28.03.1941
Neðri deild: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

15. mál, hegningarlög

Einar Olgeirsson:

Það, sem hæstv. forsrh. sagði, eru ekki að neinu leyti rök móti því, að heppilegt sé að setja í okkar landi sérstök 1. um afskipti Íslendinga af setuliðinu. Það kom aðeins fram hjá honum, að ekki mætti láta viðgangast, að einstaklingar séu fluttir úr landi til dóms. En þetta er alveg eins hægt að hindra með því að hreyta landráðal. eða túlka þau á sama hátt og gert var með hæstaréttardómnum nýlega, sem hæstv. forsrh. hlýtur að viðurkenna, að hafi verið vafasamur. Það hefur ekkert komið fram í umr., sem mælti á móti því að setja sérstök l. til þess að hindra þessi afskipti og tryggja íslenzka ríkisvaldið. Ég vil taka hér fram, og ég hef áður sýnt fram á það með rökum, sem ekki hafa verið hrakin, að það brýtur í bág við hugsunarhátt þjóðarinnar að túlka slíkar gerðir sem landráð. Ég vil um leið benda hæstv. dómsmrh. á það, að á sama tíma sem hann segir, að stj. sé umhugað um að vernda það, sem eftir er af sjálfstæði landsins, gegn íhlutun erlends hervalds, þá lætur hún það viðgangast, að 10. kafli hegningarl. sé brotinn með þeim njósnum, sem hér hafa verið reknar fyrir brezka herinn. Ríkisstj. hafa verið sendar kærur út af þessum njósnadeildum, en þeim hefur hún algerlega stungið undir stól, af því að þetta voru pólitískir stuðningsmenn hennar. Með því að breyta þannig 95. gr. hegningarl. er hún gerð hlægileg. Þannig breytt á hún við hvaða erlent ríki sem er T. d. ef einhver sýndi brezka setuliðinu óvirðingu eða færi illa með hakakrossinn, kostaði það hvorki meira né minna en 6 ára fangelsi, og túlkað sem landráð við íslenzka ríkið! Ég býst við, ef á að koma einhverri skynsemi að við þetta mál, þá verði hv. þm. að leggja annan skilning í orðið „landráð“ og athuga allt málið vel frá rótum.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði, þá er ég hræddur um, að ennþá fámennara yrði hér í hv. d. heldur en nú, ef ætti að tína alla út, sem hlýða fyrirskipunum frá erlendum valdhöfum. Öll stjórnarblöðin hafa lýst yfir því, að þessi bráðabirgðal. hafi verið sett samkv. kröfu erlends valdhafa, og það kemur sjaldan fyrir, að stjórnarfl. viðurkenna, að þeir hlýði slíkum fyrirskipunum. Íslenzk stjórnarvöld hafa um mörg ár hlýtt kröfum erlendra valdhafa, en það hefur aldrei komið jafnskýrt í ljós og síðan hertakan fór fram. Þess vegna ættu þm. stjórnarfl. að tala varlega í þessum efnum. Ætti ekki sérstaklega að rannsaka, hver var í vitorði um hertöku Íslands 10. maí síðastl.? Hver notaði þennan þingsal til að bollaleggja um það, hvernig ætti að leyna þjóðina þessari ógæfu, þangað til hún kæmi? Ef þetta mál væri rannsakað ofan í kjölinn, er ég hræddur um, að einmitt þeir, sem gerzt hafa brotlegir við 10. kafla hegningarl. og framið eiginleg landráð, séu einmitt hv. þm. þjóðstjórnarfl. Ef þessir hv. þm. eiga nokkurn snefil eftir af samvizku, sem mér er nærri að halda, ættu þeir að tala varlega um landráð.