19.11.1941
Efri deild: 23. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Ég vil segja það fyrir mitt leyti, að ég er út af fyrir sig samþykkur þeim breyt., sem hv. minni hl. hefur lagt til, að gerðar verði á þessu frv. Mér finnst, að þótt hér sé um að ræða mál, sem ég er á móti almennt, og alveg óvenju vitlaust mál, sé engin þörf á, að það sé eins álappalega samið eins og það er. Og 1. gr. eins og hv. Nd. hefur gengið frá henni er alveg óframbærileg. Þar segir: „Þó að 50 ár eða meira séu liðin frá dauða rithöfundar, má ekki birta rit hans breytt að efni, meðferð eða málblæ, ef breytingum er svo háttað, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði tjón af.“

Það er alveg laukrétt, sem hv. minni hl. segir, að hér er ekkert sagt um það, hver á að skera úr um þetta mál. Meiri hl. segir, að það sé stjórnin og hennar ráðunautar. Þetta er hér ekki lagt á vald stj., og það er bókstaflega ekkert um það sagt, hver hafi þetta vald. Það gæti alveg eins verið, að mjólkursölunefnd eða hundahreinsunarmenn ættu að skera úr um þetta. Ef menning og tunga þjóðarinnar er að bíða tjón, þá má ekki minna vera en að vitað sé, hver á að segja til um það. Mér þykir undarlegt, ef þeir vilja ekki láta leiðrétta svona augljósan smíðagalla á frv. — ef þeir vilja ekki láta gera frv. þannig úr garði, að hægt sé að fara eftir því.

að koma einhver stjórnarráðsúrskurður um þetta í hvert skipti og taka þá bókina inn aftur? Mér virðist þetta undarleg afstaða. Hitt er minna atriði, hvort það er heimspekideildin, norrænudeildin eða einhver annar aðili. Látum það vera kennslumálaráðherra, aðeins að það sé ákveðið. Norrænudeildin stendur að vísu þar næst, hvort sem hv. þm. vilja við það kannast eða ekki, og við verðum að minnast þess, að mennirnir fara, en lögin standa, og þeim mönnum, er við norrænudeildina eru, ætti að vera bezt treystandi til þess að dæma í þessu atriði.

Nei, ég álít ekki frv. þannig úr garði gert, að ég geti verið með því, en einmitt það, að setja þetta ákvæði, er að lagfæra augljósan smíðagalla á því.

Það er alltaf verið að tala um, að þetta taki til fornritanna. Mér sýnist, að þessi 1. gr. taki til ákaflega margra rita. Hún tekur til allra þeirra rita, sem yfirleitt eru frjáls til útgáfu. Það verður ekkert smáræðis verk í þessu fyrir þá, sem eiga að hafa umsjón með því. Hvernig er það anað úrvalsljóðin, sem hafa verið gefin út og hv. þm. S.-Þ. hefur verið við, mætti ekki segja, að þau væru valin þannig, að þau spilltu tungu þjóðarinnar? Það er afskaplega margt, sem kemur undir þetta.

Í 2. gr. er ákveðið að miða þetta við aldamótin 1400. Það er svo margt, sem gefið var út fyrir þann tíma. Eins og t. d. annálar Gústafs Stolpes, sem hann gaf út. Hvaða áhrif hefði það á smekk þjóðarinnar, með hvaða stafsetningu þeir væru gefnir út núna? Það er eins og menn álíti, að ekkert annað en fornritin hafi verið gefin út fyrir 1400. Eins og það hafi svo mikil áhrif, að það, sem gefið var út eftir 1400, hafi minni rétt á sér. Hvaða breyt. varð hér með svartadauða, sem gerði þetta að verkum? Mér finnst, að þeir, sem undirbjuggu þetta í Nd., hefðu átt að taka fram, hvaða rit hér væri um að ræða.

Ég vil benda á það, að með þessu er engan veginn girt fyrir hvers konar útgáfu sem er af svona ritum. Það þarf ekki annað en að fara til Færeyja og gefa þau út þar. Það er hægt að gefa þau út í Danmörku. Á venjulegum tímum er þetta afar auðvelt, og maður þekkir það alveg, hvernig t. d. Þjóðverjar hafa gefið út einhver lifandi ósköp af enskum bókum og látið flæða yfir enskan markað. Það verður að bæta því við, að ekki megi flytja slíkar bækur inn. Þó þessi 1. verði samþykkt, er þetta ekki nokkur vandi. Ekkert annað en að fá einhvern lepp. Þeir spillast þá auðvitað ekki, prentararnir, af því að þurfa að setja bækurnar á þessu voðalega hrognamáli.

