16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (3195)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Hv. þm. Ísaf. er allajafna vanur að tala af miklu yfirlæti og gorgeir, en sérstaklega tekst honum vel upp, ef málin lykta eitthvað af sjávarseltu, því hann vill endilega láta líta svo út sem hann sé alveg sérstakt „autoritet“ á öllum sviðum, er eitthvað snerta útgerð. Maður skyldi því ætla, að þessi hv. þm. læsi þau skjöl, sem Alþingi berast og varða þessi mál sérstaklega. Það mætti ætla, að hans mikli áhugi kæmi fram í því að kynna sér málin sem bezt, en svo er ekki. Annars var hv. þm. að bera mér á brýn falsanir á skjölum. Því mun ég ekki svara. Þess gerist ekki þörf. En hins vegar held ég, að hugmyndir þessa hv. þm. um fals og falsanir séu sljóar, og ferst honum illa að bera öðrum slíkt á brýn.

Ég skal leyfa mér að skýra frá því, að í skjali hinna 300 útvegsmanna við Eyjafjörð var farið fram á, að dragnótaveiðar yrðu bannaðar bátum yfir 5 tonn allt árið. Og hv. meðflm. mínir að frv. vildu láta bannið ganga jafnt yfir allar fleytur, stórar og smáar. En ákvæði frv. eins og það er eru miðuð, að því er tilslökunina snertir, við Akureyri. Þar eru smáútvegsmenn nokkuð kvíðandi vegna þeirrar óvissu, sem ríkir um síldveiðarnar. Þeir geta, eins og sakir standa, ekki treyst því, að þeir fái skiprúm á síldarskipum, né heldur, að síldarverksmiðjurnar verði starfræktar við Eyjafjörð.

Ég býst nú við, að þessi hv. þm., sem þykist hafa vit á öllu, geti nú athugað þessi rök og metið þau eftir því, sem hann er maður til.

Fyrir hvers hagsmunum hefur þessi hv. þm. þótzt vera að berjast hér á þingi? Fyrir hagsmunum smælingjanna og smáútvegsins. En það eru aðeins eigendur þeirra stærri dragnótabáta, sem hafa efni á að eignast þessi veiðarfæri og láta stunda þessar veiðar, og það eru þeir, sem þessi hv. þm. er að halda hlífiskildi yfir á kostnað smælingjanna.

Hv. þm. sagði, að hann hefði ekki látið eitt hnjóðsyrði falla í garð sveitanna. Ég get sagt þessum hv. þm., hvað hann sagði. Hann var að tala um fáránlega fulltrúa sveitakjördæmanna. Í gær var hann að tala um, að kommúnistar hefðu verið að hlaupa frá sínum orðum. Fyrst hann finnur þannig ástæðu til að vanda um við aðra, tekur hann það vonandi ekki illa upp, þó að aðrir vandi um við hann fyrir það sama.

Það sýnir hug þessa hv. þm. til sveitanna, þegar hann var að tala um, að þetta frv. mundi vera flutt til þess að afla vinnufólks í sveitunum. Það fannst honum fjarlægara en allt annað. Þetta getur verið sjónarmið út af fyrir sig, en svo var fyrirlitningin á sveitunum mikil hjá honum, að honum fannst, að það hefði ekki getað réttlætt þetta frv. á neinn hátt, ef svo hefði verið, að þetta hefði verið tilgangur frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en hver veit nema ég fái tækifæri til að rísa upp aftur. Það er áskorun mín til hv. þm., að þeir láti ekki flekast af þessum hv. þm., þó að hann telji sig vera eitthvert „aptoritet“ í sjávarútvegsmálum á Alþingi.