18.11.1941
Neðri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Einar Olgeirsson:

Ég sé, að hér liggur fyrir brtt. við þetta frv., og er ekki vanþörf á að sýna, að viðkunnanlegra sé að reyna að hugsa á íslenzku, því þegar þetta frv. var samið, þá var það augsýnilega hugsað á dönsku, a. m. k. 1. gr. þess. — Það er því að vissu leyti gott, að þetta hefur nú verið þýtt á þolanlega íslenzku. Ég vil nú fá hv. þm. til að athuga með mér, hvað menn eiga við, þegar þeir tala um vissa forna stafsetningu á Íslendingasögunum, því ég veit ekki betur en að handritin, sem Íslendingasögurnar eru ritaðar á, séu með stafsetningu þeirrar aldar, sem um ræðir í hvert skipti. Þegar svo fornritafræðingar gáfu þessi rit út síðar, þá sköpuðu þeir stafsetningu, sem þeim hverjum um sig fannst eiga bezt við. Ég hef gluggað í Íslendingasögurnar og Noregskonungasögurnar og séð, að um mismunandi stafsetningu er þar að ræða, og próf. Sigurður Nordal hefur staðhæft, að þessi svokallaða gamla stafsetning sé útilokuð. Hvers konar stafsetning er þetta þá? Er það einhver sérstök stafsetning, sem á að túlka fornmálið? Nei, það er hún ekki. Fyrir þá, sem nema fornmálið, er villandi að gefa fornsögurnar út á gamalli stafsetningu, með því að setja hánum í stað honum, og svo mætti lengur telja. Þessi stafsetning er því ekki rétt, og hún villir okkur og er ekki samræmd í þeim útgáfum, sem gefnar hafa verið út.

Ég vil svo víkja að því, hvort það sé nokkur goðgá að gefa fornsögurnar út með nútímastafsetningu. Þegar Njála var gefin út í fyrsta skipti hér á landi, í Viðeyjarklaustri árið 1844, þá var hún gefin út með stafsetningu þeirra tíma. Hún hefst þannig : „Mörður hét maður, er kallaður var Gígja, hann var son Sighvats hins Rauða, hann bjó á Velli á Rangárvöllum, hann var ríkur höfðingi og málafylgjumaður mikill, og svo mikill lagamaður að aungvir þóttu lögligir dómar nema hann væri í“ — Á þessu sést, að þeim, sem gáfu út Njálu þá, fannst sjálfsagt að gefa hana út á þeirra tíma stafsetningu, og var þetta þó á dögum Fjölnismanna, sem börðust fyrir verndun tungunnar. Enda er það rétt, því að það, sem prýðir hina fornu tungu, eru ýmis sérkennileg orð og málblærinn, og því þarf það að haldast.

Um 100 ár eru síðan þessi Njála var gefin út, og enginn hefur reynt að sýna fram á, að hún væri á nokkurn hátt skemmd á íslenzkum fornbókmenntum. Fyrir síðasta stríð voru og ýmsir menn fullir áhuga á að gefa fornbókmenntirnar út á nútímastafsetningu. Eitt finnst mér líka mjög einkennilegt. Það er, að hv. menntmn. Alþ. skuli ekki hafa snúið sér til neinna fræðimanna til að fá dóm þeirra um þetta frv. Árið 1939 kom fram frv. um að vernda nokkuð rétt íslenzkra rithöfunda, svo þeir væru ekki órétti beittir. — N. sendi þetta frv. til bókaútgefenda á landinu til að leita álits þeirra um þetta. –Bókaútgefendur voru till. n. mótfallnir, því þeir sáu, að ef Ísland gengi í Bernarsambandið, þá yrði þeirra hagnaður ekki sem áður. Þetta dæmi sýnir, að þarna var leitað álits manna, en nú er ekkert gert til að kynna sér álit fróðra manna á þessu frv., sem hér liggur fyrir. Hvers konar frágangur er þetta? Er þetta vöndun á því, sem þjóðinni er helgast? Mér finnst nauðsyn á að leita álits fróðra manna um þetta, t. d. væri gaman að vita, hvað prófessor Sigurður Nordal segði um það.

Svo vil ég víkja nokkrum orðum að orðum hv. 2. þm. Árn. Hann sagði, að ekki væri þörf að tyggja Íslendingasögurnar í æsku þjóðarinnar, og það er alveg rétt. Það er röng aðferð að haga sér þannig, en samt veit ég um einn mann, sem hefur gert þetta. Það er Jónas Jónsson frá Hriflu. Hann hefur gefið út Íslandssögu, og þar er tuggið á svívirðilegasta hátt í æskuna. Sagan er ekki einungis endursögð, heldur er einnig vitnað í fornsögurnar og það sett innan gæsalappa, en orðalaginu víða breytt. Það er alveg rétt hjá menntmn., að slíkt á ekki að láta líðast, en Íslandssaga Jónasar Jónssonar hefur verið kennd í skólum landsins um alllangt skeið, og menntmn. hefur ekki reynt að laga þetta.

