19.11.1941
Efri deild: 23. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) :

N. hélt strax fund að aflokinni 1. umr. og komst að þeirri niðurstöðu, að hún ætti ekki öll samleið, því að þar kom fram bæði meiri hl. og minni hl. Meiri hl. vildi samþ. frv. óbreytt, en minni hl. vildi gera tvær brtt.

Ég vildi gera hér stutta grein fyrir aðalatriðum frv., því að ég tók ekki þátt í 1. umr.

1. gr. hefur það hlutverk að verja verk rithöfunda, þau sem lifa og eru gefin út, þegar liðin eru 50 ár eða meira frá dauða þeirra. Þetta hefur ekki verið til áður í íslenzkum 1., og er þetta tekið eftir norskum l. Hafa margir höfundar verið þess fýsandi, að þessu yrði komið á. Höfundum þætti það eflaust óskemmtileg tilhugsun, að hægt væri að gefa út rit þeirra að 50 árum liðnum frá dauða þeirra alla vega breytt. Mun flestum þykja sjálfsagt að verja höfunda fyrir slíku, og býst ég ekki við því, að þetta muni vekja deilur.

Um 2. gr., þar sem tekið er fram, að íslenzka ríkið eitt hafi rétt til útgáfu rita, sem samin eru fyrir árið 1400, er aftur á móti það að segja, að hér er um óvanalegt ákvæði að ræða. En það er líka óvanalegt, að nútímaþjóðir eigi svo gamlar bókmenntir, sem eru raunveruleg listaverk. Annars er ekki líklegt, að menn hefðu farið að óska eftir slíkri lagasetningu, ef ekki hefði reynzt hætta á, að þessi rit yrðu misnotuð í gróðaskyni. Það er öllum kunnugt, að fornritin eru stolt þjóðarinnar. Við gerum kannske of mikið úr því stundum, einkum erlendis, hve mikið við finnum til þessarar eignar, en hún er okkur áreiðanlega mikils virði. Það var nú gefið í skyn hér í dag, að ekki skipti miklu máli, þó að farið væri hirðuleysislega með þessi rit, því að það hefði verið gert oft áður, lélegar afskriftir teknar af þeim o. s. frv. En þessi handrit hafa nú samt alltaf verið okkur kær, við höfum t. d. viljað fá heim til Íslands þau þeirra, sem niður eru komin erlendis, því að við höfum talið það rangt, að handrit þessi væru í löndum erlendrar þjóðar.

Mér þótti undarlegt það, sem kom fram í ræðu eins hv. þm. hér í dag. Hann taldi það ákvæði óeðlilegt, að rétturinn til fornritaútgáfunnar skyldi vera í höndum ríkisins. Mér þótti þetta undarlegt, þar sem vitað er, að hann hefur verið manna skeleggastur í baráttunni fyrir því að fá handritin heim, sjálfan hinn dauða hlut. Ég hef verið samherji hans um þetta. En ef það er rétt að fá þennan dauða hlut heim, handritin sjálf, er þá ekki miklu sjálfsagðara að sjá vel fyrir lifandi anda ritanna með því að slá því föstu, að útgáfurétturinn skuli verið í höndum ríkisins? Þessi réttur hefur nú verið afhentur fornritafélaginu, sem hefur af miklum dugnaði og myndarskap tekið að sér að gefa ritin út. Það hefur verið álit þeirra, sem stóðu að þessari frumvarpsgerð, að þetta félag væri svo sérstakt og að því væri svo mikið að þakka fyrir ágæti þess og myndarskap, að það ætti að taka það fram, að þrátt fyrir ákvæði þessara l. hafi Hið íslenzka fornritafélag heimild til útgáfu fornrita. Má gera ráð fyrir, að engin ríkisstj. mundi neita um rétt til útgáfu eins og t. d. útgáfu Sigurðar Kristjánssonar af Íslendingasögunum, sem er eitthvert hið allra þjóðnýtasta verk, sem hér hefur verið unnið, þó að það fullnægi ekki tvímælalaust þeim kröfum, sem gerðar eru eftir því, sem menn nú líta á málið. Það er álit eldri manna, að nálega engin vakning hafi komið yfir Íslendinga eins og sú, sem stafaði af þessari útgáfu af fornritunum, þegar þessi rit komust í hendur þjóðarinnar, sem voru að vísu ekki íburðarmikil, en bættu úr þörf þjóðarinnar í þessu efni, og það var farið af fullri virðingu með þessi verk.

