10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

70. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Ég gat ekki verið hér, þegar hv. frsm. meiri hl. hélt sína ræðu, en við þekkjum orðið skoðanir hvor annars á þessu máli. Mér þykir gott, að hv. 1. þm. N.-M. skýrði sínar brtt. strax. Það kom greinilega fram hjá honum, að hann finnur, hvað frv. er illa undirbúið, þar sem hann vill fella ég vil segja 75% af till., sem í því voru. Hann vill fella niður þrjú af fjórum aðalatriðum. Þetta sýnir það sama, sem ég hef tekið fram, að frv. þetta hefur gott af frekari athugun.

Ég vil m. a. gera eitt atriði að umtalsefni. Þegar hv. 1. þm. N.-M. telur upp deildir háskólans, telur hann rannsóknarstofu atvinnuveganna. Sami maðurinn við háskólann, sem hefur baslað við að koma þessu frv. á laggirnar, hefur átt þátt í því að stofna rannsóknarstofu atvinnuveganna sem atvinnubótadeild. Það héldu margir unglingar, að þarna mætti læra margt gagnlegt. En ég hygg, að hv. 1. þm. N.-M. viti, hve mikið hefur orðið úr landbúnaðardeildinni. Málið var svo herfilega undirbúið af háskólans hálfu, að það vantar allt til alls nema stofurnar til að kenna í., enda hefur enginn nemandi verið í þeirri d.

Ég mun síðar minnast á sérstök atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, en vil nú snúa mér að byrjun þessa máls. Þegar ég hef verið að líta yfir hinn skrítna gang málsins, þá kemur í ljós, að um tvær stefnur viðvíkjandi kennslumálum er að ræða. Sá maður, sem stendur að annarri stefnunni, er löngu dáinn, Jón Sigurðsson forseti. Hinn maðurinn er Alexander Jóhannesson. Það þarf að meta aðstöðu þessara tveggja manna til að geta séð, hvað Alexander hefur til brunns að bera. Jón Sigurðsson skrifaði fyrstur manna um íslenzkan háskóla, fyrir 99 árum, og lagði til, að hér væri stofnaður mikill skóli, bæði fyrir embættismenn og vegna atvinnuveganna. Hann sá enga ástæðu til, að það gæti ekki farið saman. Það má segja, að Jón Sigurðsson hafi farið að kjörorði sjálfstæðismanna: stétt með stétt. Aftur á móti hefur Alexander reynt að grundvalla stofnunina á því, að í henni væri bara ein stétt, einungis stúdentar. Og hann leggur svo mikla stund á það, að hann hugsar sér jafnvel að leggja út í baráttu við fjárveitingarvaldið til að fá sínu framgengt.

Markmið Jóns Sigurðssonar var, að háskóli Íslands, sem hann vildi kalla þjóðskóla, væri fyrir alla jafnt, en Alexander vill bægja öllum frá, nema einni vissri stétt, stúdentum.

Þegar fyrir liggur að íhuga það, hvort betur sé hægt að trúa Jóni Sigurðssyni eða Alexander, er varla hægt annað en meta, hvað þeir hafa gert og unnið hvor fyrir sig. Annar hefur grundvallað allar pólitískar framfarir á Íslandi og haft mikil áhrif á andlegt líf í landinu.

Ég ætla að hætta að tala og hvíla mig, þangað til hv. þm. koma inn í deildina. —

Ég var að skýra frá verkum þeirra manna, hvors um sig, sem standa að tveimur ólíkum stefnum í skólamálum hér á landi, Jóns Sigurðssonar forseta og Alexanders Jóhannessonar. Áhrif Jóns Sigurðssonar eru svo alkunnug, að ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði um hann: En ég ætla að gera hv. d. grein fyrir, hvað þessi nýja stjarna hefur til brunns að bera. Alexander Jóhannesson var stipendiat við háskólann um hríð, af því að hann þurfti að fá eitthvað að gera. Svo tókst Bjarna frá Vogi að skapa honum embætti. Það var ekki fyrir verðleika, að hann fékk það embætti, heldur vegna vináttu við Bjarna frá Vogi. Þegar þetta embætti kom til umr. hér í þinginu, var lesinn hér upp partur úr grein, sem Alexander hafði skrifað og var svo vitlaus, að hún vakti almennan hlátur á meðal þingmanna. Þar hélt hann því fram eftir einhverjum þýzkum manni, að ef menn fettu sig og brettu, ypptu öxlum og vögguðu sér í mjöðmunum og horfðu svo á vírhringi fyrir framan sig, gætu þeir breytt í sér röddinni. Þetta var táknrænt, og auðvitað var ljóst, að ef hann yrði starfsmaður við háskólann, var það aðeins vegna þess, að hann vantaði embætti. Það eru ekki nema fjórir menn, sem hann hefur útskrifað eftir 16 ára starf við þessa stofnun í þeirri grein, sem hann stendur að. Það vill svo til, að einn þessara manna er frábær málfræðingur, þó að það sé ekki honum að þakka. Nú hafa alþm. mikinn hug á að fá þann mann til kennslu í stafsetningu, og þingið hefur svo ljósan skilning á, að þetta sé rétt, að það samþ. í gær að veita honum aðstöðu til að kenna við háskólann það, sem Alexander ætti að kenna, ef hann hefði þekkingu til. Samkennarar Alexanders leggja og mikla áherzlu á að fá þennan kennara, en hafa aftur á móti minni áhuga á hinni nýju landvinningastarfsemi rektors.

