09.05.1941
Sameinað þing: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (3471)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Aðeins örfá orð. Ég hef náttúrlega ekki neinu verulegu að svara frsm. n., og hæstv. viðskmrh. hefur talað um örðugleikana á að flytja til landsins efni. En eins og ég tók fram í byrjun, þá er auðvitað ekki hægt að framkvæma svona till. nema með aðstoð brezku ríkisstj. Og nú er það vitað, og allt of vitanlegt mál, að landið hefur verið hernumið, og Bretar hafa þar af leiðandi útilokað, að við gætum, eftir sömu leiðum og áður, fengið efni í skip eða fullsmíðuð fiskiskip. Á Bretum hvílir þess vegna tvenns konar skylda í þessu efni. Fyrst og fremst að sjá um, að við fáum þessar nauðsynjar annars staðar frá, og í öðru lagi, að það sé unnt að flytja þær til landsins. Og það er við þessar framkvæmdir, sem hæstv. ríkisstj. á mestum örðugleikum að mæta. Og ég tók það einmitt fram, að ég álít, að svona samþykkt gæti orðið ríkisstj. stuðningur í slíkri baráttu. En þeim aðila, sem hefur hernumið þetta land og svo mjög er tregur til þess að skilja þarfir okkar, þarf að vera það skiljanlegt, að Alþ. telji það lífsnauðsyn, að þetta efni sé flutt inn. En þetta er ekki krafa um það, að þetta verði flutt inn. Þess vegna vildi ég hafa fyllra orðalagið á till., en ekki vegna þess, að ég efaðist um vilja ríkisstj., né heldur að ég sjái ekki, við hvaða örðugleika hún hefur að stríða. Ég hygg því heppilegra og betra fyrir hæstv. ríkisstj., að þáltill. verði samþ. eins og hún er á þskj. 82 heldur en að. henni verði breytt.