21.04.1941
Efri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

32. mál, fjarskipti

*Frsm. (Árni Jónsson) :

Herra forseti! Það er óþarfi að hafa mjög langa framsögu um þetta mál. Það er komið frá hv. Nd. og hefur fengið fljóta afgreiðslu það, sem komið er. Samgmn. þessarar d. hefur athugað málið nákvæmlega, og eins og nál. ber með sér á þskj. 193, höfum við mælt einróma með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Frv. var upphaflega flutt af samgmn. í fyrra vetur, en vegna hins breytta ástands, sem varð síðastl. ár, voru gefin út tvenn bráðabirgðal., sem tekin eru upp í þetta frv. Að öðru leyti er í frv. safnað saman ýmsum gömlum lagaákvæðum, sem hafa verið í dreifðum lögum frá ýmsum árum, og er það til mikils hægðarauka. Nd. hefur gert allmiklar breyt. á frv., og eru það sérstaklega orðabreytingar, vegna þess að hér er um nýmæli að ræða, og sum þessara orða láta nokkuð andkannalega í munni. Við höfum einnig athugað þetta atriði í samgmn., og jafnvel þó að við séum ekki ánægðir með sum orðin, t. d. sjálft heiti frv., „fjarskipti“, sáum við okkur ekki fært að gera neina breyt. til bóta. Ef það kemur í ljós við reynsluna, að þessi orð verða ekki munntöm, finnast vonandi seinna orð, sem tákna þessi hugtök betu.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en vænti. þess, að málið verði afgr. til 3. umr.