Samhliða þessum störfum, sem ég hef nefnt, tók Alexander fyrir tvennt annað. Hann kom hér upp flugfélagi, sem allir vita, hvernig fór um, það endaði með fjárhruni og skaða og loks algeru gjaldþroti. En seinna var stofnað annað flugfélag, og þar var við riðinn kaupfélagsstjórinn á Akureyri þáverandi, Vilhjálmur Þór. Það gengur ljómandi vel. En einmitt Vilhjálmur Þór og Jakob Frímannsson, sem á þennan hátt hafa sýnt, að þeir kunna sína viðskiptafræði, hefðu ekki getað fengið inngöngu í viðskiptaháskólann hjá Alexander.

Um sama leyti og framkvæmdir Alexanders í flugmálunum voru að fjara út kom hin fræga Grænlandsför hans til sögunnar. Hann þóttist hafa í höndunum skeyti um, að hann væri beðinn að hjálpa mönnum, sem væra í hættu þar.

Nú var uppi fótur og fit, varðskip ríkisins var sett í hættu, og Alexander fer af stað. Niðurstaðan varð sú, að hann bjargaði engu, en flutti til landsins nauðsynlegar vistir, svo sem kunnugt er. Eitthvert hugboð hefur Alexander haft um, að förin hafi ekki verið sem sigursælust, því að hann kaus að lenda ekki hér við bæinn, heldur lengra í burtu og láta bera lítið á.

Það er ekki hægt að komast hjá því að spyrja, þegar þessi maður gerir sig svo breiðan: Hvernig er þessi maður? Er hann svona mikill skörungur? Ég hef lauslega bent á, hvernig hans almenna aðstaða er. Á hans braut eru ekkert nema ósigrar, að frátöldu einu máli, þar sem bann hefur notið styrks Alþingis. Hvort sem litið er á ljóð hans, ritgerðir, þýðingar eða Grænlandsförina frægu, þá sést, að hann er mesta flaustursskjóða, sem fæst við. almenn mál á Íslandi.

Það síðasta, sem eftir hann liggur, er að fá nokkra unglinga til að fremja harakiri, og það afrek er einstakt í sinni röð. Með hvaða hætti byrjaði hann á að skipta sér af málum, sem ekkert komu honum við? Ég vil fyrst benda á annað, sem sýnir, að ég vil unna honum sannmælis. Hann hefur sýnt talsverðan dugnað í ráðstöfun fjár, sem veitt var til háskólabyggingarinnar. Um leið og ég neitaði að vera við vígslu háskólans, vegna þess að alþm. var ekki boðið almennt, beitti ég mér fyrir því, að Alexander fengi íslenzkt heiðursmerki. Ég sé bæði kosti og galla, og þarna var unnið verk, sem mér fannst ástæða til að meta og launa, og ég gerði það.

Viðskiptaháskólinn var stofnaður af utanríkismálanefnd upp úr sjálfstæðisumr. á Alþingi 1937, og það er ekkert, sem hefur gefið Alexander minnstu ástæðu til að blanda sér í mál skólans, nema það, að síðastl. vetur var skólinn í húsum háskólans. Viðskiptaháskólinn var fyrsta árið til húsa í menntaskólanum, annað í atvinnudeildinni og nú þriðja árið í háskólanum.

Þegar skólinn settist að í húsi háskólans, var hann honum álíka óviðkomandi eins og maður, sem leigir sér stofu í húsi, er húsráðanda.

Þetta álit hafði ekki dr. Alexander. Hann vill fylla þetta mikla hús af stúdentum. Og ekki eingöngu stúdentum, heldur verða þeir líka að vera undir hans stjórn.

Þess vegna datt Alexander það snjallræði í hug, þegar þessir 25 stúdentar stunduðu nám í húsi háskólans, að innlima þá stofnun, er þeir tilheyrðu, háskólanum.

Þegar ríkisstj. vildi ekki gleypa við þessu, hafði dr. Alexander í hótunum um að reka viðskiptaháskólann úr húsnæðinu. Hæstv. forsrh. mun hafa sagt frá þessum skiptum í ræðu sinni í Nd. Alexander heimtaði, að viðskiptaháskólinn yrði innlimaður í háskólann með bráðabirgðal. s. l. haust, en verða húsvilltur ella. Ríkisstj. mun hafa látið dr. Alexander vita, að ef hann ætlaði þannig að launa húsnæðislánið til háskólans, er Alþingi hefur látið í té ókeypis öll fundarherbergin á neðri hæð alþingishússins, að ef hann ekki léti af þessari fávizku, þá mundi verða búið öðruvísi að honum og hans stofnun í framtíðinni. Enda er engin von til, að mönnum haldist uppi slík frekja, ósvífni og grunnhyggni.

