25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

70. mál, Háskóli Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég skal ekki tefja tímann lengi. Ég vildi aðeins benda hv. þm. Barð. á það, þar sem hann saknar forspjallsvísindanna, að þá er þó í þessari gr. talað um undirbúningspróf, og ég kalla það fullt eins gott orð eins og forspjallsvísindi, og er þarna um meira frelsi að ræða, hvernig þessum undirbúningi er háttað. En ég hygg, að ekki standi til neinar stórbreytingar í þessu efni. Hv. 1. þm. Skagf. færði þau rök fyrir þessu, að það væru margar stofnanir, sem ættu sér enga stoð í 1. og væri ekkert við það að athuga. Hann benti á, að um menntaskólann í Reykjavík væru ekki til 1. enn. En ég hygg, að sá skóli hafi verið stofnaður með konungstilskipun á sinni tíð, og þá fór konungur með það vald, sem Alþ. nú hefur. Það var konungur þá, — en Alþ. síðar —, sem einn hafði vald til þess að ráðstafa svona málum fyrir ríkisvaldið. En að n. fari að taka sér í hendur þetta vald og byggja upp stofnanir, finnst mér ekki rétt. N. mega ekki vera annað en það, sem Alþ. hefur falið þeim, og það er það, sem vantar enn, að Alþ. hafi gert.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það væru aðeins tvö orð, sem yrðu stoð í 1. fyrir skólann, ef þetta verður samþ. En það er bara meginatriði málsins, að þessi tvö orð eru vilji Alþ., því ríkisvaldið hefur leyft það og stofnað þessa skóla. Það er aðeins eitt orð, sem ræður miklu um það, sem gert er í þessu máli. En það, sem skiptir mestu í þessu máli, er, að Alþ. segi þetta orð.