26.03.1941
Neðri deild: 23. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Pétur Ottesen:

Það er ef til vill ekkert undarlegt, þótt hægt sé að halda nokkuð langa ræðu um þetta frv., ef það er eingöngu skoðað í ljósi tímanna, sem nú standa yfir, því það kemur talsvert einkennilega fyrir sjónir, eins og ástandið er nú í viðskiptum okkar við útlönd. Segi ég þetta ekki af því, að því beri ekki að fagna, hver breyting hefur þar á orðið, heldur er það vitanlegt, að það hlýtur að skapa ugg að eiga allt það mikla fé, sem áskotnazt hefur, inni standandi erlendis í því landi, sem er annar stærsti stríðsaðilinn nú. En ég vil skoða þetta frv. í allt öðru ljósi en með tilliti til þess ástands, sem nú ríkir. Ég álít, að þetta frv. sé fram komið fyrir þá reynslu, sem fengizt hefur í viðskiptum okkar við útlönd, eins og þau hafa verið á undanförnum árum, en þá voru oft erfiðleikar með innflutning og greiðslur af lánum sökum skorts á gjaldeyri. Og út frá því sjónarmiði skilst mér, að frv. eigi fullkomlega rétt á sér. Mér skilst hins vegar, að miðað við eðlilegt árferði, þá geti orðið erfiðleikar á því að safna t. d. á einu ári slíkum sjóði, en þetta þarf engan veginn að standa í vegi fyrir því, að ekki sé réttmætt að gera slíkar ráðstafanir í viðskiptum okkar, sem stefnt er að með frv., og að því leyti get ég vel fallizt á efni frv.

Ég vildi hins vegar benda á 2 atriði, það er um stjórn þessa sjóðs, sem hér á að stofna til. Ég vildi benda á, hvort það öryggi, sem stefnt er að með þessari sjóðsmyndun, gæti ekki náð tilgangi sínum með því að bankaráð Landsbanka Íslands hefði með höndum þau atriði þessara mála, sem þeirri 7 manna nefnd, sem frv. gerir ráð fyrir að skipuð verði, er ætlað að annast. Það er að vísu svo, að það er gert ráð fyrir, að viðskiptamrh. sé formaður þessarar n., en ég verð að líta svo á, að þar sem formaður bankaráðsins er skipaður af ríkisstj., þá sé hann á hverjum tíma í svo nánum tengslum við ráðherra þann, sem fer með þessi mál, að þetta ætti ekki þess vegna að koma að neinni sök. Ég vildi aðeins skjóta þessu fram til athugunar fyrir n., sem fær málið til meðferðar, því það er eins og við vitum farið að verða blöskranlegt, hve miklu er hrúgað upp af nefndum.

Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á, var um eftirlit með lántökum erlendis. Það er sjálfsagt alveg rétt, sem hæstv. viðskmrh. tók fram um þetta atriði, að það er óefað nauðsynlegt að hafa eftirlit með lántökum þeirra aðila erlendis, sem hér er rætt um. Enda er það svo, að þetta ætti ekki að raska neinu verulegu, því það er vitað mál, að bæjar- og sveitarfélög taka svo að segja aldrei lán nema með ríkisábyrgð, eða svo hefur það verið til þessa. Alþingi verður að veita heimild til slíkra ábyrgða, og það heyrir undir ríkisstj. að ákveða, hvort hún notar slíka heimild. Svo að þessu leyti breytir þetta ákvæði raunverulega engu frá því, sem verið hefur á undanförnum árum, að því er þessa aðila snertir. Þá er hitt og líka rétt og sjálfsagt, að gera þeim, sem skulda erlendis, að skyldu að gefa upp þessar skuldir, svo að hægt sé að fá raunverulegt yfirlit um það, hvernig hagur landsmanna er við útlönd.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, vildi aðeins láta þessi sjónarmið mín koma fram.