Piltunum var sleppt skilmálalaust inn í hús háskólans og var kennt þar eins og áður, samkv. skipulagsskrá, sem gerð hafði verið um starfsemi skólans fyrir þrem árum. Þar var nákvæmlega tekið fram, hvað gert skyldi í skólanum hvern vetur. Próf voru framkvæmd alla veturna og 1/3 hluta burtfararprófs var lokið, þegar Alexander fyrirskipaði verkfall.

Alexander hafði í haust haft í hótunum um að krefja ríkissjóðinn um ísl. hluta sáttmálasjóðsins, hina svo nefndu háskólamilljón, sem ríkissjóður hefur haft að láni síðan 1919. En þegar stjórnin neitaði honum bæði um háskólamilljónina og bráðabirgðalögin, þá vildi hann innlima stofnunina í háskólann með tilstyrk Alþingis.

Enda þótt dr. Alexander Jóhannesson sé ekki fróður maður, þá vissi hann þó svo mikið, að í menntmn. Ed. á sæti maður, sem hefur haft svo mikið með þessi mál að gera frá byrjun, að ekki mundi líklegt til stuðnings að leita þangað um flutning á frv. hans, og sneri hann sér því heldur til Nd. En þar mun m. a. ókunnugleiki hafa valdið þeim undarlegu undirtektum og afgreiðslu, sem málið hlaut og ég mun víkja að síðar.

Liðskostur dr. Alexanders í Nd. voru fyrst og fremst allir kommúnistarnir og hinn fjórði, sem áður var kommúnisti, en er nú fallinn frá, allur Bændafl. og allur Alþfl. og órólega deildin í Sjálfstfl.

Það var þetta skemmtilega lið, undir forustu kommúnista, sem Alexander hafði á að skipa. En eins og vænta mátti, skorti hann allan stuðning Framsfl. og meginhluta Sjálfstfl. En á hvern hátt þetta lið, kommar, kratar og órólega deildin, hafa sameinazt um þá línu, sem lögð var af dr. Alexander, er mér fullkomin ráðgáta. En svo mikið er víst, að Alþýðuflokkurinn virðist hafa gert hana að hreinu flokksmáli.

Það hefur ekki gengið frábærlega vel fyrir kommúnistum upp á síðkastið. Þeir mega heita útlægir úr þinginu og það er ekki talað við þá.

Þá er ekki glæsilegra ástandið hjá Bændaflokknum. Honum hefur vart verið hugað líf mörg seinustu árin, og veit það nú sjálfur og verður að játa, að hann er alveg dauður.

Ef menn lesa hið litla blað kommúnista, sem er víst nokkurs konar arftaki Þjóðviljans, þá er þar fullyrt, að Alþýðuflokkurinn sé dauður.

Órólegu deildinni hefur víst þótt þetta ágætur málstaður, enda hefur hún lengi verið ánægð með allt, fyrst með gengislækkunina, síðan með sjálfa sig og alltaf dansað nauðug eins og útburðurinn í dulunni.

Dr. Alexander skipulagði verkfall meðal hinna 10 pilta, sem þegar höfðu lokið 1/3 hluta prófs, að því er virðist vegna þess, að hann tók að efast um fylgi við frv. sitt hér á Alþingi og til þess að knýja Alþ. til afstöðu til málsins.

Hann tælir þessa drengi til þess að gera kyndugt verkfall á móti sjálfum sér. Þetta eru flest allt góðir drengir og færir til starfa, en hafa af óvitaskap látið frekar lélegan mann afvegaleiða sig til þess að neita að ljúka prófi nema Alþingi láti að vilja Alexanders og samþykki frv. hans.

Þeir hafa víst ekki skilið, á hvern hátt þetta varðar Alþingi. Alþ. er fulltrúi gjaldendanna í landinu. Og það hefur greitt styrk til kennslu á þessum piltum í 3 ár. Piltarnir mega vita, að verkfall þeirra hefur engin áhrif á Alþ. eða ákvarðanir þess. Það lítur á þetta tiltæki eins og hvert annað saklaust gaman, sem gerir þá sjálfa aðeins dálítið hlægilega.

En það er einn maður, sem ekki mun sleppa þægilega við þetta mál. Og það er rektor háskólans. Hann mun sjá, hvað það kostar að vera að skipuleggja verkföll í öðrum skólum. Og það sýnir bezt, hvað maðurinn er takmarkaður, að hann skuli vera að leika þann leik.

Og það er rétt, að hann viti það, að refsiaðgerðir út af þessu brölti hans verða ekki látnar bitna á piltunum.

Einum þeirra hef ég útvegað atvinnu, annar starfar hjá sama fyrirtæki og ég starfa hjá sjálfur. Það verður ekki spurt um það, hvort þeir hafi gert verkfall, heldur hvernig þeir hafi staðið sig í skólanum, og dæmt eftir því.

Um leið og ég lýk við þennan kapítula, vil ég minna á þá spaugilegu hugsjón Alexanders að halda burtu frá háskólanum öllum, sem ekki hafa, stúdentspróf. Alexander vill hindra þá í að taka embættispróf, enda þótt það próf gefi á engan hátt aukinn rétt til starfa.

