24.05.1941
Efri deild: 67. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

49. mál, sparisjóðir

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Um almennar ástæður fyrir þessu frv. tel ég nægja að vísa til allýtarlegrar grg., sem frv. fylgdi í fyrstu frá mþn. í bankamálum, sem frv. samdi, og það því fremur, sem þetta frv. gerir nú engar stórbreyt. á löggjöfinni um sparisjóði, þótt það yrði að l., því að aðalefni frv. eru ýmis ákvæði úr gildandi sparisjóðal. En þessum ákvæðum gildandi sparisjóðal. er í þessu frv. raðað skipulegar heldur en í þeim sparisjóðal., sem nú eru í gildi, og lögin lagfærð án þess að um margar verulegar efnisbreytingar sé að ræða. Í þessu frv. er gengið allmiklu lengra heldur en í gildandi sparisjóðal. í þá átt að tryggja rekstur sparisjóðanna og þar með að tryggja hag almennings, sem á fé sitt geymt þar. Því að sparisjóðirnir hafa ekki í raun og veru aðra tryggingu fyrir því, að þeir geti staðið í skilum við innstæðueigendur, sem trúa þeim fyrir fé sínu, heldur en þá, að þeir séu reknir haganlega og með þeirri varasemi, að fé tapist ekki. Einkum á þetta við um nýja sparisjóði, þar til þeim fer þá að vaxa fiskur um hrygg um söfnun varasjóða og annarra slíkra tryggingarsjóða.

Þau nýju ákvæði í frv., sem að þessu lúta, eru einkum þau: Í fyrsta lagi að takmarka við eigið fé sparisjóðs þá upphæð, sem hann megi hafa í útlánum. Ef þetta ákvæði hefði orðið að l. þegar eftir að frv. var samið, hefði það ekki dregið úr starfsemi nokkurs sparisjóðs í landinu, því að mþn. í bankamálum hefur haft skýrslur og reikninga sparisjóða undir höndum, og þeir hefðu þá allir fullnægt þessu ákvæði, en engin vissa er fyrir, að svo verði alltaf, og er þetta ákvæði sett til varúðar.

Í öðru lagi er það, að takmarka nokkuð, hvað lána megi einum viðskiptamanni eða fleirum, sem fjárhagslega eru tengdir. Það er vitanlega því meiri hætta fyrir stofnanir, einkum litlar, sem fé þeirra er bundið hjá færri viðskiptamönnum. Þetta er regla, þótt undantekning geti verið frá því.

Þá er í 3. lagi eitt nýmæli í þessu frv., sem má telja til tryggingarákvæða, að stofna sameiginlegan tryggingarsjóð allra sparisjóðanna, sem á að hafa það hlutverk að hlaupa undir bagga með sparisjóðunum, sem kunna að eiga örðugt með að greiða út innstæður eftir því, sem krafizt er á hverjum tíma. En þetta litla gjald, sem gert er ráð fyrir í frv., að sparisjóðirnir greiði í þessu skyni, á þó að vera eign hvers sparisjóðs og geymast í þessum sameiginlega varasjóði. Og stuðningurinn á ekki að vera annað en lán til einstakra sparisjóða, sem kynnu að þurfa á því að halda. En að sjálfsögðu má gera ráð fyrir því, að eitthvað af þessu fé, sem þannig er lánað til sparisjóðanna, kynni að tapast, einkum vegna þess, að til þeirra lána kemur tæplega fyrr en hlutaðeigandi sparisjóðir eru komnir í einhver vandræði. Og þá er náttúrlega frekar hætta á því, að eitthvað af þessu fé kunni að tapast. En að svo miklu leyti, sem fé ekki tapast, er það, sem hver einstakur sparisjóður leggur í þennan tryggingarsjóð, hans séreign.

Þetta læt ég nægja til skýringar frv. almennt, og í trausti þess, að hv. þm. kynni sér grg., því til þess var hún auðvitað ætluð, að í henni fyndu menn skýringar á frv., að svo miklu leyti sem lestur þess sjálfs ekki nægði.

