21.04.1941
Neðri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (3233)

107. mál, iðnlánasjóðsgjald

*Frsm. (Emil Jónsson) :

Þessi tvö frv. voru bæði tekin til umr. án þess að ég gæti fylgt þeim úr hlaði og mælt með þeim, en ég mun gera það nú, eftir að hv. þm. V.-Húnv. hefur komið fram með sínar aths. Eins og hann tók fram og rétt er, er það, sem háð hefur iðnaðinum mest, skortur á fjármagni, fyrst til stofnunar fyrirtækjanna og síðan einnig til rekstrar þeirra. Eins og er, er engin lánsstofnun til, sem starfar sérstaklega fyrir iðnaðinn. Það eru til lánsstofnanir fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn, en fyrir utan iðnlánasjóð er engin lánsstofnun til fyrir iðnaðinn. Það er erfitt vegna þess, að það, sem þessi starfsemi getur sett sem tryggingar, eru vélar og hálfunnar vörur, sem vafasamt er, hvort hæft er sem trygging fyrir lánum. Bankarnir hafa því verið tregir að lána iðnfyrirtækjum. Tilraun til að bæta úr þessu var gerð árið 1935 með stofnun iðnlánasjóðs, með 25 þús. kr. árlegu framlagi úr ríkissjóði í 10 ár. Menn geta sagt sér það sjálfir, að fyrir jafnmikinn atvinnuveg og iðnaðurinn er eru 25 þús. kr. á ári eins og dropi í hafið. Þó hefur lánssviðið verið mjög takmarkað, eingöngu lánað til vélakaupa fyrir smærri iðnrekendur.

Þetta atriði hefur hv. þm. V.-Húnv. ekki athugað, þegar hann sagði, að í skrána vantaði lán til fyrirtækja, sem hafa unnið úr íslenzkum hráefnum, t. d. ull og skinnum. Þetta er af þeirri ástæðu, að eins og l. eru nú banna þau, að veitt séu lán til stærri iðnfyrirtækja: Þessu er meiningin að kippa í lag, svo að jafnt verði heimilt að lána til stærri og smærri fyrirtækja; fyrst og fremst þeirra, sem vinna úr íslenzkum hráefnum, því að þau eru gagnlegust.

Frv. um breyt. á l. um iðnlánasjóð, sem að vísu er búið að afgreiða til 2. umr., miðar fyrst og fremst að því, að fé sjóðsins verði aukið á þrennan hátt, með framlagi ríkissjóðs og tveim nýjum tekjulindum, gjaldi af innfluttum iðnaðarvörum og skatti af vinnulaunagreiðslu iðnfyrirtækja. Ég geri ráð fyrir, að þetta nemi jafnmikilli upphæð og ríkissjóði er ætlað að leggja fram. Iðnrekendur sjálfir buðust til að sýna sinn vilja með því að leggja á sig þessa skattgreiðslu. Félag ísl. iðnrekenda, sem hefur innan sinna vébanda langflest iðnfyrirtæki í landinu, vildi taka upp þetta gjald til þess að sýna það, að þeir væru viðbúnir að leggja á sig nokkurn skatt til þess að koma iðnaðarmálunum í betra horf.

Ég er fús til að taka til athugunar það, sem hv. þm. V.-Húnv. skaut fram, og ég veit, að n. muni vera það öll.

Ég vænti, að hv. þdm. taki þessum málum báðum vel og skilji þá þörf, sem er fyrir hendi. Vænti ég og, að samkomulag geti orðið við hv. þm. V.-Húnv. um aths. hans.