25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

70. mál, Háskóli Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég mun, sem nefndarmaður menntmn., ekki óska þess, að málið verði tekið út af dagskrá til nánari athugunar.

Það er ekki nýtt mál hér í þinginu, að borin sé fram heimild til þess að takmarka stúdentafjölda. Það mál er kunnugt og ég hygg, að flestir séu sammála um það, að fyrr hefði mátt takmarka stúdentafjölda að læknadeild.

Við í menntmn., sem höfum flutt þetta frv., lítum svo á, að þá sérmenntun, sem veitir engan almennan undirbúning undir lífið, eins og læknafræðslan eigi ekki að veita fleirum en þjóðfélagið hefur brúk fyrir. Það er svo yfirleitt með sérskóla, ég get nefnt tannlækningaskóla, að þar er ekki ótakmarkaður aðgangur heimill. Alveg sama máli gegnir um læknafræðsluna, að allt of mikill læknafjöldi getur verið eins skaðlegur og skortur á læknum. Sá maður, sem hefur stúderað læknisfræði í 7 til 9 ár, getur ekki gefið sig að öðru starfi. Hans menntun er svo sérstök, að hann reynir að fást við það, sem hann hefur búið sig undir, og því meiri er freistingin til þess að stunda ýmis störf, sem ekki eru heilbrigð fyrir þjóðfélagið. En hér er aðeins um að ræða heimild fyrir háskólann og þess að sjálfsögðu vænzt, að hún verði notuð skynsamlega. Mér finnst, að það sé of seint að fara að undirbúa lækna fyrir þetta stríð. Þeir, sem nú byrjuðu læknanám, yrðu ekki búnir fyrr en eftir 7 ár. Ég vænti fastlega, að stríðið verði þá búið.

Um niður fellingu ákvæðisins um kennslu í forspallsvísindum vil ég segja það, að það er óþarfi að hafa það sem lagaákvæði. Í háskólal. eru engin nákvæm fyrirmæli um það, hvernig kennslu skuli háttað. Mér finnst, að forspjallsvísindi eigi ekki meiri rétt á sér í lögunum

heldur en svo margt annað. Slík forspjallsvísindi, sem hér er haldið uppi, eru gamall arfur frá Hafnarháskóla. Það þarf ekki víða að leita til þess að sjá, að slík kennsla fer ekki alls staðar fram, t. d. er það svo í öllum sænskum háskólum. Með niðurfellingu þessa ákvæðis eru háskólanum aðeins gefnar frjálsar hendur um það, hvernig almennri fræðslu í háskólanum er háttað.

Hér hefur aðallega verið talað um 1. gr., en hún er vitanlega aðalatriði þessa máls. Hún er um það, að lögfesta skóla, sem hefur starfað um skeið, án þess að um hann hafi verið sett lög eða reglugerð. Þeir, sem eru á móti 1. gr., telja þennan skóla ágætan. Ég skal ekki bera brigður á það. En allir þeir menn, sem hafa sótt þennan skóla, óska þess, að skólinn verði lagður undir háskólann. Ég tel, að árangurinn hafi verið minni en til var ætlazt, ef þeim skjátlast í þessu efni. Háskólinn óskar einnig eftir þessu og ríkisstj. hefur tekið þetta að sér fyrir þessa aðila. Hér í umr. hafa ekki komið fram önnur rök, sem eru nokkurs virði, heldur en þau, að það geti verið deilumál hvort stúdentar einir eigi rétt á að sækja þennan skóla. Mér finnst þetta ekki vera stórt atriði. Það er ákaflega auðvelt fyrir háskólann að hafa inntökupróf fyrir þá, sem ekki eru stúdentar. Það má gera það eftir þeim reglum, sem nauðsynlegar eru, til þess að þessir menn hefðu þá undirbúningsþekkingu, sem þarf til þess að þeir geti notið námsins síðar. Ég get ekki séð, að háskólinn hafi neitt á móti slíkri skipan. Að vísu liggur ekki fyrir till. um þetta núna.

Eftir þessa forsögu málsins, að hér er verið að setja lög um skóla, sem vantar lög um, og hér eru gerðar till. eftir ósk allra nemenda skólans og kennara og samkvæmt fylgi ríkisstj., þá fyndist mér það einkennilegt, ef það yrði samt fellt og drepið, án þess að neinar ákveðnar eða verulegar röksemdir væru fram færðar gegn því.