08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

15. mál, hegningarlög

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Ég sé ástæðu til að benda hv. þdm. á það, að þeir menn, sem telja illa við eiga að hafa í íslenzkum hegningarl. ákvæði eins og eru í 88. og 95. gr. hegningarl., ættu að bera fram brtt. um að fella þessar gr. niður, því að með þessu frv., sem er hér á ferð, er verið að gera ákvæði þessara gr. fyllri og ákveðnari, svo að það sé skýlaust, hvaða brot falla undir þær gr., auk þess sem það er ekki látið vera undir tilviljun komið, hvort embættismaður einhvers erlends ríkis eða stj. þess óskar eftir, að mál verði höfðað, heldur er sjálfum stjórnarvöldum Íslands falið á hendur að ákveða, hvort eigi að beita refsivaldinu gegn eigin þegnum. Umr. þær, sem beinast gegn sjálfum kjarna málsins, þær snerta því í sjálfu sér ekkert frv. út af fyrir sig.