09.05.1941
Sameinað þing: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (3468)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

*Sigurður Kristjánsson:

Það er langt síðan þessi till. var flutt og rétt ár síðan aðstaðan á flutningi til landsins hefur breytzt til hins verra, þ. e. a. s. hætturnar á hafinu hafa aukist. Að öðru leyti má segja, að ástandið sé óbreytt.“

Skipastóll landsmanna til flutninga er sá sami, en fiskiskipum hefur ört fækkað, og nauðsyn fyrir aukinn skipastól er augljós.

Það er að sjálfsögðu betra en ekki að samþykkja till. svo breytta eins og hún kom frá hv. n., en það verður ekki breitt yfir, að með breytingunni er dregið mikið úr þeim kröfum, sem gerðar voru í upphafi, og þeim er drepið meira á dreif.

Í staðinn fyrir að skora á ríkisstj. að flytja inn efni á þessu ári í skip og skipasmíðastöð, þá er í brtt. ríkisstj. falið að greiða eftir mætti fyrir innflutningi. Það sama, sem ríkisstj. þykist hafa gert undanfarið. Í brtt. er ekki tilgreint, að þetta skuli vera fiskiskip, enda þótt það sé aðaltilgangurinn. Einnig er fellt úr að senda menn úr landinu til þess að velja efni. — Ég hefði kosið og vænzt þess, að till. hefði orðið fyllri, þegar hún kom frá n., heldur en að úr henni yrði dregið. Ég hefði talið, að vel mætti rannsaka, hvort ekki er víðar völ á efni en í Ameríku, t. d. ekki útilokað, að það fengist frá Englandi. En n. hefur ekki talið fært að ganga jafnlangt minni till., fyrst og fremst vegna örðugleika á matvælaflutningi til landsins.

Það er rétt, að hér er nú vöntun á ýmsum matvörutegundum. Það vitum við bezt, sem fyrir heimili þurfum að sjá, að margar algengar tegundir matvæla fást hér ekki í búðum. Þegar við förum með matvælaseðla og ætlum t. d. að fá haframjöl, þá fæst það ekki, og þannig er með ýmislegt annað. En matvöru fáum við ekki nema við greiðum hana. Og með hverju greiðum við? Við greiðum einmitt með því, sem við fáum úr sjónum, og þá þurfum við skipastól. Um það er talað að taka hluta af arði sjávarútvegsins til að hjálpa landbúnaðinum. Hvað sýnir það? Það sýnir, að sjávarútvegurinn er undirstaðan fyrir því, að við lifum. Þess vegna er leiðinlegt, að hv. allshn. Sþ. skyldi ekki sjá sér fært að gera till. fyllri en hún var.

Án þess að ég vilji stofna hér til deilna um þetta, þá vil ég segja það, að það skortir skilning á mikilvægi sjávarútvegsins hér á hv. Alþ. Ég man, að fyrir nokkrum árum kom ég með till. um, að Alþ. samþ. fjárveitingu til fiskirannsókna hér við land. Af þessu var svo mikil sjávarseltulykt fyrir þessa háu samkomu, að þannig fór, að till. fór í n., en þegar hún kom úr n., var hún orðin sundurtætt og búið að taka burt úr henni, að fiskifræðingar mættu koma nálægt þessu, og þannig útleikin, að það var eins og vargur hefði komizt í hana og yfir mig ausið ónotum ef ekki mætti segja skömmum fyrir þessa till.

Ég hef flutt á tveim þingum till. um að tryggja aflahluta á fiskiskipum. Í annað skiptið kom frv. fram í Ed., og hún sá fyrir því. Í hitt skiptið var því vísað hér með rökstuddri dagskrá út úr hv. d. og stj. falið að leggja málið aftur fyrir, eftir að það hefði verið athugað. En það hefur hæstv. ríkisstj. ekki dottið í hug að gera.

