20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti! Frsm. n. hefur þegar gert grein fyrir till. n. og hvernig hún lítur á þetta mál, og ætla ég ekki að ræða frekar um það. En ég get ekki látið hjá líða að minnast örfáum orðum á þá brtt., sem hæstv. fjmrh. hefur borið hér fram, vegna þess að mér kemur hún nokkuð á óvart, og mér skilst, að eitthvað annað muni búa undir en þegar hefur komið í ljós. Þegar þetta mál var til afgreiðslu hjá n., þá var ráðh. með henni í ráðum, og hann lýsti því yfir á fundi n. þá, að hann hefði ekkert við það að athuga, að málið yrði afgr. með því móti, sem n. lagði til, þ. e. a. s. með því móti, að þessum eina eyri yrði, eins og áður er tekið fram, varið til brúagerða, og eftir að ráðstafað væri eins og getið er um í l. fé til vegagerða af þessum skatti, þá færu hinar óvissu tekjur til lagningar Suðurlandsbrautarinnar eins og stendur í l. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og bæjarfélaga, sem þetta frv. er tekið upp úr og á að vera áframhald af.

Mér virðist því, að hér muni vera um einhverja aðra yfirvegun að ræða hjá hæstv. ráðh. en hann lét í ljós við n., og virðist mér því eðlilegt, að þetta mál yrði tekið út af dagskrá að þessu sinni, svo n. gefist kostur á að athuga þetta nánar við ráðh., hvað valdið hefur þessum breyt. hjá honum.

Ég get lýst því yfir við hv. d., að ég er í raun og veru andvígur þessu, að framlengja þennan skatt, og það mjög. Ég lýsti því líka yfir á fundi n., að ég teldi það mjög óaðgengilegt að láta framlengja hann, nema vissa væri fyrir því, að þeir, sem verst yrðu úti vegna þessa skatts, fengju eitthvað í staðinn, sem gæti forsvarað það, að þessi skattur yrði látinn haldast, þrátt fyrir dýrtíðina, sem nú er í þessu efni. Og þó það væri ákaflega óvíst, sem með þessu móti kæmi til Suðurlandsbrautarinnar, þá virðist þó vera, að það gæti orðið eitthvað.

Vegamálastjóri virðist einnig hafa fengið einhverja eftirþanka, en eins og vitað er, þá hefur hann alltaf staðið á móti þessari vegalagningu. Hann hefur talið hana óþarfa og lagt frá upphafi á móti henni, og þá er ekki nema eðlilegt, að hann hamli því, að þetta komist áfram, eins og flm. hafa viljað, því að við höfum verið sammála um, að þetta væri bráðnauðsynlegt til þess að leysa samgönguerfiðleika hér á milli höfuðstaðarins og Suðurlandsundirlendisins.

Þegar þessi skattur var upphaflega lagður á, þá var það sett inn í l., að 20 þús. kr. af honum skyldu renna sem flutningastyrkur til þeirra héraða, sem þyrftu að flytja vörur lengstar leiðir og borguðu mest af skattinum. Þar með viðurkenndi þingið strax í byrjun, að viss héruð á landinu yrðu sérstaklega illa úti, og væri sjálfsagt að leiðrétta það að einhverju leyti. Ég veit, að þeir, sem þá áttu sæti á þingi, muna eftir afgreiðslu þessa máls.

Þessi styrkur féll furðu fljótt niður, þó að það sé vitanlega öll sanngirni, sem mælir með því, að hann héldist, en í þess stað var hafizt handa um að leysa á víðunandi hátt samgönguerfiðleikana við Suðurlandsundirlendið. Skaftafellssýslurnar og Rangárvallasýsla eru þær sýslur, sem mest borga af benzínskattinum, þar sem þær hafa engar hafnir og verða að flytja allar þungavörur um 100–300 km leið heim til sín. En það verður að viðurkenna, að nokkuð af þessum skatti hefur farið til Þingvallabrautarinnar og Suðurlandsbrautarinnar, og við, sem þekkjum til ferðalaga og flutninga á veturna á þessum leiðum, teljum það víst, að ef þessar 3 leiðir verða opnaðar og það fljótlega, þá væri allvel séð fyrir samgöngunum milli Suðurlandsundirlendisins og hafna hér vestan heiða, og mætti lýsa því nánar, ef ástæða væri til þess talin.

