08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

15. mál, hegningarlög

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Fyrirspurn hv. 7. landsk. um það, hvort ríkisstj. hafi vitað um það fyrirfram, að þessir menn mundu verða handteknir, hefur verið svarað, og þarf ég ekki að endurtaka það, sem hæstv. atvmrh. hefur sagt um það mál. Ríkisstj. var það vitanlega algerlega ókunnugt. Hitt er rétt að komi hér fram, að það hafði komið fram umkvörtun um það, hvernig þetta umrædda blað væri skrifað, og ríkisstj. hafði tjáð sig ófáanlega til þess að hafa afskipti af þessu blaði eða af blöðum yfirleitt og hvernig þau skrifuðu. En hvaða afleiðing sú neitun kynni að hafa, var ríkisstj. gersamlega ókunnugt.

Svo kemur annað atriðið. Hæstv. atvmrh. hefur þá afstöðu til blaðsins, sem hann hefur lýst, að hann álíti, að hlaðið hafi ekki verið tekið alvarlega, og þá hafi verið bezt að láta það skrifa áfram.

Ég hef álitið, án tillits til þess, undan hvaða blöðum hefur verið kvartað, rétt að láta landslög ganga yfir öll blöðin. Það var t. d. skrifað þannig um sáttasemjara í sambandi við vinnudeilur, að það er ekki vafi á því, að það varðaði langvarandi fangelsisvist. En vegna þess, að það var álitið, að þessi skrif væru ekki tekin alvarlega og þessi skrif gerðu þessum mönnum ekkert til, var álitið rétt að láta blaðið hafa þá sérstöðu, sem það hefur haft, og láta ekki til skarar skríða þrátt fyrir þessi skrif. Þetta blað hefur orðið að draga inn klærnar á sumum sviðum, þó að ekki hafi fallið niður hjá því ádeilur á íslenzka embættismenn, sem refsiverðastar eru samkvæmt hegningarl. Ég tel rétt, að þetta komi fram, fyrst spurt er um þetta mál og farið er að dylgja um handtökurnar, eins og hv. 7. landsk. hefur gert.