03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

70. mál, Háskóli Íslands

Bergur Jónsson:

Ég hef leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við frv. í samræmi við það, sem ég sagði um málið við 2. umr., en þá var, svo sem hv. dm. muna, málið látið ganga breytingalaust til 3. umr., þar sem gert var ráð fyrir, að menntmn, athugaði það nánar.

Ég get verið fáorður um brtt. mínar. 1. brtt. fjallar um það, að í stað þess að skv. frv. er gert ráð fyrir 5 deildum við háskólann, legg ég til, að þær verði 6. — Tilgangurinn með 1. gr. frv. virðist aðallega vera sá, að stúdentar þeir, sem nú stunda nám við hinn svo nefnda viðskiptaháskóla, geti notið háskólakennslu og lokið háskólaprófi sem aðrir stúdentar. Mér finnst ekki nema eðlilegt, að tekið sé undir þessa ósk nemendanna sjálfra, sem nú eru eingöngu stúdentar, sérstaklega þegar þess er gætt, að háskólinn hefur yfir betra húsnæði að ráða en áður. Hins vegar finnst mér óeðlilegt að breyta þessu á þann veg, sem gert er í 1. gr., að sameina í eina deild laga- og hagfræðideild. Laganámið er, svo sem menn vita, allyfirgripsmikið og mjög áríðandi nám í hverju þjóðfélagi, og er því ástæða til að hafa þá deild alveg út af fyrir sig, en rugla ekki saman tvenns konar umfangsmiklu og óskyldu námi, en það mun einnig mega segja um námið í viðskiptafræðideildinni, eins og ég hef nefnt hana í brtt. minni. Nægir að vísa til skilgreiningar þeirrar í fskj. frv., þar sem talið er um háskólapróf í viðskiptafræði og taldar eru upp ekki færri en 12 námsgreinar.

2. brtt. er í samræmi við það, ef horfið væri að því ráði að hafa sérstaka viðskiptafræðideild, þá þyrfti sú deild að hafa íhlutun í háskólaráði eins og aðrar deildir.

Þá er 3. brtt. við 2. gr., að 2. og 3. efnismgr. falli burt. Þessi ákvæði frv. fjalla um takmörkun stúdenta. Eins og ég tók fram við 2. umr., þá tel ég, að varla sé hægt að hugsa sér öllu óeðlilegri tíma til þess að veita heimild til að takmarka aðgang að háskólanámi en einmitt nú, þegar það er vitað, að allflest háskólalönd eru nú lokuð, sem íslenzkir stúdentar hafa hingað til sótt til þess að stunda nám í öðrum greinum en unnt er hér heima. Annað þeirra stórvelda, sem ætla mætti að stúdentar kysu að stunda háskólanám í, Stóra-Bretland, á í ófriði, sem kunnugt er, og er svo mikil hætta að dveljast þar, að margir mundu af þeim ástæðum ekki hugsa til námsdvalar þar. En um Ameríku er það að segja, að hún stendur að vísu opin, en það er ekki unnt að notfæra sér fyrir aðra en þá, sem eru vel efnum búnir.

Mér hefur skilizt, að aðaltilgangurinn með takmörkunarheimildinni væri að takmarka tölu lækna. Ég hef ekki getað skilið, að það sé heppilegt á yfirstandandi tímum, þar sem gera má ráð fyrir, að nú verði alveg sérstök þörf fyrir menn með þekkingu á því sviði, bæði erlendis og hérlendis, einkum að því er snertir þekkingu á að búa um sár manna og veita hjálp, þegar slys ber að höndum. Ætti fremur að leggja áherzlu á, að læknastúdentar fengju sem fljótasta kennslu einmitt í þessum atriðum læknisfræðinnar.

Þá er 5. brtt. við 4, gr. Ég hef að miklu leyti tekið upp efni 4. gr., en sett framan við ákvæði um það, að próf í heimspeki skuli enn vera fast próf við háskólann sem áður, þannig að enginn

geti tekið fullnaðarpróf frá háskólanum nema hann hafi áður lokið því. Ég hef fellt niður tímatakmarkið, því ég hygg, að bezt muni vera að láta stúdentana um það sjálfa, hvenær þeir vildu taka prófið.

Ég vil taka það fram, að ég álít það svo mikla undirstöðu undir almennri menntun að fá þessa kennslu í undirstöðuatriðum sálarfræði og rökfræði, að mér finnst varla hægt til minna að ætlast af því fólki, sem stundar háskólanám og tekur fullnaðarpróf í háskólagreinum, en að það hafi hlotið kennslu í þessum námsgreinum og sýnt með prófi, að það kunni á þeim nokkur skil. Ég hef með brtt. fellt niður síðasta málslið

4. gr., ekki vegna þess að ég telji ekki heppilegt að hafa æfingaflokka við verklegt nám og íþróttir, en ég vil benda á það, að háskólinn er töluvert öðruvísi stofnun en aðrir skólar. Þeir, sem þar stunda nám, eru orðnir þroskaðri en nemendur annarra skóla og eru búnir að ljúka löngu námi. Það er því ástæða til að láta þá hafa óbundnar hendur um það, hvernig þeir ganga að því erfiða starfi að ná fullnaðarprófi, hvort sem það er nú embættispróf eða önnur próf í vísindagreinum. Það er hægt án þess að lögbjóða það að vinna að því, að þeir stúdentar, sem til þess eru hæfir líkamlega, stundi íþróttir. Ég vildi gjarnan að það væri gert, en menn mega ekki einblína um of á það, hvernig þessum málum er háttað við ýmsa erlenda háskóla, t. d. collegin ensku, þar sem allir nemendur eru vel efnum búnir. Hér á landi mun það almennur vilji, að efnalitlir menn geti engu síður notið háskólanáms, en það er því aðeins hægt, að þeir hafi aðstöðu til þess að vinna fyrir sér jafnframt náminu.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég benda á það, að þótt 1. gr. geri ráð fyrir, að einungis stúdentar stundi nám í viðskiptafræðideild, mætti setja sérákvæði um ákveðinn undirbúning í sambandi við menntaskólana, sem væri meira í samræmi við það nám, sem þeim er ætlað að takast á hendur.