16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (3196)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Ísleifur Högnason:

Þær ræður, sem fram hafa komið um þetta mál, lýsa vel þeim árekstrum, sem hljóta að koma í ósamvirku þjóðfélagi og þeirri hagsmunatogstreitu, sem er á milli ákveðinna útgerðarmanna. Það eru aðallega útgerðarmenn í Eyjafirði og Skagafirði, sem óska eftir að fá að sitja að veiðinni sjálfir, en útiloka aðra og eru svo með slagorð um, að nauðsynlegt sé að vernda fiskistofninn, til þess að láta allt líta betur út.

Hv. flm. þessa frv. virðast ekki muna eftir, að það eru líka til aðrir útgerðarmenn, sem líka þurfa að veiða fisk á þessum tíma, t. d. við suðurströndina, allt frá Hornafirði til Reykjaess. Þar er hvergi hægt að stunda þessa veiði með þeirri skaðlegu dragnót.

Ég get ekki fylgt þessu frv., af því að mér finnst það vera flutt frá svo þröngu hagsmunasjónarmiði nokkurra útgerðarmanna við Norðurland, og þó að hv. flm. haldi fram, að þar sé aðeins um smáútgerð að ræða, þá sér maður það ekki af þessum undirskriftum og þarf ekki að taka það trúanlegt. Ég álít, að málið þyrfti að athugast betur með hagsmuni útgerðarinnar í heild fyrir augum, en af þessum umr. sést, að hér er aðeins að ræða um hagsmunatogstreitu milli útgerðarmanna víðsvegar um land, en alls ekki að vernda fiskistofninn, eins og þeir láta heita í grg.. frv. Þess vegna get ég ekki verið með að samþ. frv. eins og það liggur fyrir.