Það vill nú svo til, að það eru tveir menn, og aðeins tveir, sem háskólinn minnist í sinni nýju byggingu. Annar þessara manna kom aldrei í menntaskóla, hvað þá að hann tæki embættispróf. Í byggingunni er stór höggmynd af Jóni Sigurðssyni, sem háskólinn vill kenna sig við. Jón kom aldrei í menntaskóla, og hann tók aldrei embættispróf frá háskóla. — Í anddyri eru 4 línur eftir Jónas Hallgrímsson letraðar á vegginn. Um Jónas er það líka vitanlegt, að hann lauk aldrei embættisprófi. En það er líka vitað, þótt þessir tveir menn lykju engu háskólaprófi, að þeim tókst samt að grundvalla alla menningu hér á landi um sína daga og eftir sinn dag, bæði pólitíska og andlega.

Það er þess vegna vægast sagt spaugilegt, þegar Alexander fer að taka sér til inntekta þessa tvo menn, sem svo stóð á um.

Jónas Hallgrímsson var á ýmsan hátt líkt settur og þeir menn, sem Alexander lét gera verkfallið. Ég get naumast óskað hinum ungu verkfallsmönnum betra hlutskiptis en að þeim tækist að vinna, þó ekki væri nema örlítið brot af verki hans, þótt hann hefði ekkert embættispróf.

Dr. Alexander er á móti viðskiptaháskólanum, af því að um stofnun hans vanti löggjöf, og telur þess vegna rétt að láta piltana þakka fyrir sig með því að hlaupast á brott úr skólanum próflausa.

Ég býst við, að dr. Alexander þekki menntaskólann og piltarnir líka. Þeir hafa verið þar, margir hverjir. Um hann hafa aldrei verið nein lög, bara launalögin. Hann hefur starfað áratugum saman fyrir því, og það þótt hann hafi aldrei haft fullkomna starfsskrá.

Viðskiptaháskólinn hafði fullkomna starfsskrá, sem farið var eftir allan tímann, og lá hún fyrir tilbúin til undirskriftar, þegar Alexander lét hefja verkfall. Það er þess vegna merkilegt, að Alexander og piltarnir skyldu fara að gera uppreisn af því, að engin lög séu til fyrir stofnunina, þó að elzti skóli landsins hafi aldrei haft nein lög.

Það er ein stofnun enn, sem ég býst við, að Alexander og piltarnir þekki, og það er sjálft brezka heimsveldið. Það hefur enga skrifaða stjórnarskrá. Það hefur samt haldizt þetta í nokkur hundruð ár fyrir því. (ÁJ: Þegnarnir hafa aldrei „strækað“! ) Ég held, að Alexander viti, að brezka parlamentið er móðir allra núverandi parlamenta, þótt það hafi enga skrifaða stjórnarskrá.

Þessi tvö dæmi, annað innlent, hitt útlent, ættu að nægja til að hnekkja þeirri firru, að skólar geti ekki verið góðir, þótt stofnlög vanti.

Um leið og ég lýk þessum aths. út af þeirri röksemd verkfallsmanna, að skólann vanti lög, vil ég segja, að mest er undir því komið, að skólum séu settar fastar starfsreglur. Þetta var gert þegar í upphafi í viðskiptaháskólanum. Þar var búin til reglugerð og henni haldið allan tímann. Samkv. þessari reglugerð var öllu haldið í föstu formi um kennslu og próf eftir þessum fyrstu frumdráttum. Síðan var reglugerðin stækkuð og undirbúin betur af kennurum viðskiptaháskólans og tilbúin til undirskriftar í vetur, þegar Alexander byrjaði hernaðinn í Nd., og væri búið fyrir löngu að staðfesta hana, ef það hefði ekki þótt ástæðulaust, ef háskólalögum væri gerbreytt á þessu þingi.

Ég ætla, um leið og ég minnist á þann sparnað, sem gætt var í viðskiptaháskólanum, að spyrja hv. 1. þm. N.-M., hvort hann geri það í sparnaðarskyni að leggja til, að skólinn verði innlimaður í háskólann. Ég vil segja honum það fyrst og fremst, að allar líkur benda til, að það þýði stórkostlega útgjaldaaukningu fyrir landið. Því að háskólinn hefur alltaf forðazt að taka menn í vinnu nema upp á föst laun. Það var þess vegna alger nýjung, þegar viðskiptaháskólinn réð eingöngu tímakennara. Háskólinn hefði aldrei tekið þá aðferð upp, ef utanrmn. hefði ekki verið búin að sýna, með afskiptum sínum af viðskiptaháskólanum, að mikið mátti spara með þeirri kennsluaðferð. Og forstöðumaður skólans hafði forstöðuna á hendi sem aukastarf fyrir litla þóknun.

Tímakaupið var fyrst 4 kr., en er nú 5 kr. Þetta hefði verið ómögulegt í háskólanum með reglugerð hans, þótt vantað hefði lausakennara t. d. í lögfræði. En það er samt unnt að fá duglega menn fyrir tímakaup.

