02.04.1941
Neðri deild: 29. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

32. mál, fjarskipti

*Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Það eru ekki mörg atriði, sem, ég þarf að svara hjá þeim hv. þm , sem tekið hafa til máls, enda snertu ræður þeirra ekki sjálft efni frv., nema ræða hv. þm. Ísaf., og skal ég því fyrst svara aths. hans.

Hann spurði, hvort það mundi ekki leiða af þeirri brtt., sem felur í sér að fella burt síðari málslið 12. gr. frv. um störf og skyldur hrepps- og sýslufélaga í sambandi við rekstur og viðhald fjarskiptatækja, að niður félli sú heimild, sem símamálastj. hefði haft til þess að gera einstökum bæjarfélögum skylt að greiða, aukagjald, ef símastöðvar eru lengur opnar en tilskilið er í reglum landssímans.

Ég skal taka það fram strax, að ég tel, að þetta atriði sé ekki ákveðið í þessu frv., heldur verði það, eins og verið hefur, á valdi póst- og símamálastjóra að setja reglur um starfstíma talsímastöðva. Og það verður því að vera undir atvikum og aðstæðum komið, hvort og hvað þau bæjarfélög greiði aukalega, sem fara fram á að hafa stöðvar sínar lengur opnar en reglur landssímans segja fyrir um. Skoðanir hljóta jafnan að vera skiptar um það, hver sanngirni sé í því, að sumar stöðvar séu lengur opnar en tilskilið er, svo og hversu brýn ástæða sé til þessa hverju sinni.

Hv. þm. segir, að gert muni hafa verið upp milli bæjarfélaga í þessu efni, og nefnir það í því sambandi, að Vestmannaeyjar hafa haft sína stöð lengur opna án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Mér virðist, að hér hljóti að vera um samningsatriði að ræða, en tel rétt, að ríkisstj. hlutist til um það, að ein meginregla sé fundin og eftir henni sé jafnan farið, þegar undantekningar þarf við. En þetta áhrærir ekki það frv., sem hér er til umræðu.

Ég tel, að eðlilegast sé, að póst- og símamálastjóri meti hverju sinni allar ástæður í sambandi við slíkar undantekningar sem þessar og ákveði í sambandi við reglugerðina, hverja ábyrgð einstök bæjar- og sveitarfélög skuli bera á rekstri símastöðva að þessu leyti, og þær kvaðir, sem leggja skal á í sambandi við aukanotkun þá, sem hv. þm. talaði um. Annars er ég að sjálfsögðu fyllilega sammála hv. þm. Ísaf. um það atriði í ræðu hans, að nauðsynlegt sé og rétt, að eitt gangi yfir alla um útgjöld í. sambandi við þá notkun landssímans, sem hér var rætt um, ef póst- og símamálastjóri telur vera ástæðu til að veita slíkar undanþágur.

Ég vonast til, að hv. þm. Ísaf. telji sér vera nægilega svarað um þetta atriði. En ég skal að lokum benda á það, að mér virðist það vera hrein leið, að ríkisstj. blandi sér í málið og komi fastri skipun á í þessu efni, svo að ekki verði um villzt, hversu úr skuli leysa.

Þá kem ég að aths. þeirra tveggja hv. þm., sem gerðu að umtalsefni málfarið á frv. Ræður þeirra snerust aðallega um tvö orð. Ég gat þess, að ég hefði orðið þess var, að sumir hv. þm. hefðu ruglað orðinu „fjarskipti“ saman við orðið „fjárskipti“ í sambandi við mæðiveikivarnirnar. Ég minntist. þessa ekki vegna þess, að ég héldi, að nokkur hætta væri á, að þessu yrði ruglað saman í raun og veru, heldur tók ég dæmið sem sýnishorn um fjarstæðu, því að mér virðist einmitt, að menn hafi nú þegar vanizt orðinu nokkuð, og þannig tel ég, að fara muni, þega: þeim er orðið nafnið tamt, að þeir muni kunna vel við það, enda fer það vel í munni. Hv. þm. V.-Húnv. taldi eðlilegra að nota í fyrra hluta orðsins orðið „firð“. Samgmn. hafði að sjálfsögðu í huga allt, sem laut að því að vamla málfarið á þessu frv. En ég vil segja það sem mína skoðun, að orðið „firðskeyti“ og önnur orð, þar sem „firð“ er forskeyti, eru þegar fyrir löngu orðin úrelt, og mun alls staðar vera hætt að nota orðið „firð“. Ég hygg því, að ekki sé það til neinna bóta né glöggvunar, þótt „firðskipti“ væri tekið upp í stað orðsins fjarskipti. Annars skilst mér, að flestum hv. þm. falli þetta orð vel í geð, þegar þeir hafa athugað alla málavexti.

