25.03.1941
Sameinað þing: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

Skúli Guðmundsson:

Þessi þáltill. frá hv. 5. þm. Reykv. er um það að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að keypt verði og flutt til landsins á þessu ári efni í skipasmíðastöð og fiskiskip í allstórum stíl, og síðan hlutazt til um að senda verkfræðing til Ameríku til að sjá um kaup á efni í skip og skipasmíðastöð. Þá geri ég ekki ráð fyrir, að ágreiningur sé um það, að innan skamms verði mikil þörf fyrir Íslendinga að endurnýja skipastól sinn. Ég er einnig sammála flm. till. um það, að vinna þurfi að því, að skip séu smíðuð hér á landi í framtíðinni. En í sambandi við það að færa skipasmíðarnar inn í landið og endurnýja flotann, þá koma mörg önnur atriði til greina, sem þörf er á að rannsaka. Það er rannsóknarefni, hvaða stærðir og tegundir skipa henta bezt fyrir okkur, og svo skiptir það líka máli, að efni í þessi skip sé keypt á hentugum tíma. Ég mun greiða atkvæði með því, að þessi till. komi til 2. umr. og n. til athugunar, en hins vegar vildi ég taka það fram, að till. er þannig orðuð, að eigi er hægt að samþ. hana eins og hún er. Það er vitanlega ekki hægt um það að segja og liggur ekkert fyrir um það, hvort til eru menn hér í landinu, sem vilja eða geta lagt fram fé til kaupa á efni, eins og þarna er gert ráð fyrir, og verður þá ekki annað séð af till. en að það vaki fyrir flm., að ríkisstj. kaupi inn efni. Það á að skora á stjórnina að gera ráðstafanir til þess að kaupa til landsins efni til þessara framkvæmda, og ef einstaklingar eða einstök félög vilja ekki leggja í þessi kaup eða hefðu ekki möguleika til þess, þá verður ríkisstj. að gera kaupin. En ef ríkisstj. réðist nú í slík kaup fyrir hönd ríkisins, þá yrði það til þess, að þarna yrði sett á stofn ríkisverzlun með þetta efni, eða ef til vill er hægt að skilja till. þannig, að ríkisstj. eigi að setja upp skipasmíðastöð og láti smíða skip. Ég vildi vekja athygli á þessu, þar eð ég fyrir mitt leyti get ekki á það fallizt að óathuguðu máli að skora á ríkisstj. að setja upp landsverzlun með þetta efni og reka skipasmíðar. Ég teldi eðlilegra, að þeir einstaklingar keyptu þetta efni, sem áhuga hefðu á því að eignast slík skip.

Þetta vildi ég láta koma fram við fyrri umr. málsins, og vænti ég, að nefndin taki til athugunar orðalag tillögunnar.