Ég held, að hv. 1. þm. N.-M, viti ekki, að þegar dr. Alexander byrjaði hernaðinn, þá hafði hann tekið marga menn í vinnu fyrir 10 kr. á tímann til að segja til 5, eða 6 piltum í hinni nýju verkfræðideild sinni.

Í stuttu máli: Háskólinn getur ekki komizt hjá því að taka tímakennara, en hann borgar þeim helmingi hærra kaup við þessa litlu byrjun á verkfræðideild en viðskiptaháskólinn borgar.

Alexander segir, að það komi háskólanum ekkert við, hvort eða á hvern hátt Alþingi útvegi háskólanum húspláss. Hann er ekki neitt þakklátur fyrir það, þótt Alþ. hafi í meir en 30 ár lánað skólanum fundaherbergi flokkanna. Hann heimtar bara nýja dósenta.

Hv. 1. þm. N.-M. hefur lítt sinnt þessu máli og er því ókunnugur, en fer nú allt í einu að flytja brtt. Enda er það fjarstæða að fara að setja viðskiptaháskólann undir sömu stjórn og lagadeildina, sem nú hefur 3 prófessora. Þeir gætu vel kennt sín fög í viðskiptaháskólanum án þess að hann væri sameinaður lagadeild. Þessi aðferð er því ákaflega ófullkomin og sýnir alveg dæmafá þrengsli í hugsun.

Við skulum taka landa okkar í Vesturheimi til fyrirmyndar. Þeir mundu segja við Matthías Einarsson: Þú ert ágætur skurðlæknir. Þú kennir þína grein að nokkru leyti ókeypis hjá okkur fyrir heiðurinn. Hér ætti að vera auðvelt að fá t. d. hæstaréttardómarana til að kenna nokkuð ókeypis í háskólanum.

Þetta finna þeir menn, sem meiri eru fyrir sér í, lögum en ég.

Þetta er eitt af því, sem þarf að gera, og fá sem flestar deildir til að taka upp þessa nýjung, því þótt nú séu meiri peningar í ríkissjóði en verið hefur um langt skeið, þá getur samt bráðlega orðið full þörf mikils sparnaðar.

Ég vil svo beina þeirri fyrirspurn til hv. 1. þm. N.-M. og óska. eftir svari, hvort hann geti búizt við því, að þeir, sem stofnuðu viðskiptaháskólann, til þess að ala upp duglega menn í verzlun og erindrekstur fyrir landið, vilji trúa dr. Alexander og háskóla hans fyrir viðskiptaháskólanum í framtíðinni.

Það er engin ráðdeild að kaupa 7–8 menn fyrir 10 kr. á tímann til að segja mönnum lauslega til í verkfræði.

Hv. þm. veit það vel frá dvöl sinni við nám utanlands, að menn verða aldrei verkfræðingar nema þeir vinni af kappi daglangt árum saman.

Þetta brölt Alexanders er ekki af illvilja, heldur af óvitaskap og viðvaningshætti í meðferð stórra mála. Alexander hefur ekki þá dýpt í greindinni né þá reynslu eða þjálfun í hugsun, sem til þess þarf að hrinda þessum málum í framkvæmd af fyrirhyggju og hagsýni.

Það er sama ósk þessa gamla flugkappa, Alexanders Jóhannessonar, að búa til hagfræðideild. Ég held, að hv. þm. hafi ekki kafað nógu vel niður í þetta frv., og það er eðlilegt, en það er meining Alexanders eins og frv, liggur fyrir, að fyrst og fremst verði lagadeild og svo sérstök hagfræðideild og svo komi viðskiptaháskólinn eins og einhver ranghali eða útbygging, eins og viðbót við þessar tvær deildir, en hv. 1. þm. N.-M. er til með að slátra annarri, og er ég honum þar sammála. Verkfræðideildin á að standa eftir, og það hefur verið reiknað út, hvað það mundi kosta að útskrifa 5 verkfræðinga á ári. Ég hef átt kost á að kynna mér þessa reikninga, og er þar gert ráð fyrir, að kennslan mundi kosta kringum 100 þús. kr. á ári. Nú geta menn reiknað, hvort betra væri að kosta eitthvað af þessum mönnum til útlanda til náms, jafnvel í landi, sem er dýrt, eins og Ameríka, eða kosta þessa kennslu, og til viðbótar við þessa upphæð kæmi svo kostnaður vegna verkstæða og alls annars, sem þarf til þess, að verkfræðikennsla geti farið þarna fram.

Ég rakti dálítið þennan bylgjukennda ævintýraferil Alexanders Jóhannessonar; áður en ég hóf aðalræðu mína, af því að það er ómögulegt að skilja aðra eins vitleysu og þá, sem hér á að koma af stað, nema að skilja manninn, að hér sé flaumósa maður, sem sé að leika sér með þingið, og það er það, sem hann hefur gert í Nd. með þessum órólegu elementum, sem hann hefur fengið til fylgis sér. Ég skil kommúnistann vel, að hann skuli vera með þessu. Það er alveg í samræmi við þá stefnu, „jo galere jo bedre“. Hann reiknar út frá því, að þetta geti skaðað mannfélagið, þetta sé eitt af því, sem geti leitt út í byltingu. Ég skil vel, að ráðsmennska eins og sú að setja upp þessa verkfræðideild með öllu því, sem henni fylgir, sé ákaflega nærri því að passa vel fyrir kommúnista, en verkfræðideildin er aðeins önnur álman á því sama húsi, sem hér er talað um.

