08.04.1941
Efri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Hæstv. ráðh. minntist ekki á brtt. n., og lít ég því svo á, að hann sé þeim samþykkur.

Ræðu hv. þm. S.-Þ. get ég ekki svarað f. h. n., en vil segja það frá eigin brjósti, að ég er honum sammála um, að það er að sjálfsögðu mikið atriði, að umgengni sé góð í skólahúsunum. Þegar um vönduð hús er að ræða,. er illt að láta skemma þau, en mér hefur aldrei dottið annað í hug en að valdir yrðu menn og konur, sem ættu að stjórna barnahópunum. Sú litla reynsla, sem fékkst í þessum efnum síðastl. sumar, sýndi, . að reglusemi var prýðileg þar, sem börnum úr Reykjavík var fenginn dvalarstaður, og ég vænti, að svo geti einnig orðið nú.

Ég er alveg ósammála hv. þm. S.-Þ. um, að það eigi að taka undan viss skólahús. Hæstv. ráðh. benti á, að Bretar mundu hafa augastað á a. m. k. einu skólahúsi. Betra væri að geta notað þau fyrir okkar eigin börn, og ég er ekki í vafa um, að umgengni þeirra yrði betri en umgengni hermanna.

Varðandi það, að einhver þessara skóla séu skemmtistaðir að sumrinu, vil ég segja, að við þurfum um annað að hugsa en skemmtistaði, þegar ástandið er svo alvarlegt, að nauðsyn þykir til bera að flytja börnin burt. Fyrst og fremst erum við að bjarga okkar æsku frá þeim hættum, sem hernaðaraðgerðum eru samfara. Laugarvatn hefur verið setið undanfarin sumur af efnuðum borgurum, sem geta veitt sér aðrar skemmtanir. Ég er því þakklátur hæstv. ráðh. fyrir, að hann vill ekki gefa bindandi yfirlýsingu í þessu efni, og ég vona, að ríkisstj. athugi það vel, hvort nauðsynlegt sé að loka þessum stöðum fyrir börnunum.

Mér er sagt, að ef svo fari, að til verulegra hernaðaraðgerða komi hér, verði Laugarvatnsskólinn e. t. v. ætlaður sjúklingum. Þá væri tilganginum líka náð. Fyrst og fremst vil ég hugsa um æskuna og aðra; sem þarf að vernda. Skemmtistaðir efnaðra borgara verða að víkja fyrir þeirri nauðsyn.