09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (26)

1. mál, hervernd Íslands

*Ísleifur Högnason:

Aðeins örfá orð til að svara ræðu hæstv. forsrh., sem átti að vera svarræða til mín og hv. 1. landsk., en var það í rauninni ekki.

Það, sem hv. 1. landsk. sagði, var, að hann harmaði, að þingið hefði ekki fyrr verið kvatt saman en þetta til að taka afstöðu til þessa máls, og það var vel hægt fyrr. Ég lagði áherzlu á, að þingið yrði kvatt saman á meðan þingmenn hefðu umboð frá þjóðinni. Nú hafa þeir ekki umboð, því þeir sitja hér á ólögmætan hátt, eins og kunnugt er.

Svo er annað atriði, sem ég vil rétt minnast á. Það er, að hæstv. ríkisstjórn sjái nú að sér og hætti þeirri stefnu, sem hún hefur haft gagnvart Sovétríkjunum, og geri nú alvöru úr því að taka upp stjórnmálasamband við þau.

Ég bað áðan hæstv. forsrh. að svara því, hvaða afstöðu hann tæki til till. þeirrar til þál., sem bor in var fram af okkur þm. Sósíalistafl. um þetta efni. Þessu hefur hæstv. ráðh. ekki svarað, og vænti ég svars hans hið skjótasta og hvort ríkisstjórnin vilji láta taka þessa till. fyrir nú á þinginu.

Hv. þm. V.-Ísf. hélt hér langa r æðu og lagði mikla áherzlu á, að við værum lýðræðisþjóð. Ræða hans var þó loðin og of háfleyg, og margt gat ég ekki skilið í henni. Þó skildi ég það, að afstaða hans til Finna hefur ekki breytzt neitt síðan í fyrra. Eins og kunnugt er, þá var þ. 4. des. 1939 kvaddur saman lokaður fundur hér til að lýsa samúð með hinu svokallaða varnarstríði Finna. Álits okkar, þm. Sósíalistafl., var þó ekki leitað. Eins og venjulega var gengið fram hjá okkur, en ekki meira um það. — Sú stefna, sem hv. Alþ. tók þá gagnvart Finnum, virðist ekki hafa breytzt hjá þessum hv. þm. og fleirum, en ég skil ekki í öðru en að margir skammist sín fyrir þá afstöðu, sem þeir tóku þá. — Nú sést bezt, að afstaða Sovétríkjanna til Finnlands var rétt. Bretar eru nú að hjálpa Sovétríkjunum til að kveða nazismann niður, en á sama tíma eru hér menn, sem óska þess, að rauði herinn verði undir í baráttunni (sbr. Alþýðublaðið), en ef svo fer, þá steypir nazisminn sér yfir Stóra-Bretland, og þá verður Ísland einnig fyrir árásum þessara grimmdarseggja.

Án efa fer eitthvað af hergögnum, sem flutt verða frá Bandaríkjunum, til Rússlands, og Rússar eru að heyja baráttu við finnska og þýzka nazista, og enn þá eru menn samt með Finnum hér á hv. Alþ. Ég skil ekki, hvernig þeir fara að koma þessu heim áður en lýkur.