Í þeirri virðulegu m., sem hafði þetta mál til meðferðar, var fyrir utan hv. frsm., sem hefur haldið mikla ræðu í málinu, einnig hv. 2. landsk., sem er einn af allra elztu og reyndustu mönnum Alþfl. Mig langar til, að hann fái tækifæri til að skýra fyrir mér ýmsa óljósa þætti í sinni afstöðu, þegar hann kemur og tekur til máls síðar við þessa umr. Eins og kenning Alexanders er, mundi maður segja sem svo um þessa tvo hv. samnm. mína, að annar þeirra tilheyri hærri stéttinni. Hann er stúdent, og hann mundi geta komizt í viðskiptaskólann og allar deildirnar, ef hann vildi. Hinn maðurinn er hálfmenntaður karl, sem er af allt öðru plani, miklu lægra plani, og væri alls ekki fær um að koma inn í sama hús og hv. frsm. Nú langar mig til að vita það hjá hv. 2. landsk., hvernig hann hugsar sér þennan samanburð, hvort hann hefur þessa skoðun á sjálfum sér eins og hann undirskrifar með sínu nál., hvort hann álítur sjálfan sig svona langt fyrir neðan hv. frsm. að greind og öllum innviðum. Það er ekki mitt verk að svara fyrir barnið, en ég get ekki látið hjá líða að gera lítils háttar samanburð á þessum tveimur mönnum og sjá á þann hátt, hvort Alexander hefur á réttu að standa, hvort svona menn séu óhæfir til að vera með svona fínu fólki. Ég ætla að byrja á hv. frsm. meiri hl.

Það er fyrst um hann að segja, að hann er stúdent og hefur þar af leiðandi fengið þann tiltekna lærdóm, sem gerir hann hæfan til að vera í sálufélagi við Alexander. Svo hefur hann prófað ýmislegt, svo sem að vera verzlunarmaður hjá Zöllner og við verzlun á Vopnafirði. har átti hann sem kaupmaður og verzlunarforkólfur í höggi við kaupfélagsstjórann þar, sem er ágætur maður og heitir Ólafur Metúsalemsson. Hann er einn af þessum prýðilegu, lítið skólagengnu mönnum, sem stundum seiglast svo mikið. Og það er eitt, sem mér finnst gera málstað hv. samnm. míns veikari, að stúdentinn, maðurinn, sem hefði átt vísan aðgang að háskólanum og hefði átt að geta ráðið niðurlögum óskólagengna mannsins, hann gerði það ekki, heldur tók saman föggur sínar og fór burt, en hinn, sem alls ekki hefði getað komizt inn í viðskiptaháskólann, sat eftir eins og Wellington við Waterloo. (ÁJ: Þangað til hann fór). Þangað til hann steig hærra upp, fór til Akureyrar . Eftir öllum réttum reglum átti skólagengna kaupmanninum að farnast betur, en reyndin var ð ekki sú, og það var ekki nóg með það, að hann færi burt, heldur dó verzlunin, en hin blómgaðist hjá þeim ólærða. Ég verð því að játa minn fullkomna vanmátt til að skilja, að þetta próf, sem Alexander hefur látið menn ganga undir, sé öruggt, því að ég tel, að þetta Vopnafjarðardæmi sé í algerðri mótsögn við það.

Svo hefur þessi ágæti frsm. tekið að sér að stýra ýmsum fyrirtækjum, eins og brunabótafélagi og blöðum, og hann hefur verið umdeildur starfsmaður hjá S. Í. F., eftir því sem Keflvíkingar segja, og honum hefði átt að ganga miklu betur á Vopnafirði, í brunabótafélaginu, í ritstjórninni, í fisksölusamlaginu, ef þetta hefði verið rétt, að þessi ágæta frummenntun, sem okkar prýðilegi frsm. hefur, væri eins ákaflega kraftmikil og hann vill vera láta.

Svo er það stuðningsmaður hv. frsm., hv. 2. landsk. Hann er lítt skólagenginn, en ég þykist vita, að hann hafi stýrimannspróf, en hann hefur stöðugt komizt hærra og hærra í mannvirðingum. Hann er mikill áróðursmaður síns flokks, öruggur þm. og mikill framkvæmdamaður. Hann hefur orðið höfundur stefnu, sem er ýmist kölluð Sigurjónismi eða Sigurjónska. Ég skal ekki segja, hvað góð stefna það er, en það er áhrifamikil stefna, því að mjög mikið af þeirri dýrtíð, sem nú er í landinu, er beint og óbeint sprottin af því, hvað þessi ágæti maður hefur verið sigursæll með sína stefnu. Hann er eini maður okkar samtíðar, sem sérstök stefna er kennd við, eins og grogg er kennt við vissan aðmírál, sem kom því af stað. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég verði hér, þegar þessir ágætu þm. falla frá, en við getum hugsað okkur, að ég líti kannske hingað frá öðrum heimi, þegar forseti sameinaðs Alþingis heldur minningarræður yfir þessum tveimur þm. eins og venja er og allir standa upp, og þá get ég ekki hugsað mér annað þrátt fyrir allt en að það verði miklu veglegri dánarminning hv. 2. landsk., þrátt fyrir það, að hann hafi ekki verið tækur í skóla hjá Alexander, en hins mannsins, sem eftir mínum kunnugleika varð að lúta í lægra haldi, ekki aðeins á Vopnafirði, heldur einnig í samanburði við þennan samþm. sinn.

