26.05.1941
Neðri deild: 67. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég geri ráð fyrir, að þessu máli verði ekki komið langt áleiðis með orðaskaki eins og hv. 1. þm. Rang. hefur haft hér. En slíkt orðalag eru aðalrök hans, sem er í raun og veru gott fyrir mig til andsvara. Ræða hv. 1. þm. Rang. er fjarri því að vera nokkuð

prestsleg að orðalagi eða flutningi, enda þótt hv . þm. sé prestvígður. Því að hans ræða snerist ekki um málefnið sjálft, heldur að mér persónulega, og telur hann, að ég sé að reka hér erindi Reykvíkinga, enda sé ég á þeirra framfæri. Hv . 1. þm. Rang., séra Sveinbjörn Högnason, hefði átt að vera uppi á dögum Ólafs Rögnvaldssonar og Gottskálks Nikulássonar, — þar hefði hann passað.

En úr því að hann er að minnast á það, að ég hafi mitt starf hér í Reykjavík, þá mætti minna hv. þm. á það, að einhvers starfs nýtur hann við afurðasölumál Sunnlendinga, og nýtur þar þó þess hagræðis að reka tunguna í rjómann.

Hv. þm. segir, að ég hafi gefið tilefni til nýrra brtt. En hvað gerir hann sjálfur? Hann er flm. að einni slíkri brtt., þannig að það, sem hann fordæmir, fremur hann sjálfur. Slíkt er prestslegt Hv. þm. hafði enn fremur eftir mér, að ég hefði ekki flutt brtt., ef n. hefði ekki komið með brtt. sem ákvörðun til sérstakra aðgerða. Já, mér varð hugsað til Hvítár í Árnessýslu, að þar væri ekki síður aðkallandi að fá brú yfir þá á heldur en þær ár, sem nefndar hafa verið í þessu sambandi. Og þeirri á eru meira að segja ákveðnar tvær brýr. Og vegamálastjóri hefur látið svo um mælt, að ein af þeim brúm, sem næst kæmu til greina, væri Iðubrúin.

Hv. 1. þm. Rang. hafði það eftir mér, að þarna væru 200 manns. Ég sagði búendur. Þá sagði hv. þm., að ég hefði verið að tala um að brjóta brautina beina. Það er rétt. En þeir, sem vilja fara Krýsuvíkurleiðina austur fyrir fjall, þeir vilja leggja mikla lykkju á leið sína, en ekki brjóta brautina beina. Ég vildi láta fara skemmstu leið milli Reykjavíkur og Suðurlands, sem er fær allan ársins hring, og það er þó nær því að brjóta brautina beina, og það hefur Alþ. játað. Og getur hv. þm. talað um það við hæstv. Alþ., en ekki mig.

Í fyrr í kap. ræðu sinnar talaði hv. 1. þm. Rang. um það, að það væri betur tekið út úr till. ákvæðið um að leggja í sérstakan sjóð það fé, sem verja á til Jökulsár á Fjöllum. En ég ætlast líka til, að það fé verði einnig lagt í sjóð. sem verja á í brú á Hvítá hjá Iðu.

Þá sagði hv. þm., að ég væri með þrákelkni í þessu máli og ég hefði í raun og veru ekki áhuga fyrir brú á Hvítá hjá Iðu. Hvernig getur hv. þm. rökstutt þetta mál sitt? Ég hef svo oft lýst því, hversu mikil nauðsyn það er fyrir þessar fjölmennu sveitir að fá brú á Hvítá hjá Iðu, og ég veit, að það eru margir á einu máli um það.

Það er bezt, að hv. þm. hafi þetta, svo getur hann talað í heilan klukkutíma.