Ég geri ráð fyrir því, að þeir, sem vilja gefa út þessi verk, skrifi stjórnarráðinu og það ákveði, hvort það leyfi útgáfuna eða ekki. Og ég geri ráð fyrir, að ráðuneytið veitti öllum leyfi til þess, sem sýndu, að þeir gerðu það í góðu skyni og með fullri virðingu fyrir þessum bókmenntum, og gerðu það sýnilega í því skyni að auka menningu og sjálfsvirðingu þjóðarinnar, og þeim einum neitað um það leyfi, sem sýnilegt væri, að ætluðu að misbrúka það.

Eins og hæstv. fjmrh. tók fram í dag, er það misskilningur hjá þeim, sem halda, að stjórnin megi ekki leyfa að gefa þessi rit út nema með fornri stafsetningu. Það er á valdi stj. og fer eftir því, hvernig sótt er um það, og því, sem ríkisstj. og hennar ráðunautar telja rétt og gott vera.

Ástæðan til þess, að farið var að hugsa um þetta efni nú, var það, sem hv. 9. landsk. þm. er a. m. k. kunnugt um, að í blaði, sem hann vinnur við, kom tilkynning frá einum duglegum iðnaðarforkólfi hér í bæ um, að hann ætlaði að gefa út Laxdælu. Þessi tilkynning gaf til kynna, að hann þýddi hana á eiginlega nýtt mál, og að vafasamt væri, að afturhaldssamt fólk sætti sig við þetta. Og það var eiginlega gefið í skyn, að það ætti að umskrifa Laxdælu á vissa tegund nútímamáls. Þá var það, sem hv. 9. landsk. skrifaði mjög skarpa grein í Vísi á móti þessu, og ég skrifaði aðra grein um málið um sama leyti í annað blað. Og þegar sú vitneskja kom fram, frá þessum heimildum öllum, fyrst með tilkynningu þessa úgefanda og síðan þessum báðum blaðagreinum, þá hafði það alveg óvenjuleg áhrif, vegna þess að það virtist eins og hér um bil allt fólk væri samdóma um, að þetta ætti ekki svona að vera, þetta ætti ekki svona til að ganga, því að þarna væri farið út á leið, sem særði þjóðartilfinningu og metnað manna. Við hv. 9. landsk. munum hvorugur telja okkur neitt sérstaklega snjalla út af þessum greinum. En eftir að þær voru skrifaðar, kom mótalda gegn þessu, þannig að fólk sagði: Við getum þolað kommúnistum eitt og annað, en bara ekki þetta. — Svo hefði náttúrlega verið eðlilegast, að norrænudeildin hefði gengizt fyrir löggjöf um þetta efni, sem hv. 9. landsk. vill nú gera breyt. um, að ætti að vera úrskurðaraðili í þessum efnum, sem ég tel ekki óeðlilegt. En ég vil benda á, að norrænudeildin hefur ekkert gert í þessu. Þegar hv. 9. landsk. vaknaði til umhugsunar í þessu máli og þegar ég vaknaði, sem hvorugur er af okkur sjálfum eða öðrum talinn vera stórmenntaður í íslenzkum fræðum, þá var það einn aðili, norrænudeildin, sem ekkert gerði sem slík. En einn af aðalmönnum norrænudeildarinnar átti einn aðalþáttinn í því, að menntamálaráð ásamt stjórn Þjóðvinafélagsins skoraði á stjórnina að láta flytja frv. um þetta. Ég vildi láta hv. 9. landsk. vita þetta, að einn maður úr þessari stofnun, þar sem hann er með öðrum en sínum stéttarbræðrum, rís upp á móti þessu af fullum krafti, en sjálf norrænudeildin gerir ekkert í því, þó að það væri hennar skylda að koma hér fram sem aðili. Þess vegna held ég, að það sé alveg óhætt að fella þessa brtt. hv. 9. landsk., af því að samþykkt hennar mundi bæði verða til þess, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi, og í öðru lagi af þeim ástæðum, sem ég hef tekið fram.