Nei, ef einhver alvara er í þessu, verður að undirbúa það betur. En það á auðvitað að bjarga heiðri þessa Alþ., sem þykir hafa afrekað lítið, með þessari löggjöf.

Það hefur nú verið rætt allmikið um málið, og skal ég ekki fara út í það. Ég vil taka undir það, sem hv. minni hl. sagði um verndun fornbókmenntanna, og erum við víst allir sammála um að gera, allt, sem unnt er, ekki aðeins til að vernda þær, heldur til þess að sem flestir lesi þær: Ég hef verið að hugsa um, að það þyrfti að koma þeim í skólana, m. a. með því að gefa þær út með nútímastafsetningu. Ég get alveg sagt það frómt, að þetta er ekki af virðingarleysi fyrir fornbókmenntunum, heldur finnst mér, að þessar fornbókmenntir okkar standi miklu framar öllu, sem við höfum afrekað, svoleiðis að það er ekki hægt að bera okkur það á brýn, sem erum á móti þessu frv., að við séum það af einhverju skeytingarleysi eða illvilja til okkar fornbókmennta.

Ég vil játa það, að ég hef ekki getað kynnt mér þessa útgáfu Laxdælu, sem umræður hafa snúizt hér um. Ég rétt sá hana og blaðaði í henni, og dæmalaust fannst mér málið fallegt á henni. Já, ég vil bara segja það, að undarlegt væri, ef málsmekkur manna og öll menning spilltist við þessa Laxdælu. Og það er ég alveg sannfærður um, af því litla, sem ég leit í þessa bók, að ef einhverjir slæddust til þess að lesa þessa útgáfu, sem ekki læsu Laxdælu annars, þá er ekki til einskis verið að gefa hana út, og þá liggur ekki á að samþ. þetta frv. í nótt. Það er ekkert í þessari bók, sem hv. þm. S.-Þ. kallar „götumál Reykjavíkur“.

Annars fannst mér hans ræða götumál, þegar hann talaði um smjörlíkisgróssera og smjörlíkiskarl. Þessi maður er dugnaðarmaður og stjórnar smjörlíkisverksmiðju. Smjörlíkiskarlar geta verið ágætir. Það var eigandi smjörlíkisverksmiðju, sem gaf stóran sjóð til menningarstarfsemi í Danmörku, þann stærsta fyrir utan Carlsbergsjóðinn. Mér finnst óskammfeilið að hnýta í menn fyrir þá atvinnu, sem þeir stunda, og að uppnefna finnst mér ósæmilegt á Alþingi.

Hann á að hafa stolið frá fornritaútgáfunni. Ég skal ekki segja um það. Það mun vera sagt í formálanum, að fornritaútgáfunni sé fylgt þeirri útgáfu er fylgt í öllum bókum Sigurðar Kristjánssonar, sem hafa gert mest gagn hér á landi, og aldrei hefur nokkur maður bendlað hann við þjófnað í því sambandi. Ég veit ekki, hvað útgefandi Laxdælu á að gera annað en að fara einmitt eftir fornritaútgáfunni, slíkt er auðvitað algengt og á ekkert skylt við þjófnað. Mér finnst það bara góðra gjalda vert að taka reyndar og góðar heimildir.

Hv. þm. kom nú inn á svo margt, t. d. að Laxdæla ætti öll að vera lygi. Ég veit nú ekki, hvort það liggur fyrir að ræða, hvað mikið er satt af því, sem hv. þm. kallaði lygi. Sigurður Nordal hefur sýnt fram á, að Hrafnkels saga sé skáldsaga, og menn greinir á um það, hvað mikið af Íslendingasögunum sé skáldskapur og hvað raunverulegir atburðir. Það er mikið, að Englendingar skuli lepja öll þessi ósköp af lygi eftir Shakespeare, sem þá er allt saman lygi frá upphafi til enda. Þetta kemur náttúrlega ekkert málinu við. Ef þetta er sagt í formála þessarar bókar, þá er það sýnilega skoðun þessa útgefanda, að Laxdæla sé að verulegu leyti skáldsaga. Og mér finnst nú einhvern veginn, að það ekki vera fjarri því, að hún muni vera það að nokkuð miklu leyti. Mér sýnist hún vera svo listræn að allri byggingu, að maður geti búizt við, að það geti verið með hana og ýmsar aðrar Íslendingasögur, að höfundarnir hendi ýmsa viðburði og persónur og skapi svo listaverk af. (BrB: Hann talar um hana bara sem listaverk.) Já, hann talar um hana sem listaverk.