Ég hef nú tekið smádæmi, ég hef eins og Garðar Gíslason tekið myndir úr lífinu, því að þá skilst miklu betur þetta vandasama mál, ef við athugum í sambandi við það sérstök fyrirbrigði.

Ég er að hugsa um að nota þennan tíma fram að kaffihléinu til að minnast á nokkra aðra merkismenn og reyna að leggja á þá það alinmál, sem hv. meiri hl. n. er sammála um að leggja á, nefnilega stúdentsmenntun. Ég ætla að lesa upp lista yfir nöfn nokkurra manna. Ég held, að þeir séu allir lifandi eða nálega allir, menn, sem hafa komizt í æðstu stöður í okkar fjármálum. Þessi listi er engan veginn tæmandi.

Þessir menn eru engir stúdentar og því ekki hæfir hjá Alexander. Ég nefni þá fyrst tvo forstjóra Eimskipafélagsins, Emil Níelsen, sem var, sjómaður, og Guðmund Vilhjálmsson, sem er algerlega sjálfmenntaður og hefur engin meiri háttar próf. Ég vil nefna þrjá Kristinssyni, Hallgrím, Sigurð og Aðalstein og Jón Árnason. Þá vil ég beina til hv. 2. landsk, einu nafni, Jón Baldvinsson, sem hafði ekki próf nema sem prentari, og samt fól Alþfl. honum forustu þess eina atvinnufyrirtækis, sem hann átti, Alþýðu-brauðgerðarinnar. Þá vil ég nefna Garðar Gíslason, Thor Jensen, Ríkarð Thors og Ólaf Johnson stórkaupmann, sem er álitinn einhver allra færasti stórkaupmaður hér á landi, forstöðumann sláturfélagsins, Helga Bergs, Björn Ólafsson stórkaupmann, sem árum saman hefur gegnt vandasömum trúnaðarstöðum fyrir sína stéttarbræður, Jóhann Jósefsson alþm., sem hvað eftir annað hefur verið trúnaðarmaður ríkisstj. við samninga við önnur ríki. Þá vil ég síðast nefna frá Alþfl. Harald Guðmundsson, sem er einn aðalmaðurinn í Alþfl. og aðaltrúnaðarmaður við mikils háttar sendiferðir innan lands og utan. Að síðustu vil ég nefna hæstv. forseta þessarar d., sem hefur bæði verið formaður stærstu smásöluverzlunar og stærstu heildsöluverzlunar landsins. Hæstv. forseti þessarar d. hefði ekki getað fullnægt kröfum Alexanders á sínum yngri dögum nema bæta við sig námi, en hann hefur getað stýrt stærsta kaupfélagi landsins og Sambandi íslenzkra samvinnufélaga í mörg ár, án þess að kæmi að sök.

Ég verð að játa, að ef ég sný mér sérstaklega að hv. 2. landsk., þá finnst mér það framúrskarandi merkileg leið, sem hann hefur komizt inn á í þessu efni og hans ágæti flokkur. Ég sá nýlega í flokksblaði hans, að þar var verið að undirstrika, að flokksmenn ættu að leggja í minningarsjóð Jóns Baldvinssonar í virðingarskyni við þann dána merkismann. Eftir því, sem ég veit, þá er þetta eini maðurinn, sem flokkurinn hefur heiðrað á þennan hátt. Það er litið á Jón Baldvinsson sem ákaflega þýðingarmikinn mann og einn af skörungum sinnar samtíðar. Þessi maður gekk ekki skólaveginn og tók ekki próf, heldur lærði hann ákveðna handiðn. En vegna hæfileika og menntunar, sem hann aflaði sér sjálfur, fór svo, að þessi flokkur, sem stóð að honum; fól honum forstöðu eina fyrirtækisins, sem flokkurinn átti. Og þegar flokkurinn átti að tilnefna mann í bankastjórastöðu, þá tilnefndi hann þennan mann, þó að hann uppfyllti ekki að neinu leyti þær kröfur, sem hv. 2. landsk. álítur óhjákvæmilegt að uppfylla til þess að hægt sé að komast áfram í þessum efnum.

