10.11.1941
Neðri deild: 19. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Þetta frv. er flutt af menntmn. Nd. eftir ósk dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Í l. um rithöfundarétt og prentrétt frá 20. okt. 1905 er gerð grein fyrir rétti höfunda. Þar er tekið fram um eignarrétt, útgáfurétt og rétt til þess að prenta rit sín á hvern þann hátt, sem höfundurinn óskar. Sami réttur nær og til málverka, stærðfræðiuppdrátta, landsuppdrátta og þess háttar. Höfuðatriði þessa frv. er það, að þó að 50 ár eða meira séu liðin frá dauða rithöfundarins, má ekki prenta rit hans, breytt að efni, málblæ og meðferð. Ef íslenzku fornritin eru gefin út, skal fylgt samræmdri, fornri stafsetningu, nema hvað handrit snertir, sem gefin skulu út stafrétt. Einnig er gert ráð fyrir því í þessu frv., að sé köflum sleppt úr riti, þá skuli þess greinilega getið á forsíðu titilblaðs.

Þetta eru höfuðatriði þessa frv., og er ætlazt til, að það komi sem viðbót við l. frá 1905 um rithöfundarétt og prentrétt. Tilefni þess, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur beðið menntmn. að flytja þetta frv., mun vera það, eftir því sem stendur í grg. frv., að í ráði er að gefa íslenzku fornritin út með nútímastafsetningu, jafnvel stytt og umrituð. En þetta er talið bæði óviðeigandi og viðsjárvert, og skuli þau skv. þessu frv. aðeins gefin út á samræmdu fornu máli. Þó að menntmn. geti búizt við, að einstakir nm. geti fallizt á brtt., var n. fús til að flytja þetta frv. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt lengra að sinni, en ég vænti þess, að málinu verði vísað til 2. umr. Þar sem það kemur frá n., er óþarfi að vísa því aftur til. n.