30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Við 1. umr. þessa máls flutti hæstv. viðskmrh. talsvert ýtarlega ræðu um þetta frv. Ég hlustaði á hana með athygli, og eins og gefur að skilja, hef ég farið í gegnum grg., sem fylgir því, og að öðru leyti veitt því athygli, sem fram hefur komið í ræðum þeirra manna, sem hér hafa mælt með þessu frv.

Út af öllu þessu get ég sagt það, að margt af því, sem þessir menn hafa sagt, er tekið fram í grg. þessa frv. Það er rétt lýsing á því ástandi, sem við búum við, og athuganir á því, hvernig hefur gengið. Um þá hluti er ekki neinn ágreiningur frá minni hálfu. Af engu, sem fram hefur komið, hef ég getað sannfærzt um það, að í þessu frv. sé nokkur framtíðar trygging, sem varni því, að þeir annmarkar, sem fyrir liggja í okkar utanríkis- og gjaldeyrisverzlun, láti á sér bera framvegis eins og hingað til. Mér hefur fundizt, að algerlega vantaði rökstuðning fyrir því í þessu frv., hvaða trygging felist í því, að Landsbankinn taki þessa upphæð frá innieign sinni í enskum bönkum og leggi hana í sérstakan sjóð og kaupi fyrir það verðbréf, sem halda á sérstaklega frá öðrum eignum þessa banka, því það er tekið fram í þessu frv., að gjaldeyrisvarasjóðurinn sé eign Landsbankans. Mér sýnist þetta nokkuð álíka ráðstöfun eins og það, að einhver bóndi, sem ætti margt fé, tæki sérstakan hóp af því og léti hann í sérstakt hús og segði sem svo : Þetta fé má ekki deyja, því ég ætla að hafa það sem sérstaka tryggingu. — Ef hann missti nú allt sitt og yrði að gefa sig upp sem gjaldþrota mann, þá mundi vissulega verða gengið að þessum fjárhóp eins og öðrum. Á sama hátt held ég að hljóti að fara fyrir þjóðbanka okkar. Ef hann yrði gjaldþrota, þá yrði eins gengið á þessa upphæð eins og allar aðrar. Nú vitum við, að erlendis eigum við innieignir, sem nema allt að 100 millj. kr. Þótt teknar séu af þessu 12 millj. kr. og keypt fyrir það ensk verðbréf, þá skilst mér, að það sé ákaflega lítil trygging frá því, sem er, að Landsbankinn á þessa upphæð og hefur af henni öll not, sem tækifæri gefur til. Þetta er því minni trygging frá mínu sjónarmiði og minni varzla, af því að eins og nú stendur, þá vitum við ákaflega lítið um það, hvers virði þessar eignir eru eða kunna að verða. Og ég vil segja það, að það má búast við, að enn meiri sókn sé yfirvofandi í því efni að yfirfæra kostnað setuliðsins. Af því fyrirkomulagi að þurfa að yfirfæra allan þennan kostnað, stafar ekki einungis bankanum mikil hætta, heldur líka þjóðfélaginu.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. talaði um það, að það þyrfti að vera náið samstarf á milli þessara þriggja aðila, Alþingis, ríkisstj. og bankaráðs Landsbankans, þá er það rétt. En til hvers höfum við viðskmrh. og viðskmráðun., ef ekki á að hafa samráð við Alþingi og bankaráð Landsbankans og stjórn hans um helztu vandamálin á fjármálasviðinu? Ég verð að segja það, að það á að vera eitt af aðalverkefnum hæstv. viðskmrh. að sjá um, að náin samvinna sé á milli þessara aðila um fjármál þjóðarinnar. Þessi nýi gjaldeyrisvarasjóður ræður að mínu áliti ekki neinar bætur á því, að hér verði aukin trygging á þessu sviði.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. sagði og einnig er tekið fram í grg. frv., að það sé nauðsynlegt, að alltaf sé til laust fé erlendis til þess að forða okkur frá gjaldeyrisörðugleikum, þá er það rétt, að undir venjulegum kringumstæðum er það nauðsynlegt. Síðan stríðið brauzt út hefur þetta verið öfugt frá því, sem það hefur verið á undanförnum árum. Áður áttum við þar aðeins skuldir, sem jukust ár frá ári, en nú eigum við mikið af innieignum hjá því herveldi, sem hefur undirokað þessa varnarlausu þjóð. Þótt við eigum þessar innieignir, þá er það fé ekki laust, þó að við keyptum fyrir það brezk verðbréf, hvort sem það væru ríkisskuldabréf eða annað. Ég gæti meira að segja vel hugsað mér, að þær upphæðir, sem við eigum í brezkum bönkum, yrðu síðar meir felldar í verði. Af þessum sökum fæ ég alls ekki séð, að nokkur nauðsyn sé til þess að stofna þessa nýju n., sem virðist í raun og veru vera aðalatriðið í þessu frv. Mér skilst, að Landsbankinn gæti alveg eins tekið frá 12 millj. kr. og keypt fyrir þær verðbréf, ef honum væri fyrirskipað það af ríkisstj. Þörfina á þessari nýju n. fæ ég því með engu móti séð. Við höfum nú í bankaráði Landsbankans formenn tveggja stærstu þingflokkanna og 3 menn aðra, sem á hverjum tíma hafa nægileg tækifæri til þess að fylgjast með öllum okkar viðskiptum, út á við og inn á við, að því er snertir þann hluta þeirra, sem Landsbankinn hefur með að gera. Mér er ekki ljóst, þó við færum að kjósa einhverja aðra menn frá þingflokkunum í sérstaka n., sem hefði með þessa hluti að gera, að þá yrði að því nokkur aukin trygging.

Snertandi það, sem hv. frsm. meiri hl. n. og hæstv. viðskmrh. voru að tala um, að það skipti ekki mjög miklu máli, hvort sá kostnaður, sem af þessu leiddi, yrði greiddur af ríkissjóði eða Landsbankanum, þá .er það röksemd, sem ég gæti fallizt á, því bankinn er, eins og allir vita, eign ríkisins, svo að það skiptir vitanlega ekki máli, hvort það er að öllu. leyti greitt af bankanum eða ríkissjóði. Vissulega væri ekki heldur í það horfandi að leggja þessa upphæð fram. ef hér væri um nokkra tryggingu að ræða fyrir gjaldeyrisverzlun okkar í framtíðinni. Af því að ég get ekki komið auga á, að um það sé að ræða, tel ég óþarfa að leggja þessa upphæð fram.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að minnast á, nema eftirlitið með erlendum lántökum.

Á meðan við höfum starfandi jafndýra n. og gjaldeyris- og innflutningsnefnd hefur verið á undanförnum árum, þá ætti að vera auðvelt að setja það inn í gjaldeyrislögin, að sú n. skuli hafa eftirlit með erlendum lántökum undir yfirstjórn ríkisstj. Annars held ég, að meiri þörf sé nú á ýmsu öðru en að banna lántökur, því þær munu ekki vera líklegar á næstunni. Við eigum það næstum víst, að kreppa skellur yfir okkur að þessu stríði loknu, og þá getur frekar komið til þeirra kasta að ákveða,. hve þröngar skorður skuli setja um lántökur erlendis, en núna á stríðstímunum er ekki sjáanleg nauðsyn á eftirliti á þessu sviði.