Fiskihlutur manna hér við land á þeim 1/4 árs, sem liðinn er, hefur komizt á annari tug þús. kr. Sjálfir vita hv. þm. mjög vel, að fram undan muni ár, þegar aflahlutir muni hrynja niður í kannske ekki neitt, og jöfnunarsjóður yrði því nauðsynlegur. En þetta mál gat ekki fengið afgreiðslu vegna þeirrar tregðu, sem slík mál alltaf mæta hjá allt of stórum hópi þm. Ég er því vanur við að bíða skipbrot með till. um efni þessarar miklu atvinnugreinar okkar Íslendinga, sem er undirstaða undir ríkisbúskap okkar og að efnum til undir okkar þjóðarbúskap. Nú þykir mér að sönnu mikil bót í öllu þessu böli, að hv. n. hefur þó séð sér fært að leggja til, að stj. yrði falið að gera eitthvað, sem henni gott þætti í þessu efni, en ekki að afgr. till. með rökstuddri dagskrá. En eftir framtakssemi hæstv. ríkisstj. í innflutningsmálunum á undanförnum mánuðum og árum get ég ekki borið mikið traust til hennar, þegar verkefnin eru rétt upp í hendur hennar með jafnmiklum dræmingi eins og gert er með þessa till. Það hefur verið mjög erfitt að fá ríkisstj. til þess að gera mjög hörð átök í innflutningsmálunum. Og það veitir ekki af því að ýta heldur undir það heldur en að draga úr því, að hún hafi einhver úrræði.

Nú er það svo, að við eigum mjög undir högg að sækja til brezku ríkisstj. um innflutning. Og það munu vera þeir mestu örðugleikar, sem ríkisstj. hefur við að stríða, að vera háð samningum við stj. Breta um innflutning á þessum nauðsynjum eins og öðrum. Og ég efast ekki um, að hæstv. ríkisstj. er að togast á við brezk völd um þessi mál. Ég hélt, að það mundi vera styrkur fyrir hæstv. ríkisstj. að geta vitnað í öflug fyrirmæli og öflugan vilja alls þingsins um innflutning á einhverjum sérstökum alveg nauðsynlegum hlutum. Þar af leiðandi bar ég fram þessa till., þó að ég væri ekki í vafa um það, að hæstv. ríkisstj. mundi gjarnan vilja, að innflutningur tækist á efni í skip. Það ýtti sérstaklega undir mig að flytja þessa till., að á einum einasta degi fóru í mél milli 10 og 2.0 fiskiskip nú einmitt fyrir fáum vikum. Og á sama tíma brotnuðu meira og minna margir tugir fiskibáta, og allt kostaði þetta rýrnun fiskiflotans fyrst og fremst og svo mjög mikið efni. sem þarf til þess að gera við þá bátana, sem brotnuðu, en ekki fórust. Ég vil fúslega viðurkenna, að mín till. sé ekki eins fullkomin eins og hefði átt að vera. Einnig vil ég viðurkenna það, að till. bendir alls ekki á nein úrræði. Það er ætlazt til þess, að hæstv. ríkisstj. finni þau, því að þessi úrræði er í raun og veru ekki hægt að benda á. En þrátt fyrir þetta álít ég að ályktun frá Alþ., og hún ágreiningslaus, sé svo mikils virði, að það gæti riðið baggamuninn um það, að hæstv. ríkisstj. gæti komið brezku stj. í skilning um það, að líf þjóðarinnar væri blátt áfram undir því komið, að fiskiflotinn gangi ekki til þurrðar, heldur vaxi. Nú er það niðurstaða mín af þessum orðum, sem ég hef sagt, að mikið mundi heppilegra að samþ. till. eins og hún er á þskj. 82 heldur en brtt. Og ég vil alvarlega skora á alla þá hv. þm., sem eru þeirrar sömu skoðunar og ég um það að þetta sé verulegt nauðsynjamál, og að það mundi verða styrkur fyrir ríkisstj. að fá svona till. samþ., að greiða atkv. á móti brtt., en með aðaltill., vitandi það, að það er verið að hjálpa sjávarútveginum.