13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

85. mál, tollskrá

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Af því að þessari brtt. er útbýtt á fundinum, þá vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að þetta er ekki aðeins bráðabirgðaákvæði, heldur er það beinlínis tímabundið. Það er verulegt atriði, að þessi breyt. fellur í burtu í árslok 1942, en þá kemur það til kasta Alþ., hvort það vill halda þessu áfram. Ég vildi aðeins skjóta þessu hér fram. Ég minntist á það í minni fyrstu ræðu, að þessi lækkun á tollinum mundi nema einu stigi til lækkunar á vísitölunni, og það var eftir upplýsingum frá manni, sem ég hélt, að hefði reiknað þetta út með vissu. Annars verð ég að segja það út af ræðu hv. 1. þm. N.-M., að ég tel ástæðu til þess að athuga þann reikning, sem lagður er til grundvallar vísitölunni. Ég hef einu sinni séð nokkuð af þessum reikningum, og ég varð dálítið undrandi yfir því t. d., hvað óhemju mikið smjör var keypt af þessum fjölskyldum, sem þó voru verkamannafjölskyldur. Ég veit, að það hefði þótt mikið á mínu heimili, sem þó er talið að sé í auðmannastétt, að mér hefur skilizt stundum. Þó að ég viðurkenni það að hinir raunverulegu reikningar séu betri en áætlunarreikningar, þá finnst mér sumt af þessu óþarflega hátt reiknað.

Ég er hv. 1. þm. N.-M. sammála um það, að það beri aðeins að taka tillit til þess, sem eru lífsnauðsynjar, við ákvörðun kaupvísitölunnar, og ég er því meðmæltur, að það verði tekið til athugunar.

Ég vil aðeins út af brtt. hv. 11. landsk. taka það fram, að ég er ekki að andmæla henni sérstaklega, en n. vildi ekki taka tillit til hennar frekar en annarra brtt., sem fyrir liggja. N. telur rétt að láta atkv. eingöngu skera úr um þessa brtt. eins og allar hinar.