Þetta frv. er búið að garga gegnum hv. Nd. og var þar samþ. með nokkrum breyt., sem allar snerust þó um eitt atriði. Eins og kunnugt er, liggur fyrir Alþ. frv. frá mþm. í bankamálum um eftirlit með bönkum og sparisjóðum. Og frv. sín miðaði mþn. við það, að þau yrðu öll samþ., og þau voru að því leyti frá hennar hendi í samræmi hvort við annað. Það er því þannig, að þetta frv., eins og það kom frá mþn., gerði ráð fyrir því, að upp verði sett sérstakt eftirlit með bönkum og sparisj. En hv. Nd. vildi ekki fallast á, að þetta yrði gert, heldur setti inn í ákvæðin til bráðabirgða fyrirmæli um, að sá ráðh., sem fer með bankamál, hafi sparisjóðaeftirlitið með höndum, þangað til sérstök l. kynnu að verða sett um sparisjóðaeftirlitið og þeim ráðh. heimilað að fela þann starfa sérstökum aðstoðarmönnum. Ég skal geta þess, að verði þetta frv. samþ. óbreytt eða með þeirri breyt., sem fjhn. þessarar d. leggur til, að gerð verði á því, þá lít ég svo á, að hér eftir eigi kostnaður af þessu sparisjóðaeftirliti að greiðast úr ríkissjóði, en ekki að leggjast á sparisjóðina. Því að það er ekki ákveðið svo í frv., að þessi kostnaður leggist á sparisjóðina, eins og er í gildandi sparisjóðal. Aftur á móti er það í frv. frá milliþn. um eftirlit með bönkum og sparisjóðum. Þar er gert ráð fyrir því, að kostnaður af því eftirliti jafnist niður á banka og sparisjóði. En þannig hefur nú hv. Nd. frá þessu gengið, og liggur hér engin till. fyrir um breyt. á því.

Fjhn. hefur nú haft þetta mál til meðferðar um nokkurn tíma. En ég verð að játa, að hún hefur ekki sinnt því mjög mikið, og afgr. hún það ekki fyrr en í gær. N. leggur til, að frv. verði samþ. með aðeins einni breyt., sem sé að orða um 20. gr. frv. Og þessi breyt., sem n. leggur til, að gerð verði á frv., gengur í alveg sömu átt eins og frv. að því leyti, að hún á að tryggja betur, að gætilega sé að farið um rekstur sparisjóða. Breyt., sem n. leggur til, að gerð verði frá því, sem 20. gr. er nú, er um það tvennt, að banna sparisjóðum að kaupa hlutabréf í öðrum fyrirtækjum og leggja bann við því, að þeir gangi í ábyrgðir fyrir aðra eða taki upp slíka starfsemi, eins og bankarnir gera, þegar þeir veita bankatryggingar. Þetta er vitanlega miðað við það, að sparisjóðirnir séu til þess ætlaðir og eigi fyrst og fremst að hafa það hlutverk að ávaxta fé almennings á sem allra tryggastan hátt.

Ég skal geta þess, að ég fyrir mitt leyti vildi helzt ganga að frv. óbreyttu eins og að kom frá hv. Nd., og það voru hv. meðnm. mínir, sem óskuðu að gera þessa breyt. á frv. En ég gat reyndar mjög vel gengið að þessari breyt., því að ég skal játa það, eins og ég hef vikið að, að hún er algerlega í samræmi við höfuðtilgang frv., og hafði ég ekkert á móti henni efnislega. En það var aðeins af því að nú er sjálfsagt komið alveg að þinglausnum, að mér þótti heldur lakara, að frv. færi að ganga aftur til hv. Nd. fyrir ekki stórvægilegra atriði heldur en hér er um að ræða. En ég skal þó ekki fjölyrða neitt um þetta frekar, því að ég gekk að þessu, og er því síður en svo, að ég sé að mæla á móti því, að þessi brtt. verði samþ. Úr því, sem komið er, mæli ég með því fyrir n. hönd, að frv. verði samþ. með þessari breyt., sem greinir á þskj. 617.