Í sambandi við málvöndun á þessu frv. vil ég benda á það, sem ég raunar vona, að hv. þdm. hafi veitt athygli, að n. hefur lagt til í brtt. sínum við 1. gr. frv., að í stað orðanna „fjarrænan flutning“ í 1. mgr. komi orðið „fjarflutning.“ Vona ég, að þessi lagfæring falli mönnum vel í geð.

Annars er skylt að játa það, að stundum var úr næsta vöndu að ráða, hvaða orð skyldi velja, með því að reynt var að fylgja sem nákvæmlegast texta þeirra erlendra laga, er um þetta efni fjalla og höfð voru til hliðsjónar, vegna alþjóðlegra ákvæða og hugtaka. Um Norðurlandatextana var þetta tiltölulega auðvelt, en hins vegar var franski textinn svo nákvæmur, að erfitt var að víkja í nokkru verulegu frá um orðalag án þess að efni raskaðist, Eins og orðin „fjarrænn flutningur“ bera með sér, geta þau táknað hvers konar flutning, á hverju sem er, milli fjarlægra staða, en í franska textanum eru þau ekki látin þýða annað en télégraphie og téléphonie. Eða nánar tiltekið það, sem við höfum í brtt. leyft okkur að kalla fjarflutning einu nafni. Og er því sú breyting gerð í samræmi við það. Telur nefndin, að það muni ekki valda neinum ruglingi, þótt þessi tvö orð séu á þennan hátt færð. saman í eitt.

Þá vík ég að ræðu hv. 4. þm. Reykv. Hann talaði um þá merkingu, sem orðið „virki“ hefði öðlazt sem karlkynsorð. Það er þess vegna eðlilegt, að menn velti því fyrir sér, hvort n. hafi ekki athugað þetta, eða hvers vegna hún hafi kosið að nota orðið „virki“ á þann hátt, sem hún gerði.

Því er til að svara fyrirspurn hv. þm., að nefndin hefur einmitt tekið þetta til athugunar, og þetta orð „virki“ í þessari merkingu er haft í frv. að athuguðu máli, einmitt vegna þess, að ég fyrir mitt leyti tel það hafa verið rangt að taka upp notkun orðsins „virki“ í karlkyni í samböndunum : útvarpsvirki, rafvirki o. s. frv. Sú meðferð orðsins er að mínu viti alröng að lögum íslenzkrar tungu, því að orðið „virki“ er nafn á hlut og tæki, en getur aldrei með réttu táknað þann er við tækið vinnur eða með hlutinn fer, fremjanda verknaðarins, heldur er rétt notkun orðsins sú, sem hér .er höfð, sbr. virki í söðli, víravirki, o. s. frv. Orðið táknar í sjálfu sér, eins og hér er líka gert ráð fyrir, hlut, tæki eða kerfi.

Ég mun hafa verið viðstaddur, þegar fyrst var farið að láta orðið tákna fremjanda verks, t. d. útvarpsvirki, og benti ég þá þegar á, að þessi notkun orðsins væri alröng og enda óþörf, þar sem til væri á íslenzku annað ágætt orð, samstofna við þetta, sem er orðið „yrki,“ er leitt er af orðinu verk og táknar þann, sem verkið vinnur, sbr. orðið „einyrki“. Samkv. þessu taldi n. sjálfsagt að halda orðinu virki í frv. í sinni upphaflegu og eðlilegustu merkingu, því að hún er rétt, en hins vegar er alrangt að kalla þá menn virkja, er tiltekið verk vinna. þessi skýring er rétt, og ég vona, að hv. þm. geri sig ánægða með hana.

Ég man ekki eftir fleiri atriðum, sem svara þurfi við, og læt þetta því nægja.