13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

49. mál, sparisjóðir

Frsm. (Stefán Stefánsson) :

Herra forseti! Þetta frv. er samið af milliþn. í bankamálum. Hún var skipuð 1937, svo frv. er vel úr garði gert, enda árangur af 4 ára starfi n.

Fjhn. hefur farið yfir frv. og borið saman þær breytingar, sem með því eru gerðar á gildandi sparisjóðalögum. Breytingarnar eru yfirleitt smávægilegar, en miða allar að því að koma starfsemi sparisjóðanna í fastara form, og eru þær aðallega í þrennu lagi :

1. Að takmarka og miða við eigið fé sparisjóða þá fjárhæð, er lána megi.

2. Að takmarka, hvað lána megi einum viðskiptamanni.

3. Að stofna tryggingarsjóð sparisjóðanna, sem hlaupi undir bagga í svipinn með sparisjóðum um greiðslu á innstæðum, ef óvæntar kröfur eru gerðar til þeirra um það, en fé þeirra hins vegar fast í útlánum.

Fjhn. telur þessar breyt. á l. miða til að auka öryggið að því er snertir starf sparisjóðanna. N. flytur nokkrar brtt. við frv. á þskj. 420.

Þær miða allar til bóta á frv. Að öðru leyti leggur n. til, að það verði samþ. óbreytt.