Eftir að þessi almenni mótgangur kom á móti því að, fara að þýða Laxdælu á það mál, sem mæti kalla „tíkó“-mál, þ. e. lélegasta hrognamálið, sem talað er í okkar landi, þá breytti höfundurinn þessu. Því að það var vitað, að þjóðarmeðvitund Íslendinga mundi rísa upp á móti þessu, með því að þá hefði ekkert verið keypt af slíkri bók, sem þýdd hefði verið á götumálið í Reykjavík. Þetta veit hv. 9. landsk. manna bezt, og hann hefur bent á það í Vísi, að þarna varð stefnubreyting, þegar vitað var, að þjóðin mundi ekki gera sér það að góðu, að Laxdæla yrði þýdd á götumál né skemmd á annan hátt. En þó að það tækist í þetta sinn að afstýra þessu, undir pressu almenningsálitsins, þá er enginn kominn til að segja, hversu lengi það helzt. Svo þegar þessi smjörlíkisgrósseri, sem starfaði að þessari útgáfu, varð var við, að ríkisstj. var búin að biðja menntmn. Nd. fyrir frv. um málið, þá breytir hann til, þannig að það er ekki gengið eins langt eins og í boðsbréfinu. Hins vegar hugsar hann sér nú að verða á undan þinginu — og varð það, með því að hann lét vaka nætur og daga til þess að hraða þessari útgáfu Laxdælu, og mun ég segja nokkuð um hans framgangsmáta í því efni. Í tilkynningu sinni segir hann, að þessi bók eigi að vera prýdd myndum eftir Gunnlaug Blöndal. En það var í þetta skipti eins og Ameríkumenn segja um það, þegar einhver maður fer hart, þá fari hann eins og þjófur fari í stolinni bifreið. Þannig var farið að um þessa útgáfu. Hún var prentuð á lélegan pappír, viðhafður lélegur prófarkalestur, — bókinni var hroðað af. Það var eins og þjófur væri á ferð í stolinni bifreið. Það mátti ekki bíða eftir myndunum, því að það mátti til að komast á undan Alþ. með þetta. Myndunum var sleppt og sagt, að það mætti gefa þær út seinna, — og þá sennilega líma þær inn í þar, sem þær áttu að vera. En svo er ekki nóg með þetta, að þannig væri farið eins og þjófur væri í stolinni bifreið, því það var ekki minna eða mjórra en það, að Laxdælu var stolið. Það er ekki tekin til greina heimild fornritafélagsins, en viðurkennt, að hún er notuð. Og það er ekki annað en miskunn fornritafélagsins, ef það fer ekki í mál út af því, að tekin er þarna vinna fornritafélagsins, sem er afskapleg ófyrirleitni, þessi bók er nú seld í kápu á 14 krónur, en vönduð útgáfa fornritafélagsins af Laxdælu kostaði 9 kr. Jafnvel nýja útgáfan af Snorra er ódýrari en þetta og þó stærri bók. Það er auðséð á öllu, að það er eins konar ræningja- og menningarleysisaðferð í kringum allt þetta mál í öllum aðgerðum.

