17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3438)

97. mál, mannanöfn o. fl.

Frsm. (Þorsteinn Briem):

Hv. þm. N.-Þ. tók í mörgu tilliti vel undir það mál, sem hér er flutt:

Hann beindi þeirri spurningu til n., hvort hún vildi ekki athuga um aðrar leiðir til að fá ónefnunum útrýmt en þær, sem gert er ráð fyrir í 6. gr. 1.

Þar er því til að svara, að n. taldi sér á þessu stigi málsins aðeins skylt að minna á þá leið sem gert er ráð fyrir í 1. En þá fyrst má fara að ræða um aðrar aðferðir, þegar reynt hefur verið að framkvæma það, sem l. skipa beinlínis fyrir um.

Annars held ég fast við þá skoðun mína, að þeim, sem falið er að skíra börn, væri mikill styrkur að þeirri skrá, sem gert er ráð fyrir í 6. gr. 1., um bönnuð nöfn. Því að það er mikil hætta á, að slík nöfn festist. Það eru til margir ágætir menn, sem heita ljótum nöfnum. Og því getur verið vilji til að minnast þeirra t. d. með því að láta heita eftir þeim. Í slíkum tilfellum, sem oft eru e. t. v. tilfinningamál aðstandendanna, væri gott fyrir prestana að hafa bókstafinn til að fara eftir.

Hv. þm. benti á, að myndazt gætu ný og ný ónefni, þrátt fyrir þessa skrá. Það kann að vera. En ég hygg, að útgáfa skrárinnar mundi einmitt draga úr þeirri hættu.

Till. fer raunar fram á fleira en að skráin sé birt. Þar er jafnframt lagt til, að gefnar séu út leiðbeiningar um myndun nafna, t. d. kvenmannsnafna af karlkynsnöfnum og gagnkvæmt. Það ætti að geta orðið gagnleg aðstoð fyrir þá, sem mynda slík nöfn og gefa þau börnum sínum.

Hv. þm. benti á það, að prestar mundu hafa það allmjög á valdi sínu, hvaða nöfnum börn eru skírð. Ég hygg nú, að hvort tveggja sé, að

okkur prestunum sé misjöfn gáfa gefin að dæma um þetta sem annað, og í annan stað er mjög fjarri því, að prestar hafi nokkurn valdboðsrétt í þessu efni. Því að það stendur hvergi í 1., að presti sé bannað að skíra, ef honum líkar ekki nafnið. Honum er að vísu heimilt að áfrýja til heimspekideildar háskólans, en svo gæti vel staðið á, að presti fyndist slíkt næsta löng stekkjargata.

Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að það yrði mörgum presti góð stoð, ef heimspekideild gæfi út slíkar leiðbeiningar.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. þm. um framkvæmd ákvæða 1. um ættarnöfn skal ég játa, að menntmn. hefur ekki kynnt sér það atriði sérstaklega, en leyfi mér að vísa fyrirspurninni til hæstv. ráðh. þeirrar stjórnardeildar, sem þetta heyrir undir. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að ný ættarnöfn hafi ekki verið leyfð, síðan 1. komu í gildi, þó einhverjir kunni að nefna sig nafni, sem á að vera ættarnafn.

Það eru, eins og þáltill. ber með sér, tilmæli n., að ráðuneytið ásamt heimspekideild háskólans taki það til yfirvegunar, á hvern hátt þessum l. verði bezt framfylgt.

N. er þeirrar skoðunar, að skrá samkv. 6. gr. 1. yrði til bóta. Enn fremur yrði útgáfa leiðbeininga skv. 4. gr. til hægðarauka fyrir alla aðila, og loks að mönnum yrði leyft að breyta um nöfn, þegar þeir hafa hlotið ónefni.