Eins og kunnugt er, þá er sú stefna nú uppi hjá Alþingi og ríkisstj. að fella niður skatta og létta þeim af, eftir því sem hægt er og það kæmi réttlátt niður, og þar sem þessi hækkun á benzínskattinum hefur verið bráðabirgðatekjuöflun undanfarið, þá væri það mjög eðlilegur hlutur, að hann væri ekki framlengdur nú, eftir þeirri stefnu, sem nú ríkir í fjármálum. Því að ef nokkuð er nauðsynjavara hér á landi, þá er það benzín. Það er alveg óhugsandi að halda uppi nokkurri framleiðslu nema með mjög mikilli benzínnotkun, og það er ekki neinn smáskattur, þegar benzínið er nú komið upp í 58 aura lítrinn, þá er það ekki smáræði, sem þarf til þess að reka allan þann vörubílafjölda, sem nú er orðinn nauðsynlegur þáttur í framleiðslustarfsemi sveita, svo að segja alls staðar. Þetta, að afnema hann, mundi þá fyrst og fremst vera að mjög miklu leyti eitt af því sjálfsagða, sem gera þyrfti, ef ætti að létta sköttum af nauðsynjavörum. En það, að ég gat verið með því, að þessi skattur yrði framlengdur, var, að Suðurlandsbrautinni yrði haldið áfram með meiri kraft en verið hefur hingað til. Það hefur verið álit Alþingis fram til þessa, að þessi vegur væri mjög nauðsynlegur, alveg gagnstætt því, sem vegamálastjóri hefur lagt til, og mér skilst, að

þessi brtt. hæstv. fjmrh. muni vera að undirlagi vegamálastjóra og að honum hafi ekki verið kunnugt um afstöðu vegamálastjóra til þessara framkvæmda áður.

Það er náttúrlega engin réttlæting í því hjá hæstv. fjmrh., að tekjurnar verði bundnar, ef till. n. verði samþ., því að þær verða jafnbundnar með till. hans. Það er aðeins afgangurinn, sem skiptist á annan veg. Það er reynt að dreifa honum, svo að hann kemur ekki að neinum notum, því að litlar upphæðir eru lítils virði í þessu efni, en ef um einhverja upphæð er að ræða. þá kemur hún að miklu meiri notum á einum stað en ef farið er að dreifa henni í marga staði. Mér þykir mjög sennilegt, að nægilegt fé verði fyrir hendi til þess að leggja í þessar smávegalagningar, eins og nú standa sakir. Hins vegar hefur ekki verið gert ráð fyrir eins miklu fé til þessarar brautar til þess að hún verði lögð á eins skömmum tíma eins og þörf er á.

Ég vildi benda á, að það, sem hér er um að ræða, er ekkert annað en þessi gamla barátta hér á þingi um það, hversu nauðsynleg þessi braut er. Hér er enn komið fram hið gamla vantraust til brautarinnar, og það, að mér skilst, að undirlagi hæstv. fjmrh., og hér er náttúrlega um sömu baráttuna að ræða í þessu efni eins og hefur verið hér á hæstv. Alþ. áður. Við, sem fyrst og fremst eigum að búa að þessari braut og höfum áhuga á málinu, að það fái viðunandi lausn, leggjum á það mikið kapp, að allt verði gert, sem hægt er, til þess að fá þessa braut sem fyrst. Og ef þessi brtt. hæstv. fjmrh. verður samþ., sem þýðir það, að ekki mega einu sinni standa sömu ákvæði í l. eins og áður viðkomandi Suðurlandsbrautinni, þá er ég algerlega á móti því, að þessi skattur verði lagður á.

Ég vildi, af því, sem ég þegar hef greint, mælast til þess, að þetta frv. verði tekið af dagskrá, svo að n. gæfist kostur á að tala við hæstv. fjmrh. um brtt. hans, sem hér liggur fyrir, en ekki hefur gefizt kostur á til þessa.