17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (3692)

100. mál, hafnbannsyfirlýsing Þjóðverja

*Einar Olgeirsson:

Ég bjóst satt að segja við því, að hæstv. félmrh. mundi svara fyrirspurnum mínum á þá leið, sem hann gerði. En ég vil gefa þá yfirlýsingu, að ef hæstv. ríkisstj. telur sér ekki skylt að ráðfæra sig við Alþ. um slík mál sem þessi, en tekur ákvarðanir um þau án þess að þau hafi legið fyrir Alþ., þá sýnir hún það á mjög átakanlegan hátt, að hún lítilsvirðir þingræðið í landinu og þá fulltrúa, sem þjóðin hefur kosið til að fara með umboð sitt á Alþ. Með því móti fer ríkisstj. út yfir það valdsvið, sem henni var ætlað. Hún er ábyrg fyrir Alþ., en ekki einstökum mönnum eða klíkum, sem hún kann að ráðfæra sig við. En hæstv. ríkis- stj. virðist telja sig meira ábyrga fyrir stj. þess erlenda hers, sem hefur hernumið landið, heldur en Alþ. sjálfu. Það hefur hvað eftir annað komið fyrir, að ríkisstj. hefur gefið út fyrirskipanir eða bráðabirgðal., sem hafa beinlínis verið sniðin eftir kröfum hinna erlendu valdhafa. Hún skoðar sig minna ábyrga frammi fyrir Alþ. Íslendinga heldur en hinum brezka innrásarher, sem hefur hertekið landið, og hans stj.

Þessi atriði vil ég láta koma alvarlega fram, þegar fyrirspurnum er svarað á þann hátt, sem hæstv. félmrh. gerði. Slík framkoma ber ekki vott um, að stj. hafi staðið vel á verði fyrir hagsmunum Íslands. Það hjálpar enginn derringur í slíkum efnum. Slíkt sannar aðeins eitt, og það er, að stj. þorir ekki að leggja fyrir Alþ. þau mál til úrlausnar, sem mikilvægust eru. Hún virðist ætla að fresta framkvæmdum þeirra, meðan hún er að ráðfæra sig við stj. hins brezka innrásarhers, hvað gera skuli. Mestöll verzlun vor Íslendinga er nú komin undir leyfum erlends manns, og stj. þess erlenda hers, sem hér situr, virðist ráða mestu um, hvernig það fer. Íslenzka ríkisstj. er nú búin að afsala meiri réttindum og sjálfsforræði heldur en þjóðin hefur trúað ríkisstj. fyrir í hendur erlends valds. Það situr því illa ú þeim manni, sem þjóðin hefur trúað fyrir utanríkismálunum, að neita að standa ábyrgð á gerðum sínum fyrir Alþ.

Þau ráð og framkvæmdir, sem íslenzka ríkisstj. hefur gert á síðastl. ári, hafa hvorki verið svo skynsamlegar né svo vel undirbúnar, að það hefði veitt af því að ræða þær á Alþ.

Ég vil um leið taka það fram, að hvað sálufélag snertir, þá býst ég við, að núverandi ríkisstj. telji sig eiga skyldara sálufélag við stj. þess erlenda hers, sem hefur hernumið Ísland og virðist traðka sjálfstæði þess undir fótum, heldur en þá menn, sem íslenzka þjóðin hefur kosið á Alþ. Íslendinga. Þetta virðist einkum koma í ljós eftir þá yfirlýsingu, sem nokkrir menn hafa gefið, um að ákveðna Íslendinga ætti að setja utan garðs í þjóðfélaginu og svipta þá þeim réttindum, sem stjskr. veitir og kjósendurnir sjálfir hafa gefið þeim. Ef, hæstv. ríkisstj. skoðar sig eingöngu sem stj. þeirra stétta, sem hún styðst aðallega við, sem sé mestu auðmanna landsins, útgerðarmanna og braskara og nokkurra hæstlaunuðu embættismannanna, en ekki annarra stétta þjóðfélagsins líka, og lítur því næst á hinn brezka innrásarher sem nokkurs konar bandamenn sína, þá hún um það. Það er líka auðséð, hvert stefnir með því háttalagi, sem ríkisstj. hefur tekið upp, með því er hún sjálf að drepa þingræðið í þessu landi. Öll stærstu málin hafa verið rædd og teknar ákvarðanir um þau, án þess að það hafi verið borið undir Alþ. Það er hlýðnisafstaða til erlendra valdhafa, sem mestu ræður nú um það, hvað gert er af hálfu íslenzkra stjórnarvalda. Ég mun, þrátt fyrir það, að hæstv. félmrh. neitaði að svara þessari fyrirspurn, bera fram brtt. viðvíkjandi þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, ef n., sem hún fer til, sér ekki ástæðu til þess að gera neina breytingu. Þar sem hæstv. félmrh. hefur ekki tekið afstöðu gegn því, sem hv. þm. Barð. lýsti yfir, að mótmæli hefðu verið send til þýzku ríkisstj., þá skoða ég það sem staðfest af honum, — ennfremur vil ég leggja áherzlu á það, að þáltill. verði frá Alþ: sjálfu, en ekki frá ríkisstj.