Hv. 2. þm. Árn. minntist á sem aðalatriði, að íslenzka ríkið ætti eitt að hafa rétt til að gefa út fornritin. Finnst hv. þm., að íslenzka ríkið hafi staðið sig svo vel við útgáfu fornritanna, að þetta beri að gera? Finnst hv. þm. betra að trúa ríkinu fyrir útgáfunum heldur en einstökum mönnum í þjóðfélaginu? Jónas Jónsson var einu sinni kennslumálaráðherra, og ég minnist þess ekki, að hann sýndi nokkurn vilja í að vernda fornritin eða auka þekkingu landsmanna á þeim. Rítið „Verkin tala“ var sent, og það gefins, til þjóðarinnar, en ekki fornritin, nema þessi undarlega útgáfa af þeim í ritum hans sjálfs. Meðan menn eiga yfir höfði sér, að svoleiðis maður eigi að vera kennslumálaráðh., álít ég, að það sé ekki glæsilegt að eiga að einoka útgáfu fornritanna í höndum ríkisvaldsins.

Svo kom hv. 2. þm. Árn. með mjög svo „skemmtilega“ sögu um mann hér í bænum, sem farinn væri að fást við bókaútgáfu. Sumum mundi nú finnast ógeðfellt að vera með getsakir um menn, sem ekki eiga þess kost að svara fyrir sig, — sumir hv. þm., sem stökkva upp á nef sér jafnvel á lokuðum fundi út af slíku, af því að þeim þykir það ógeðfellt. Það er annars skemmtilegt, þegar staðhæfingar rekast svo gersamlega á eins og hjá hv. 2. þm. Árn. í ræðu hans áðan. Hann sagði, að maður þessi hefði ekki hagnazt mjög á smjörlíki, — en ég gæti nú samt hugsað mér, að það væri mjög góður gróðavegur og betri heldur en bókaútgáfa, — og það væri að þakka verðlagsn., sem þó starfar að því að hækka verð á vörum. Ég veit ekki annað en að verðlagsn. leyfi mönnum að leggja á vörur prósentvís, sem þýðir, að því dýrari sem hráefni verða í innkaupi, því meira mega þessir menn, sem nota þau til framleiðslu, leggja á þau. Þessi verðlagsn. er því sköpuð til þess að gera mönnum, sem stunda slíka framleiðslu, mögulegt að leggja sífellt meira og meira á sína vöru. Sumir hafa viljáð láta líta svo út sem þessi n. væri til þess sköpuð að lækka verð á vörum, en það er hreinasta bábilja. Þessi n. er gerð til þess að kúska menn ti1 að kaupa hráefnin þar, sem það er verst og dýrast, til þess að álagningin verði sem mest. Það stangast tvær fullyrðingar hjá þessum hv. þm. Svo talar hann um, að þessi maður, sem hann nefndi, hafi gefið út Laxdælu, og að hún sé borin út sem gjafabók í bænum, en í hinu orðinu, að það sé hagnaðarvonin, sem þessum manni gangi til með útgáfunni. Ég á bágt með að skilja, að þeir menn, sem vildu græða á bókaútgáfu, gerðu það með því að gefa mönnum stafla af þessum sömu bókum, sem þeir gefa út. Ég held, að menn ættu að vera ofurlítið meira í samræmi við sjálfa sig, þegar þeir deila á menn utan þings, sem ekki hafa tækifæri til að svara fyrir sig sjálfir, svo að þeir eyðileggi ekki hverja setningu, sem þeir tala.

Svo kom hv. 2. þm. Árn. inn á að tala um skemmdarverk, sem ætti að fara að vinna, og öll þau mismunandi stig, sem þau væru á. Það undarlega í þessu sambandi var, að þessi hv. þm. varð að viðurkenna, að þessi útgáfa, sem hann nú sérstaklega ætti við og í raun og veru hefði gefið tilefnið til lagasetningar þessarar, væri þannig, að við hana væri í raun og veru ekkert sérstakt að athuga. Nútímastafsetningin var sem sé ekkert aðalatriði í sambandi við það. Og þar sem stytting var á sögunni í þessari útgáfu, þar var sleppt köflum, sem kannske var ekki svo mikil eftirsjón í. Nú skulum við athuga þetta skemmdarverkaspursmál út frá því, sem hv. 2. þm. Árn. var að segja, hvort það sé þörf á að koma Íslendingasögunum út til fólksins. Hann sagði okkur skemmtilega sögu um, að hann hefði heyrt, að talað hefði verið um það á tveimur stöðum í bænum að Halldór Kiljan Laxness væri búinn að gefa út skemmtilega skáldsögu, þar sem tveir bræður væru að berjast um sömu konuna. Þegar það kemur fyrir á tveimur stöðum í bænum, sem hann þekkir til, að þar skuli ástandið vera þannig, að fólkið hafi aldrei heyrt Laxdælu nefnda, og þegar hún kemur út, þá renni það ljós upp fyrir þessu fólki, að þarna sé saga mjög spennandi um tvo bræður, sem berjist um sömu konu, en sér svo í formálanum, að þessi saga hefur gerzt fyrir 800–1000 árum, — getur ekki hv. 2. þm. Árn. þá séð, hvílíkt þarfaverk hér er verið að vinna með því að fá fólk til að byrja á að lesa fornsögurnar, af því að það haldi, að þær séu nútímasögur?

