03.04.1941
Efri deild: 30. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Greinargerð þessa frv. ber það með sér, hvers vegna það er borið fram. Ég get upplýst, að nú þegar er byrjað að undirbúa flutning barna og unglinga úr bænum. Verða auðsjáanlega vandkvæði á því að afla nægra húsakynna í sveitum fyrir þá hópa, ef burtflutningurinn á að takast eins og ríkisstj. telur nauðsynlegt, bæði úr Rvík og öðrum helztu kaupstöðum, og þarf þá á öllum þeim húsakosti að halda, sem til er. Þó að ríkisstj. geri ekki ráð fyrir að þurfa að nota heimild þá, sem hér er farið fram á, heldur verði jafnan náð samningum um húsnæðið, þykir rétt, að jafnframt sé veitt heimild til leigunáms á húsum, ef ekki semst við umráðamenn þeirra. Því er heimildin sett í frv.

Það þykir eðlileg öryggisráðstöfun að flytja börn og unglinga úr bæjunum, og ef hægt er að sjá um, að vel fari um þau í sveitum, er það ekki síður heilbrigðisráðstöfun og þeim til þroska andlega ekki síður en líkamlega, meðan allir bæirnir eru fullir af erlendum her.

Ég vonast til, að hv. þdm. geti fallizt á að veita þessa heimild. Vil ég mælast til, að málinu verði vísað til 2. umr. og til allshn., ef þurfa þykir að senda það til nefndar.