06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil út af brtt. hv. þm. Dal. á þskj. 334, segja örfá orð. Brtt. er um það, að það skuli tekið fram í 2. gr. l., að gjaldeyrisvarasjóðurinn skuli vera í öruggum og frjálsum gjaldeyri, en hins vegar sé fellt niður orðið „erlendum“, sem orðin „öruggum og frjálsum“ komi í staðinn fyrir.

Í þessu sambandi vil ég upplýsa það, sem raunverulega liggur þó opið fyrir, að það er lagt á vald Landsbankans og ríkisstj., og þó sérstaklega Landsbankans, að ráða því, í hverjum gjaldeyri þessi sjóður skuli vera. Og það er hægt að lýsa yfir því hér, að hann mundi vera hafður í þeim gjaldeyri, sem hægt er að komast yfir öruggastan á hverjum tíma. Og að því leyti mundi það verða framkvæmt, sem a. m. k. fyrra orðið í þessari brtt. hefur inni að halda, og að því leyti er það því óþarft. Um síðara orðið, að gjaldeyririnn skuli vera frjáls gjaldeyrir, vil ég benda mönnum á það, að það er að mínum dómi heldur óheppilegt að setja þetta inn í frv., því að við vitum náttúrlega ekki með neinni vissu, hvað framtíðin ber í skauti sínu í þessum efnum og hvort ekki kann að verða tekið upp annað fyrirkomulag um gjaldeyrisviðskipti landanna heldur en verið hefur og minna kunni að verða um frjálsan gjaldeyri heldur en nú hefur átt sér stað. Þess vegna finnst mér vera varhugavert að setja þetta orð í frv., því að það gefur í skyn, að þessi sjóður ætti ekki að vera stofnaður nema frjáls gjaldeyrir væri fyrir hendi. Og þó að í brtt. sé talað um öruggan gjaldeyri, og þó að það yrði skilið, ef samþ. væri, þannig, að það ætti við þann öruggasta gjaldeyri, sem völ er á, þá vildi ég, að hv. flm. brtt. tæki hana aftur og léti sér nægja þá yfirlýsingu, að til sjóðsins mun verða valinn sá gjaldeyrir, sem öruggastur er talinn á hverjum tíma. En viðvíkjandi því, að ekki sé stofnaður slíkur sjóður nema völ væri á því, sem við höfum kallað frjálsan gjaldeyri, vil ég segja það, að mér virðist, að verulegt gagn mundi að því verða að stofna slíkan sjóð, þó að ekki gæti valizt til hans frjáls gjaldeyrir, eins og við notum það orð, ef gjaldeyrir sá, sem í sjóðinn er lagður, er gjaldeyrir þess lands, sem hefur verulega mikið á boðstólum af því, sem við þurfum til landsins að flytja. Og ég, geri ráð fyrir, að allir hljóti að vera sammála um það, að jafnvel þó að hvergi væri til frjáls gjaldeyrir, þá mundum við þurfa að eiga gjaldeyri. Og þá mundum við taka þann bundna gjaldeyri í þeim hlutföllum í þennan sjóð, sem við gerðum ráð fyrir að þurfa síðan að nota hann. Það er vitanlega bezt að hafa frjálsan gjaldeyri í þessum varasjóði. En ef hann er ekki til staðar, er bezt að eiga þann gjaldeyri, sem líklegast er, að við þurfum að nota.

Ég sé ekki, að menn hafi ástæðu til að setja það fyrir sig viðvíkjandi fylgi við þetta mál, þó að við getum ekki fengið það í þennan varasjóð í dag, sem við köllum frjálsan gjaldeyri.

Ég vildi fara fram á það við hv. þm. Dal., að hann tæki aftur brtt. sína á þskj. 334 gegn þeirri yfirlýsingu, sem ég hef gefið um það, að til þessa varasjóðs muni verða á hverjum tíma valinn sá gjaldeyrir, sem talinn er öruggastur. Enda tryggir þessi brtt. ekkert í þessu efni, þó samþ. væri, því að það mundi alltaf verða tekinn sá gjaldeyrir til sjóðsins, sem öruggastur væri talinn.