Það er eitt, sem mér finnst svo einkennilegt, að menn skuli ekki hafa minnstu trú á, að fólkið muni um það dæma, hvernig þessi útgáfa er.

Það er eins og menn haldi, að menn geti gefið út Íslendingasögurnar á hvaða „tíkó“-máli sem er og ekki sé mögulegt að leiðbeina þeim. Það getur vel verið, að menn vilji skipuleggja smekk fólksins, eins og þegar menn höfðu trú á því, að það væri hægt að gera menn trúaða með því að neyða þá með gapastokk til að fara í kirkju og hafa á sér ytra snið guðrækni. Mér finnst, þvert á móti, eiga eins í þessu efni eins og trúmálum að vinna með munnlegri og skriflegri prédikun. Mundi þá smekkur fólksins dæma það norður og niður, sem óhæft væri, og auðvitað er öruggasta ráðið til þess, að það yrði ekki gefið út, að það yrði ekki keypt. Ég held, að þeir yfirleitt, sem lesa þess háttar bókmenntir, sem koma út á svo kölluðu „tíkó“máli, mundu ekki svo mjög lesa Íslendingasögurnar, heldur sögur eins og „Hinn óttalega leyndardóm“ og „Kapítólu“. Íslendingasögurnar eru þannig, að það er ekki gaman að þeim í þeim skilningi, að sá hluti þjóðarinnar, sem vill lesa „tíkó“-bókmenntir, fari að lesa þær.

Það skaut því einhver að mér eftir 1. umr., hvort ég vildi láta fara svo með biblíuna að þýða hana á Laxnessku. Því er þar til að svara, að það hefur verið ákaflega mikið gert að því að færa biblíuna til nútímamáls í ýmsum löndum. Það var t. d. fyrir nokkru síðan, að danskur málfræðingur þýddi nýja-testamentið á það mál, sem var alveg eins og hann hugsaði sér, að rit þess mundu hafa verið, ef þau hefðu verið skrifuð upphaflega á dönsku á þeim tíma, sem hann gerði þýðinguna, — sem sagt nú í dag. Ég skal ekki segja, hvort einstaka íhaldssamur maður hafi kannske ekki eitthvað blakað við þessu. En þetta verk þótti stórmerkilegt. Og fjöldi manna fór að lesa nýja-testamentið í þessari meistaralegu þýðingu og svo út frá því að athuga hina þýðinguna. Englendingar hafa sína autoriseruðu þýðingu af biblíunni, sem þeir nota í sínum kirkjum: En svo er fjöldi annarra þýðinga til af biblíuritum hjá þeim. Einn prófessor enskur þýddi t. d. allt nýja-testamentið og skrifaði við það skýringar, á því máli, sem hann hugsaði sér, að það hefði verið skrifað, hefði það verið upphaflega skrifað á nútímaensku, og t. d. bréf Páls postula hefðu verið gersamlega nútímaritgerð. Og ég hef staðið undrandi yfir því. Maður stendur undrandi yfir þeirri rökfimi og krafti og hvernig maðurinn er að berjast fyrir áhugamáli, þegar maður les ritin eftir að búið er að þýða þau á þetta nútímamál. Nei, biblían hefur ekki farið varhluta af þessu. Og biblían gamla stendur enn óhögguð, og ég veit ekki til þess, að nokkur menningarspillir hafi orðið að þessu. Alveg eins hafa verið gefnir út útdrættir úr biblíunni, biblíusögur og annað slíkt. Ef einhver áhugi er á því að fá bók lesna, þá er að mínu áliti ráðið að gefa út af henni slíkar útgáfur, eða eitthvað úr þeim, á þann hátt, sem hér hefur verið rætt um, á vönduðu nútímamáli. Og hér er ráðið til þess að láta fornbókmenntir vorar verða að gagni. En ég hef litla trú á svona stjórnarráðstöfunum, en meiri trú á einstaklingsframtakinu, og ég er mikið á móti því að vera að binda útgáfu fornritanna á þann hátt, sem hér er till, um.