Svo segir hv. 2. þm. Árn., að þessi Laxdæla sé ekki þannig, að rétt sé að setja löggjöf út af henni út af fyrir sig, en svo bætti hann við : „En þeir, sem renna grun í framhaldið“ .... Já, þar liggur nú hundurinn grafinn. Ástæðan til þess, að þetta frv. er komið hér fram, er ekki sú, að Njála var gefin út fyrir nærri 104 árum á nútímamáli. Ekki heldur sú, að hv. þm. S.-Þ. hefur gefið út Íslendingasögur, eins og það var nú gert, heldur þessi Laxdæla, sem þó er, úr því sem komið er, látin vera og ekki talin óhafandi, en þó sérstaklega þetta: Þeir, sem renna grun í framhaldið. Svo kemur hv. þm. að skemmdarverkum nr. 2, þegar farið verði að endursegja Íslendingasögurnar. Hann veit af því, að einhverjir menn hér í þjóðfélaginu muni hafa ætlað að fara að endursegja Grettissögu, og þegar það vitnast, er farið til þessara manna og þeim hótað, að þessi Grettissaga, þegar hún komi út, skuli verða tekin svo fyrir, að ekki standi í henni steinn yfir steini. Hvernig stendur á því, að það var ekki þotið hér inn á hæstv. Alþ., þegar þessi Grettissaga var á ferðinni, og sett 1. um það, að það mætti ekki gefa hana út? Þá var treyst á það, að þegar væri farið að fara illa með Íslendingasögurnar, þá væru nægir menn til í þjóðfélaginu til þess að fordæma það svo gersamlega, að þær seldust ekki blátt áfram. Og þetta er það, sem ég álít, að eigi að gera. Og hv. 2. þm. Árn. hefur frætt okkur um, að þessi aðferð hafi reynzt góð, hún hafi komið í veg fyrir, að skemmdarverk nr. 2 hafi verið unnið, að endursegja Grettissögu. Og mér er ekki ljóst, af hverju þessi ágæta aðferð gæti ekki dugað áfram. Ég endurtek það því, sem ég sagði við 1. umr., að ég álít, að gagnrýni okkar þjóðar á þeim endursögnum, sem kæmu út af Íslendingasögunum, og áhugi hennar fyrir þeim, mundi 1eynast næg vernd fyrir þær gagnvart þeim, sem vilja skemma þær með slæmri meðferð í endur sögnum. Vonast ég því til þess, að hv. alþm. dragi af því réttar ályktanir, sem hv. 2. þm. Árn. hefur tekið hér fram viðvíkjandi þessu atriði.

Ég vil benda á, að með þessari brtt., sem hér liggur fyrir, er alls ekki komið í veg fyrir skemmdarverk. hað stendur í niðurlagi 1. gr., eins og lagt er til í brtt., að hún verði orðuð, með leyfi hæstv. forseta : „Eigi má heldur sleppa kafla úr riti, nema þess sé greinilega getið í útgáfunni.“ Það má þannig sleppa kafla eða köflum úr fornritunum, þegar þau eru gefin út, ef þess er greinilega getið í útgáfunni.

Svo kemur þessi hv. þm. að skemmdarverkum nr. 3, þegar farið er að skrifa sögurnar um. Það er einmitt það stig skemmdarverkanna, sem hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson frá Hriflu, gerði, og það er sannarlega nauðsynlegt að gera ráðstafanir gegn slíkum verknaði til þess að hann endurtaki sig ekki. En þær ráðstafanir er bezt að gera þannig, að slík verk séu gagnrýnd, þegar þau koma fyrir, svo mikið, að slíkt eigi sér ekki uppreisnar von. Frá mínu sjónarmiði er ekkert á móti því að setja l. í þá átt, að ekki megi nota til kennslu í barnaskólum skaðskemmdar og rangsnúnar útgáfur af Íslendingasögunum, þannig að menn geti ekki gefið út kennslubækur í hagnaðarskyni, eða láta gefa slíkt út á ríkisins kostnað til þess að „tyggja“ það í æskuna árum saman. Það þyrfti ekki meira til þess að koma í veg fyrir, að slíkar bókmenntir væru „tuggnar“ í æskuna en að kennslumálaráðuneytið væri dálítið vakandi.

