26.03.1941
Neðri deild: 23. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. þm. Borgf. vék dálítið að því, að það kæmi einkennilega fyrir sjónir að bera slíkt frv. sem þetta fram, ef það væri skoðað í ljósi yfirstandandi tíma. Hv. þm. svaraði sér þessu viðvíkjandi að nokkru leyti sjálfur. Það kann að vera, að þetta frv. sé einkennilegt í þeirra augum, sem ekki sjá lengra en til morguns. En ef við athugum þær gjaldeyrisinnieignir, sem við nú eigum og myndazt hafa á 7 mánuðum, þá er ekki hægt annað en láta sér detta í hug, að þær geti líka minnkað ótrúlega ört. Og sannleikurinn er sá, að það hefur enginn hugmynd um, hve ört kann að geta gengið á þessar innieignir á sínum tíma, ég tala nú ekki um, ef við fáum þá tækifæri til að kaupa mikið af alls konar vélum, skipum og ýmsum framleiðslutækjum. Enn fremur vil ég leggja áherzlu á það, að ég tel heppilegt, að þessi löggjöf sé sett á meðan mönnum eru enn í fersku minni gjaldeyriserfiðleikarnir, sem við höfum átt við að búa að undanförnu. Ef þetta yrði ekki gert strax, þá gleyma menn þessu og koma ekki til með að hafa þann skilning á þessu máli, sem menn nú hafa. Það er þess vegna með ráðnum huga gert, og þrátt fyrir að við eigum ekki við neina gjaldeyriserfiðleika að stríða nú, að þetta frv. er lagt fram. Þess vegna er það bara eins og að tala í poka að tala um það, að með þessu móti séu skertir möguleikar landsmanna til að kaupa þær vörubirgðir, sem hugur þeirra kynni að girnast. Það er ákaflega auðvelt að sameina þetta tvennt, að leggja til hliðar í erlendum gjaldeyri þá upphæð, sem farið er fram á í þessu frv., og hafa til nægan gjaldeyri, að svo miklu leyti sem hann verður notaður til þess að kaupa vörur til landsins.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í það, sem sagt hefur verið um þetta frv. við þessa umr. Ég mun væntanlega við annað tækifæri minnast á atburði síðastl. árs og stefnu ríkisstj. í gjaldeyrismálum og svara þá þeim rógi, sem haldið er uppi af sumum þm. í því sambandi, en ég fer ekki lengra út í það að sinni.

Hv. þm. Borgf. talaði um það, að ekki mundi vera hægt, eða a. m. k. væri það ekki eðlilegt, að breyta til um yfirstjórn sjóðsins frá því, sem áður var gert ráð fyrir. Ég vil fyrst benda á það, að ekki er gert ráð fyrir í frv., að þessi 7 manna nefnd, er skipa á, hafi með höndum yfirstjórn sjóðsins, heldur á að leita álits hennar um það, hvort selja megi gjaldeyri úr gjaldeyrisvarasjóði, en stj. Landsbankans og ráðh. sá, er fer með gjaldeyrismál, hafa úrskurðarvaldið í þeim efnum, og er alls ekki ætlazt til, að það vald verði ekki áfram í höndum þeirra.

Ég vil benda þm. á, að þessi nefndarskipun er ákveðin með það fyrir augum, eins og ég tók fram áðan, að n. starfi sem föst mþn. undir forustu ráðh. þess, er fer með gjaldeyrismál, og að n. verði skipuð 3 fulltrúum frá Landsbanka Íslands, því að gjaldeyrisvarasjóður er eign þeirrar stofnunar, og 3 fulltrúum kosnum af Alþ. Þessi n. hefur talsvert annað hlutverk en bankaráð Landsbanka Íslands og mun líta nokkuð öðrum augum á verksvið sitt en bankaráðið.

Auðvitað er rétt að taka það fram, að bankaráð Landsbanka Íslands er alls ekki einvörðungu yfirstjórn þeirrar stofnunar, heldur hefur það einnig tillögurétt um fjárhagsmál yfirleitt, en þó lítur það fyrst og fremst á sig sem stj. sérstakrar stofnunar.

Það, sem fyrir okkur vakti, sem flytjum þetta frv., var, að þarna kæmist á fót n., sem liti alls ekki á sig sem stj. sérstakrar stofnunar, þar eð hún væri bæði skipuð fulltrúum stjórnmálaflokkanna á Alþ. og fulltrúum frá Landsbanka Íslands, og þess vegna hlytu sjónarmið beggja þessara aðila að koma fram. Ég held, að þm. þurfi ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því, að þessi nefndarskipun muni hafa kostnað í för með sér, þó að gert sé ráð fyrir, að n. haldi fundi minnst einu sinni í mánuði.

Það, sem sérstaklega vakti fyrir okkur flm. þessa frv., var svo hitt, að fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum á Alþ. kæmu fram með þær úrlausnir, sem flokkar þeirra vildu beita sér fyrir, og síðar væri hægt að krefja flokkana til ábyrgðar út af þeim, þegar þær liggja fyrir. Þetta er að vísu einnig hlutverk mþn. og sömuleiðis bankaráðs Landsbankans. En það er ávinningur að hafa þarna undir einu þaki fulltrúa bæði frá Landsbanka Íslands og Alþ:

Ég vil beina þeim tilmælum til Alþ., áður en gengið yrði inn á þá braut að breyta þessu frv., að þm. gæfu mér kost á að tala við sig um þessi mál, og e. t. v. er rétt, að hv. þm. Borgf. athugi það mál sérstaklega. Að öðru leyti vil ég þakka honum fyrir undirtektir hans í þessu máli. Mér fannst hann taka fram aðalatriði málsins, sem sé, að rétt væri að gera þessar varúðarráðstafanir einmitt núna, meðan mönnum er það í fersku minni, hve miklir erfiðleikar fylgja því að eiga við gjaldeyrisskort að búa.