17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3436)

97. mál, mannanöfn o. fl.

Frsm. (Þorsteinn Briem) :

Menntmn. flytur þessa till. Ástæðan til þess, að hún er borin fram, er sú, að enn hafa ekki komið til framkvæmda 16 ára gömul lög, frá 1925, um mannanöfn. Allmjög hefur viljað út af bera um, að góð og gild íslenzk nöfn væru valin mönnum, og þarf ég ekki að tilgreina mörg dæmi. Ég get af handahófi eftir upplýsingum frá hagstofunni tilnefnt t. d.: Konny (á að vera kvenmannsnafn, sbr. íslenzka gælunafnið „Konni“ á karlmanni), Maggy, Hally. Hally á víst að vera í höfuðið á Hallveigu, fyrstu húsmóður Íslands! Það má segja, að smekkurinn hafi breytzt frá því, er konu Ingólfs var nafn gefið. Þá vil ég telja kvenmannsnafnið Prósó. — Til er það líka, að sama nafnið er kvenmannsnafn á einum stað á landinu, en karlmannsnafn á öðrum: T. d. er „Gígja“ kvenmannsnafn á Akureyri og í Skagafirði, en í Reykjavík er það nafn á karlmanni. Kona á Austurlandi er nefnd Elís, en karlmaður er líka nefndur Elís, og er það sýnu nær.

Karlmenn eru nefndir eftir spámanninum Elísa, en kvenfólk einnig. Það mætti búast við, að Sturla yrði brátt kvenmannsnafn. Þá gæti komið fyrir, að Sturla og Sturla settust á brúðarbekk saman!

Þá fara ýmsar nýmyndanir í þá átt að breyta góðum nöfnum eða stytta þau. T. d. er nafnið Ingibergur orðið að Ingiberg eða jafnvel Ingiber, Víglundur að Víglund, sem ætti þá líklega að bera fram á dönsku, og Vilbergur að Vilberg. Mörg fleiri dæmi mætti nefna. Gamalt íslenzkt nafn er Hreinn, en einhverjum hefur ekki þótt það nógu veglegt, heldur snúið því á grísku, og verður það þá Katrinius.

Það er nú tími kominn til, að þessi löggjöf komi til framkvæmda og að hlýtt sé fyrirmælum um að gefa út skrá með þeim nöfnum, sem hönnuð eru. Almennt manntal fór fram 2. des. síðastl., er hagstofan mun brátt byrja að vinna úr. Væri þá heppilegt að vinna að skránni samtímis.

Löggjöfin mælir svo fyrir, að ekki má bera önnur nöfn en þau, sem rétt eru samkvæmt lögmálum íslenzkrar tungu, og er prestunum ætlað að hafa eftirlit með, að þessu verði hlýtt. En það mun nú um prestana sem aðra menn, að þeir eru misnæmir á tunguna og eiga líka oft við, ýmsa örðugleika að etja í slíkum málum. Sjálfur hef ég ekki getað komizt lengra en að heimta annað nafn á barn, sem ég átti að skíra, sem væri gott og gilt íslenzkt nafn, svo að barnið gæti seinna meir átt þess kost að hafa það nafn að aðalnafni, en ekki ónefnið.

Hér kemur og til greina fastheldni við nöfn ættingja manna, sem er skiljanleg. Nafn góðrar móður hljómar vel í eyrum barns hennar, þó að það fylgi ekki lögum tungunnar. Það er erfitt við þær tilfinningar að eiga, en það verður verra eftir því, sem lengur dregst að framkvæma l. frá 1925. Þess vegna hefur menntmn. lagt til að skora á ríkisstj. að láta 1. frá 1925 koma til framkvæmda, láta gefa út skrá um hin bönnuðu nöfn og jafnframt að láta skránni fylgja leiðbeiningar fyrir almenning. Sums staðar eru ákvæði 1. óljós. Nú eru menn t. d. af erlendu bergi brotnir og vilja halda erlendu nöfnunum í ætt sinni. Þar eru ákveðin óljós. N. ætlar sér ekki þá dul að flytja frv. um breyt. á 1., en vill láta málið vera í höndum ráðh. og heimspekideildar háskólans, samkv. því, sem í 1. er fyrir mælt.

Þá vill menntmn. leggja til, að menn geti fengið ókeypis nafnbreytingu. Það kostar nú 50 kr. að fá ónefni breytt. Sú venja hefur skapazt án þess að l. væru fyrir hendi, og þar sem ekki eru lagafyrirmæli til fyrirstöðu, nægir að skora á ríkisstj. að veita slíka nafnbreytingu ókeypis. Margir breyta nöfnum sínum sjálfir, án staðfestingar frá því opinbera, skrifa það inn á manntal og aðrar skýrslur, og það fær smám saman hefð. Síðar getur borið svo til, að heimta verður fæðingarvottorð, og þá kemur í ljós allt annað nafn. Þetta getur valdið ruglingi og óþægindum.

Ég mun ekki fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að hv. d. taki þáltill. vinsamlega.