Hvernig er svo þessi útgáfa? Ég ætla ekki að þreyta hv. þd. seint á kvöldi með mörgum orðum um það. En í formálanum fyrir þýðingunni er talað um „kontrapunkta“ og „temu“. Ég get hugsað mér, að næst verði talað um, hvar kontrapunkturinn hafi verið í Guðrúnu Ósvífsdóttur eða Kjartani eða Bolla. En auk slettanna í formálanum er verið að gefa það í skyn, að Laxdæla sé skáldskapur. Það er hvorki meira né minna en að Laxdæla á öll að vera lygi. En við bókina er enginn efnislegur formáli, ekki sögulegar skýringar eða orðaskýringar eða registur. Svo er fellt úr sögunni hér og þar það, sem útgefandanum þóknast. Samt sem áður er ómögulegt að neita því, að þó að útgáfan sé svona fengin, svona hirðuleysisleg og vankunnandi, þá er útgáfa þessi ekki eins andstyggileg eins og boðsbréfið gaf til kynna og hv. 9. landsk, mótmælti fyrir sitt leyti, að gefin yrði út. Ég get látið vera þessa útgáfu. Þó að hún sé prentuð á lélegan pappír og ekki vandað sem skyldi til útgáfunnar að öðru leyti, geri ég ráð fyrir, að himinn og jörð forgangi ekki út af því. Það er svo mikið til af rusli, að ég held, að það geri hvorki til né frá.

Það, sem ég held, að hv. 1. þm. Reykv. sé ekki búinn að átta sig á, er, að meiri hl. þjóðarinnar og meiri hl. þingsins, eins og hann kom fram í hv. Nd., þar sem kommúnistar höfðu sömu afstöðu í þessu máli eins og hv. 1. þm. Reykv., er alvara með að láta ekki draga þá dýrgripi þjóðarinnar sem fornritin eru niður í saurinn. Ég ætla aðeins að benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að hann og ég og menn okkur snjallari hafa reynt að fá handrit að bókmenntum okkar flutt hingað heim frá Kaupmannahöfn. En hversu miklu fremur ættum við þá ekki að halda í heiðri anda bókmenntanna, sem fólginn er í þeim myndum, sem í fornritum okkar koma fyrir augu lesandans?

Það, sem hér liggur þá fyrir, er það, — og það er rétt að segja um það fáein orð, — að tilkynningin í Vísi var áreiðanlega alveg táknræn og sannleikurinn um það, sem átti að gera þarna. Ég veit ekki, hvort allir hv. þdm. vita, að hér fyrir nokkru var lögboðin stafsetning að tilhlutun prófessors í íslenzku við Háskóla Íslands, sem hann og margir beztu menn þjóðarinnar hafa viljað hallast að, og það er sú stafsetning, sem þessi smjörlíkiskarl tók svo upp, eftir því sem hann hafði vit á, í þessari Laxdælu. Það, sem átti að vinnast með þessari stafsetningu, var það að vera svona eins nærri eins og menn gætu hinum fyrri bókmenntum þjóðarinnar. En einum tveimur eða þremur árum eftir að þessi stafsetning var lögleidd, þá var farið að þrýsta á ríkisstj. og þá, sem með þetta höfðu að gera, um að slá undan í þessu efni og leyfa undanþágu fyrir barnaskóla landsins til að mega nota léttari stafsetningu, þó að börnin þurfi og eigi að læra hina erfiðari stafsetningu,

Þarna kom fram þessi flótti hjá nokkrum hluta kennarastéttarinnar frá hinni réttu stafsetningu og í þá átt að fá að nota þessa venjulegu, hversdagslegu stafsetningu, en það var undireins fallið frá því aftur að nota hana.

Hvað er nú um að ræða hér, þar sem eru þessar þýðingar á léttasta og lélegasta málið, sem talað er í landinu og hv. 9. landsk. hefur haft þá heppilegu líkingu um að kalla það „tíkó“mál, af því að orðið „tíkó“ er eitt einkennilegasta kallorðið í þessu götumáli?