Mér þykir sennilegt, að þegar hv. 2. landsk. fer að svara þessu, þá segi hann sem svo, að þótt Jón Baldvinsson hafi að vísu verið ágætur maður, þá hafi hann samt tilheyrt þeim lágu andlegu vitsmunavegum, sem svo mætti kalla, og hann hafi haldið sig á þeim lágu andlegu vegum. Ég get ekki skilið hans afstöðu öðruvísi en að hann meini þetta. En ef hv. þm. álítur, að þrátt fyrir það, að Jón Baldvinsson væri óskólagenginn og hefði engan lærdóm haft til þess að geta undirbúningslaust komizt í skóla hjá Alexander, þá hafi hann verið frábær maður, svo að það hafi verið rétt af flokknum að gera hann að bankastjóra og fela honum forustu flokksins, þá er hv. 2. landsk. orðinn tvísaga, og þá er undirskrift hans undir nál. bara vitleysa, og þá hefur hann ekki vitað, hvað hann var að gera. Ef hv. þm. getur ekki gert skynsamlega grein fyrir þessu, þó að ekki sé tekinn nema þessi eini maður úr hans flokki; þá er hans málstaður hruninn eins og spilaborg. Annars vil ég meina, að þessi skoðun hans stafi ekki af neinni innri löngun hjá honum, heldur sé lekastaður við kjölinn, síðan Jón Baldvinssonar missti við, því að áhrif frá kommúnistum hafa seytlað inn í Alþfl. niðri við kjölinn, og þar hefur verið leki síðan. — Þetta dæmi eitt sýnir, að flokkurinn vegna leka við kjölinn hefur verið að vinna að því, sem er í mótsögn við stefnuskrá hans, gengið inn á stefnu kommúnista. Afstaða kommúnista í þessu máli finnst mér alveg réttmæt. Þeir hafa skilið málið réttilega. Það var ekki hægt að búast við öðru en að þeir hefðu viljað láta taka svona á því. En Alþfl., sem hefur valið sér það nafn, sem nú er kannske ekki meira en svo viðeigandi, en mun eiga að tákna, að hann vilji berjast fyrir málum þeirra fátækari, og þetta kemur fram í hans agitation, að það séu þeir fátækari, sem þeir vilja hjálpa, af því að aðrir geri það ekki, — þá þykir mér merkilegt, hvernig þessi stefna þróast nú hjá hv. 2. landsk. Það er vitanlegt, að hér á landi eru ekki nema tveir menntaskólar, svo að það hlýtur að vera, að þeir hafi ekki mesta þýðingu fyrir verkamannaflokkinn. Ef frá er tekinn Héðinn Valdimarsson, sem var ekki verkamannssonur, þá má segja, að Alþfl. hafi ekki fengið neitt af verkamannasonum, sem hafa gengið í gegnum menntaskólana. Af hverju mundi þetta stafa? Ég get ekki skilið, að það geti stafað af öðru en fátækt. Verkamenn hafa ekki ráð á að kosta börn sín fyrst í 6 ár í menntaskóla og svo kannske í mörg ár í háskóla. Þeir geta það ekki einu sinni hér í Reykjavík, þó að þeir þurfi ekki að fara burt af heimilum sínum. Og ef við förum svo austur á Eyrarbakka, austur á firði, upp í Borgarnes, fara þá verkamannasynirnir þar í menntaskóla? Ég held ekki. Þeir geta það ekki og gera það fæstir. Nú álít ég, að skipulagið eigi ekki að vera þannig, að efnilegir verkamannasynir geti ekki átt aðgang að okkar æðri menntastofnunum, og úr því að svo vel vill til, að hægt er að mæta óskum og kröfum efnilegra ungra manna, þó að fátækir séu, ef þeir eru duglegir, þá finnst mér sjálfsagt að gera það. Þeir, sem standa að verzlunarskólanum, eru margir efnaðir menn, og þeir hafa látið sér detta í hug að gera hann að verzlunarháskóla. En þó að verzlunarskólinn verði eingöngu fyrir stúdenta, þá er það út af fyrir sig ekki heppileg leið fyrir fátæka unga menn, sem vinna í búðum allan daginn og hafa bara kvöldið til náms. Ég get án þess að fara út úr þessari hv. deild bent hv. 2. landsk, á dæmi um það, hvernig ungir menn geta, jafnvel undir erfiðustu kringumstæðum, komið sér áfram eins og ég hugsa mér viðskiptaskólann, en ekki eins og hann hugsar sér hann. Ég ætla þá að taka hv. þm. Vestm., — ég sé, að hv. 2. landsk. er nú seztur í hans sæti. Hann er alinn upp í Vestmannaeyjum og var of fátækur til að fara í skóla. Hann starfaði að útgerðarmálum og vann í búð og varð síðar eigandi í verzlun. Hann aflaði sér margháttaðrar þekkingar í tungumálum, í félagsmálum, í verzlunarmálum. Hans þjóð, hans flokkur, hans hérað hefur kjörið hann öðrum fremur sem sinn sendiboða. Ég hef hugsað mér með leyfi hæstv. forseta að enda á þessu dæmi nú, áður en við fáum það eðlilega kaffihlé. Ég vil, að hv. 2. landsk, athugi það, hvernig hann í góðri trú hefur villzt út frá sinni stefnuskrá, sem maður hugsaði sér, að hann vildi vinna fyrir, og út í einhverjar hafvillur, þar sem lekur við kjölinn á alþýðuskútunni. [frh.].