Svo er eitt í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Árn. var að tala um, umskriftina á Íslendingasögunum og okkar fornritum yfirleitt. Nú langar mig til að spyrja þennan hv. þm.: Getur það ekki komið fyrir, að þeir menn, sem með framkvæmd 1. þessara ættu að fara, væru svo þröngsýnir, að þeir létu þess háttar lagabókstaf ná út yfir það, sem alls ekki var upphaflega ætlazt til með því að setja þessi l., þannig að þau væru látin ná út yfir það, sem sum af okkar beztu skáldum hafa lagt í, að búa til ný listaverk, t. d. leikrit, með efni úr okkar fornsögum sem uppistöðu listaverksins? Það væru kannske til þeir menn, sem mundu halda því fram, að það væri að umskrifa fornsögurnar. Við getum t. d. í því sambandi nefnt, að Jóhann Sigurjónsson hefur samið leikrit utan um sögulega viðburði og Matthías ort Grettisljóð. Yrkisefnin úr okkar sögum eru gullnáma fyrir okkar skáld. En það mætti kannske teygja bókstaf þessara l. nógu langt til þess að ná út yfir að banna að taka yrkisefni úr okkar sögum og halda því fram, að þar sé um að ræða umskrift. á þeim. Það væri hins vegar algerlega rangt að hindra skáld í því að geta ausið af þeim brunni, sem okkar fornsögur eru sem yrkisefni, og ég býst ekki við, að sú hafi heldur verið meiningin með þessum l.

Hv. þm. vill ekki, að það sé verið að þrengja skáldsögum upp á æskuna, en að sérstök útgáfa verði gefin út fyrir börn af fornritunum, og þá verði að gera þar algerðan greinarmun á sjálfum upprunalegu ritunum og þessum endursögnum.

Það nær ekki nokkurri átt að gera kröfu til máls og stíls og annars slíks neitt í líkingu og annars, þegar verið er að gefa fornrit út fyrir börn. Meiningin með útgáfu bóka fyrir börn, þegar þær eru umskrifaðar fyrir þau, er sú að kynna börnunum efni þeirra, til þess að reyna að laða þau til að lesa þær síðar á upprunalega málinu, þegar þau vaxa upp. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé meining hv. þm. með útgáfu fornritanna fyrir börn. Og þetta hefur verið gert úti í heimi, t. d. um rit eftir Shakespeare. Hann hefur verið endursagður fyrir börn, og þykja þær endursagnir með afbrigðum góðar og eru taldar með betri bókmenntum á 19. öldinni. Og fjöldi enskra barna, sem mundi gefast upp á Shakespeare, ef þau ætluðu að lesa hann, lesa þessar endursagnir, sem þá verða eins konar dyr fyrir þau til þess að ganga um inn í þennan helgidóm.

En í sambandi við þessar endursagnir vil ég vekja athygli á því, að hv. 2. þm. Árn. minntist ekkert á þær leiðinlegu endursagnir af íslenzkum fornritum, sem ég kom að í minni ræðu.

Ég sé ekki neina þá hættu á ferð í okkar þjóðfélagi, sem geti réttlætt það, að slík löggjöf sem þessi er hér á ferðinni. Ég sé ekki betur en að það sé hins vegar full ástæða til þess að vernda rétt núlifandi rithöfunda, hætta ofsóknum gagnvart þeim og hætta því að láta vera hægt að nota rit þeirra að þeim fornspurðum, eins og nú á sér stað. Ég fæ ekki betur séð heldur en að einmitt það, sem hér hefur komið fram í umr. um þetta mál, staðfesti það, að okkar þjóð sé fyllilega fær um að vernda sín fornrit með heilbrigðri gagnrýni, þannig að barátta gegn þeim tilraunum, sem hefðu orðið til að spilla þeim, hefur komið í veg fyrir, að þeim hafi verið spillt með slæmum endursögnum. Og jafnvel þeir, sem halda með þessu frv., geta ekki annað en viðurkennt, að stafsetningin sé ekkert aðalatriði. Jafnvel hefur ekki verið reynt að halda því fram, að hin forna stafsetning sé vísindaleg eða hentug að einhverju leyti, enda er hún hvorugt. Það er sem sé þannig, að ástæðan til þess, að þetta frv, hefur komið fram og er hér á ferðinni, er ekkert annað en firra og ákveðnir hleypidómar hjá ákveðnum manni. Og það væri hæstv. Alþ. ekki til sóma að fara að hlaupa eftir slíku.