Ódysseifskviða hefur verið gefin út í hinni vönduðu þýðingu Sveinbjörns Egilssonar. Og hún er fáanleg í bókaverzlunum hér í bænum fyrir 4 kr. eintakið. En smjörlíkiskarlinum og kommúnistum þótti þetta ekki nóg, heldur fannst þeim, að þeir þyrftu að draga Ódysseifskviðu niður í saurinn. Það hefur verið tekin einhver dönsk grautargerð úr Ódysseifskviðu og þýdd á íslenzku, og þetta er nú nýkomið út fyrir blessuð börnin. Ef þessi útgáfa er borin saman við þýðingu Sveinbjörns Egilssonar, þá verður maður að segja tvennt. Maður fær enn meiri aðdáun fyrir þessum manni, sem hefur — sennilega í leku húsi — á Bessastöðum unnið að þessari þýðingu, en á hinn bóginn megna óbeit á þessu vinnulagi, sem nú á tímum er að búa til „slang“ hér og bókmenntir fyrir „slang“. Þessi Ódysseifskviða, þessi þýðing á dönsku grautargerðinni úr því ritverki, sem verður af kommúnistum vafalaust reynt að koma inn í barnaskólana til fyrirmyndar til þess að vera „tíkó“-mál þar, er nýkomin á markaðinn, og menn hafa skemmt sér við að bera þetta hundamál saman við hina snjöllu þýðingu Sveinbjörns Egilssonar á Ódysseifskviðu, og þeir hugsa ekki blítt til þeirra, sem standa að þessu braski öllu saman. En náttúrlega var þetta ekki nóg fyrir þessa útgefendur. Þeir þurftu líka að taka Íslendingasögurnar sjálfar, og það er það, sem hér er um að ræða.

Hv. 1. þm. Reykv. segist treysta því, að dómgreind manna verði nægileg til forsjár í þessum efnum. En ég vil spyrja þennan hv. þm.: Er nokkur sér stök ástæða til þess með þessar sérstöku bókmenntir, sem við erum stoltir af og höfum barizt harðri baráttu til að reyna að fá handritin að inn í landið, að fara að hjálpa til að gefa þær út á skrílmáli? Það er hægt fyrir þessa andlegu vesalinga, sem eru á því stigi að vilja skrifa á skrílmáli, að semja eitthvað sjálfir fyrir götulýðinn, en það íslenzka mannfélag yfirleitt er alls ekki upplagt fyrir þess konar bókmenntir.

Ég vil benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að öll hv. Nd. fylgdi þessu frv., að frádregnum kommúnistum. Og fylgi við anda frv. er enn meira utan þings heldur en í þinginu sjálfu. Ég þykist þess því fullviss, að þegar hv. 1. þm. Reykv. fer að átta sig, sjái hann, að hann geti ekki haft neinn ávinning af fylgi við þetta mál í kjördæmi sínu. Það er ekki skríllinn í Reykjavík, sem fær honum þingmannssætið. En skríllinn skipar mann í eitt þingsæti hér á hæstv. Alþ., sem er sæti hv. 1. landsk., og það er því hans skylda við sína kjósendur og sitt lífsstarf að gera það, sem hann gerir í þessu máli. En öðru máli gegnir um hv. 1. þm. Reykv. Hann passar illa þar.

Þær röksemdir, sem ég hef fært fram nú, og þær röksemdir, sem hv. 5. landsk. og hæstv. fjmrh, hafa fært hér fram í dag, tel ég algerlega nægja fyrir þessu máli. Það getur vel verið, að hv. þd. felli þetta frv. nú í kvöld eða nótt. Það er þá ekkert að segja við því. Þá hefur „tíkó“-málið einhvern veginn óeðlilega mikið þingfylgi, miðað við fylgi þess utan þingsins. En ég geri ráð fyrir, að sá þingstyrkur mundi ekki endast lengi, vegna þess að hv. l, þm. Reykv. má vita það, að það er almenn fyrirlitning fyrir því. Og hann er fyrsti maðurinn, sem ég hef heyrt afsaka þetta framferði smjörlíkiskarlsins og kommúnistanna.