13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

85. mál, tollskrá

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég hef ekki miklu við það að bæta, sem hæstv. fjmrh. hefur tekið fram út af ræðu hv. 11. landsk. Þessar till., sem fjhn. hefur tekið upp, eru hugsaðar sem einn liður í þeim ráðstöfunum, sem gerðar verða til þess að reyna að hafa áhrif á það, að vísitalan annaðhvort lækki eða hætti að hækka. Ef litið er á þetta sem einstaka ráðstöfun, getur það ekki orkað miklu, en er hugsanlegt, að það geti orðið einn liður í því að hafa áhrif á vísitöluna, þegar fleira kemur til. Það hefur verið komið inn á það, að þessar till. væru gerðar vegna þess, að það er ekki sjáanlegt annað en að ríkisstj. verði að fá heimild þingsins til þess að afla fjár til að koma í veg fyrir hækkun dýrtíðarinnar. Ég ætla ekki hér að fara út í það sérstaklega, hvaða till. kunna að verða gerðar, en það er ekki annað sjáanlegt en að ríkissjóður verði að afla sérstaks fjár í því skyni. Þetta mun annars skýrast betur, þegar þær till. aðrar koma fram, sem ríkisstj. hefur á prjónunum í þessum málum.