Það var talað um það, að það ætti ekki að draga þessi rit, Íslendingasögurnar, niður í saurinn. Það liggur bara ekkert fyrir um, að það hafi átt að gera neina tilraun til þess né að nokkrum hafi dottið slíkt í hug. Hvers vegna hafa ekki þessi l. verið sett fyrir löngu, löngu síðan? Mér finnst það bara hlægilegt óveður, sem skellur á út af þessari einu útgáfu, og satt að segja allt of mikill heiður fyrir þetta verk, þó að einn útgefandi og eitt skáld taki sig saman um að gefa út eina Íslendingasögu, óbreytta nema að stafsetningu: Alþ. Íslendinga hefur nú þotið upp til þess á næturfundi að fara að gera veður út af þessu. Þetta er allt of mikill heiður. Svo er þetta svo mikil auglýsing, að bókin selst náttúrlega upp á auga lifandi bragði fyrir þetta. Mér finnst á hinn bóginn, að við drögum Alþ. þó nokkuð mikið niður á við með því að setja 1. eins og þetta, miklu meira heldur en Laxdæla er dregin niður með þessari útgáfu. Ég vil hafa fullt frelsi til að gefa út okkar rit á nútímastafsetningu. Hún er eins góð og þessi normalstafsetning. Ég álít, að hið opinbera eigi ekkert að gera í því máli annað en að styðja góðar útgáfur fornritanna, til þess að ekki komi slæmar útgáfur af þeim, og veita fé til þess, t. d. fornritaútgáfunni, og svo mikið, að hún geti selt bækurnar svo ódýrar, að fólkið kaupi þær. En ég álít ekki, að það eigi að þjóta í að banna að gefa ritin út. Ef einhver alvara er í þessum mönnum, sem þykjast bera þessi mál svo mjög fyrir brjósti, þá mundu þeir að sjálfsögðu veita ríflegt fé til fornritaútgáfunnar. Nei, ekkert annað en að banna. Hér er engin alvara á ferð. Það má ekki hrófla við þessum dýrgrip, sem fornritin eru. En hvort fólkið les þau eða ekki, —- það er eins og þeim, sem skoða sig verndara þeirra, standi nokkuð á sama um Það, því að til útgáfu þeirra er ekki veitt nema sultar framlag, sem gerir það að verkum, að bækurnar, sem út eru gefnar af fornritaútgáfunni, verða ákaflega dýrar.

Ég þakka hv. þm. S.-Þ. fyrir hans umhyggju fyrir mér út af því, hvað ég muni fá að heyra frá mínum kjósendum fyrir það, að ég er andvígur framgangi þessa máls. Ég veit ekki, hvernig almenningur snýst við þessum 1., sem hér á að setja. Ég get búizt við því, að það verði nokkuð pólitískt mótað eins og svo margt annað. Ég sagði við einn mann, sem var með þessu, sem svo, hvort hann hefði litið svona á málið, ef Ísafoldarprentsmiðja og Árni Pálsson hefðu staðið fyrir útgáfunni. Mér fannst renna á hann tvær grímur um það, hvort honum hefði þá þótt það eins alvarlegt. Hæstv. Alþ. á ekki að líta á svona pólitísk rök. En formálinn í Vísi fannst mér vera óheppilegur fyrir þetta málefni, því að í honum er bent lengra í áttina til þess, sem menn eru hér að mála á vegginn, heldur en rétt er og afsakanlegt. Og það væri leiðinlegt, ef ætti að fara að setja okkar fornrit á mál eitthvað svipað því, með öllu listfengi Laxness. Hann hefur skapað sér sinn eiginn óklassíska stíl, og væri leiðinlegt, ef fornritin væru sett á það mál. Ég býst líka við, að þau mundu ekki seljast á því máli.

Ég skal ekki miklu við þetta bæta. Ég sný ekki aftur með það, að Alþ. muni enga sæmd hafa af því að setja 1. eins og hér er frv. um, og sízt af því að leggja svo mikið kapp á það að sitja að næturlagi síðustu daga þingsins yfir löggjöf sem þessari. Ef þjóðin dæmir þetta þing hart fyrir athafnaleysi, þá er það að bæta gráu ofan á svart af þinginu, þegar það er búið að ljúka því verki, sem hélt því hér, að sitja yfir því að búa til eins hlægilega löggjöf eins og þessa, sem er ein hin lakasta og tilgangslausasta löggjöf, sem hefur komið fram á hæstv. Alþ. Ég get helzt líkt þessari löggjöf við mannanafnalögin, sem þingið var ginnkeypt við á sínum tíma, en alltaf hefur verið til vanvirðu fyrir Alþ. En ég þykist sjá, að það sé búið að búa svo sterklega um þetta mál, að það verði samþ. Og það stendur þá sem bautasteinn yfir þessu þingi.