20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég hef nú átt tal við hv. n. um þetta frv., og það liggur að sjálfsögðu í hlutarins eðli, að það verður að skera úr því með atkvgr., hvernig þingið vill haga þessu. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að heppilegast sé, að þessu sé hagað eins og frv. gerir ráð fyrir.

Það er í raun og veru dæmi, sem er deginum ljósara, hvernig það getur farið, þegar Alþingi er að ráðstafa að meira eða minna leyti óvissum tekjum ríkissjóðs, binda þær m. a. með lögum án þess að vita, hvað tekjurnar verða miklar. Við höfum dæmi fyrir okkur, t. d. um tóbakseinkasölulögin, sem kveða svo á, að allan ágóðann af tóbakseinkasölunni skuli leggja í tvo tiltekna sjóði. Það er vitað, að fyrir Alþingi vakti það á sínum tíma, að þessar tekjur yrðu takmörkuð upphæð, eða um 200 þús. kr. á ári, og með tilliti til þess var þessu svo ráðstafað. Á síðasta ári urðu þessar tekjur hvorki meira né minna en á 15. hundrað þús. kr. Það kemur á daginn, að engum þm. dettur í hug að láta þetta gamla ákvæði einkasölul. vera í gildi áfram.

Mjög svipað getur farið um þetta. Vegamálastjóri sagði mér t. d. nú, að það væri enginn vafi á því, að benzínskatturinn færi á þessu ári meira fram úr áætlun en ráð var gert fyrir. Það er fyrir fram ákveðið, að þetta skuli lagt í sjóðinn, án tillits til þess, hver tekjuþörf ríkissjóðs kann að vera til annarra hluta, en þá á að binda fyrir fram óákveðna upphæð, að hún skuli leggjast í sjóðinn.

Ef á að binda þetta f því augnamiði að leggja það til vegagerða, þá er það í samræmi við vegamálastjóra, að ég ber fram þessa brtt. á þskj. 567, að ekki sé tekinn einn einasti vegur út úr og látinn njóta þess, sem rás viðburðanna kann að valda, hver afgangurinn verður, heldur jafna þessu niður á aðra vegi, að minnsta kosti að einhverju leyti. Og þó að því skuli ekki mótmælt, að ýmsir hv. þm. líta svo á, að það sé mikil nauðsyn á því að koma þeirri vegagerð áfram, sem hér er um að ræða í sambandi við þessa sjóðmyndun, sem sé Suðurlandsbrautinni, þá er ekki nokkur vafi á því, að ýmsar vegagerðir á landinu eru ekki síður aðkallandi en sú braut, sérstaklega nú, eftir að búið er að koma á tvöföldu vegasambandi milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins. Þess ber einnig að gæta, að þetta er geysimikið verk, sem þarna er fyrir höndum, og engar líkur til þess, að því verði lokið svo að það komi að gagni á næstu árum. Vegamálastjóri fullyrti við mig, að það, sem ógert sé í þessari vegalagningu, það muni nema ekki undir 2 millj. kr., og ég gæti hugsað mér, að ýmsum hv. þm. þætti hart að gengið, ef ætti vegna svo óvissra umbóta á þessum vegi að stöðva eða gera minna af framkvæmdum annars staðar.

En þetta er nú ekki mín afstaða í þessu máli. Ég álít, að þingið eigi að treysta sjálfu sér til þess að ráðstafa tekjum ríkissjóðs árlega eftir því, sem bezt hentar þörf landsins, og að það sé fráleitt af þinginu sjálfu að binda sínar eigin hendur um það, hvernig megi ráðstafa tekjum, sem það og enginn annar á að hafa til ráðstöfunar. Það er ekkert eðlilegra en að þingið geri á hverjum tíma ráðstafanir, eins og það hefur gert, bæði til þessara hluta og annarra, eftir því sem þörfin þykir mest kalla að. Og reynsla hefur fengizt fyrir því, að ef ríkið bindur fé fram í framtíðina, þá hlýtur að reka að því, að slík löggjöf er bundin og ríkisstjórnin fyrirskipar að fella niður ýmiss konar greiðslur, og ég er ekki í vafa um, að eins mundi fara innan skamms, ef till. n. yrðu samþ. Þetta á við bæði um framlag til brúagerða og framlag til Suðurlandsbrautarinnar, og yfirleitt allar slíkar fyrirframákvarðanir, sem hljóta að vera gerðar meira og minna blindandi.

Ég skal þó í sjálfu sér hvað viðvíkur brúasjóðnum viðurkenna, að það stendur nokkuð sérstaklega á með hann, vegna þess að benzínskatturinn var hækkaður um 1 eyri á síðasta þingi, og var ákveðið, að þessum auknu tekjum skyldi varið til nýrra brúa. Þess vegna hef ég látið það í ljós við hv. n., að ég teldi það í sjálfu sér skiljanlegt, að þingið vildi halda sér við það, en annars gildir hið sama um það og aðrar slíkar ráðstafanir, enda greiddi ég atkv. á móti því á síðasta þingi. En ef fara á út í það að binda þessar tekjur með nokkrum hætti, þá tel ég, eins og ég hef áður sagt, að það yrði heppilegast að gera það með þeim hætti, sem farið er fram á á þskj. 567, að sá afgangur, sem mundi verða, kæmi þá fleirum til góða en þessum eina vegi, og ekki síður fyrir þá sök, hverju hér er í rauninni á glæ kastað í bili, þar sem ekki er sýnilegt, að það komi að gagni á næstunni. Hins vegar er víðsvegar á landinu beðið eftir nauðsynlegum vegagerðum, sem hægt er að koma áleiðis með miklu meiri árangri fyrir líðandi stund en þessi vegagerð mundi hafa.