíð fyrir mikinn fjölda læknisfróðra manna, vegna þess styrjaldarástands sem nú er. Það þarf ekki annað en að benda á það, að Bretar hafa óskað eftir aukningu lækna heima hjá sér frá Bandaríkjunum. Við vitum ekkert, hvaða hlutir geta gerzt og hversu mikil þörf getur orðið fyrir lækna. Ég legg á móti því, að hömlur séu settar á það, að menn geti fengið læknamenntun, þá menntun, sem ef til vill er mest áríðandi að margir menn hafi áður en langt um líður. Að vísu má segja, að þetta eigi eingöngu við þá, sem eiga að byrja t. d. næsta haust, en við vitum ekki, hvað þetta ástand verður lengi. Við vitum heldur ekki, hve langt þyrfti að ganga í því að nota hálflærða menn til þessara starfa. Ég tek þessa deild sérstaklega, vegna þess að hér er um varhugaverðan hlut að ræða, ef á annað borð er farið inn á þá braut, sem hér er ætlazt til að gengið sé inn á, að gefa heimild til þess að takmarka fjölda stúdenta við háskólann. Það er náttúrlega önnur hlið, sem einmitt gerir þetta ákvæði sérstaklega íhugunarvert, og það er, að nú er mestur hluti háskóla veraldarinnar lokaður fyrir ísl. stúdentum. Það er þess vegna því meiri þörf, að hægt sé að veita ísl. stúdentum sem mesta framhaldsmenntun hér á landi.

Þá ætla ég að minnast á 4. gr. Ég hef borið hana saman við háskólalögin, sem þetta frv. er nú til breyt. á, og ég hef séð það, að skilyrði, sem fram til þessa tíma og um áratugi hefur þótt sjálfsagt að hafa við alla háskóla, að stúdentar taki próf í forspjallsvísindum, það hefur verið fellt niður með þessari grein. Mig langar til að varpa fram þeirri spurningu, hversvegna þetta var fellt niður? Ég veit ekki annað eftir minni reynslu, og undir það hafa tekið flestir, sem í háskólann hafa gengið, að það nám út af fyrir sig, Sem stúdentar eru skyldaðir til að ganga undir fyrstu ár sín í háskólanum, sé ákaflega mikilvægt atriði upp á almenna menntun manna. Enda hefur það ekki verið óalgengt, að þeir, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki getað haldið áfram, hafa þó reynt að komast í gegnum prófið í forspjallsvísindum.

Þegar ég fer að hugsa um þessi atriði, sem ég í fljótu bragði hef athugað og reynt að láta koma hér fram í ræðu minni, þá finnst mér alveg sjálfsagt, að menntmn., sem hefur þetta mál með höndum, taki það annaðhvort sjálf til rækilegrar íhugunar eða ráðstafi því þannig, að það verði gert.

Það atriði, sem 2 nm. hafa borið fram brtt. um, að fella niður 1. gr., er ég ekki sammála þeim um, ef það er greinileg ákvörðun um að meina þar með þeim stúdentum, sem eru í viðskiptaháskólanum — sem vitað er að eru nú eingöngu stúdentar —, að komast inn í deildir háskólans, þar sem þeir geta notið sömu réttinda og aðrir stúdentar. Það atriði út af fyrir sig að fella þessa 1. gr., en láta málið flakka áfram eins og það liggur fyrir að þeirri gr. burtfelldri, held ég að verr sé farið en heima setið.